01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í C-deild Alþingistíðinda. (2171)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Einar Arnórsson:

Jeg á að vísu brtt. á þgskj. 426, við frv. það, sem fyrir liggur. En þar sem jeg tel vafasamt, hvort jeg þarf nokkuð að mæla með henni, þá hafði jeg ekki neina ástæðu til að taka til máls við þessa umr., hefði ekki hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) vikið að mjer í ræðu sinni áðan. En fyrst jeg er staðinn upp, þá ætla jeg að byrja á brtt. minni.

Brtt. þessi er á þgskj. 426 og fer fram á, að föstum aðstoðarmönnum vega- og vitamálastjóra verði veittar 1.000 kr. í launauppbót, sem stjórnin skifti á milli þeirra eftir till. vega- og vitamálastjórans. Mig furðar, að nefndin skyldi ekki koma með till. um þessa breytingu, þegar henni var bent á það við 2. umr., að þessir menn hefðu fallið úr. Jeg hygg, að fyrir nefndinni hafi vakað sú ástæða til þess að sleppa þessum mönnum, að þeim er ekki bannað að hafa aukastörf með höndum. En þessi ástæða er lítils virði, vegna þess, að embættismönnum er yfirleitt ekki bannað að taka að sjer aukastörf, sem þeir geti haft tekjur af, ef þeir rækja embætti sitt vel og samviskusamlega fyrir því. Löggjafarvaldið hefir ekkert skift sjer af því, og getur ekkert skift sjer af því, ef störfin eru ekki því fjarskyldari því starfi eða því embætti, sem maðurinn á að gegna. — Hver getur t. d. bannað lækni, sem er prófessor í læknisfræði við háskólann, að hafa á hendi aukastörf við lækningar? Það er fyrst hægt að skifta sjer nokkuð af aukastörfum manna, þegar þau brjóta á einhvern hátt í bág við það starf, sem þeir eiga að hafa á hendi. Það er því engin ástæða til að útiloka þessa menn, sem brtt. fjallar um, fyrir þessa sök, ef þeir að eins vinna þau störf, sem yfirmenn þeirra ætla þeim.

Svo ætla jeg að leyfa mjer að drepa á annað atriði, sem virðist hafa ráðið atkvæði manna um annað mál hjer í deildinni. Það kom fram í umr. um till. til þingsályktunar um launauppbót handa símamönnunum, að menn mundu segja upp stöðum sínum og hverfa frá starfinu, ef kjör þeirra væru ekki bætt. En vita þá hv. þm. ekki, að verkfræðingarnir hafa ekki sjeð sjer fært að vinna fyrir landið, heldur hafa þeir gengið úr stöðum sínum og farið að vinna í þarfir bæjarfjelaga, eða þá „praktiserað“ sem sjálfstæðir verkfræðingar. Öllum er kunnugt um, að forstöðumaður vegamálanna fór þessa leiðina fyrir skömmu. Sama er að segja um aðstoðarmenn vegamálastjórans. Mjer er kunnugt um, að einn þeirra gekk í þjónustu bæjarfjelags hjer á landi, og jeg held mjer sje óhætt að segja það sama um annan. Það getur ekki gert neitt til, þó jeg nefni nöfn þessara manna. Það eru þeir Jón Þorláksson, Jón Ísleifsson og Hjörtur Þorsteinsson. Það hlýtur að vofa yfir þessum stöðum, að menn yfirgefi þær, þegar þeir geta annaðhvort fengið betri stöður hjá öðrum, eða þá sjálfstæðan starfa. Þessi hætta er auðvitað því meiri, sem stöðurnar eru ver launaðar. — þó að jeg líti ekki svo á, að það sje bráðnauðsynlegt að hafa altaf sömu mennina við hvern starfa, eins og t. d. póstmenn og símamenn, þá álít jeg, að það geti verið óheppilegt að hafa ekki sömu verkfræðingana lengst við þau störf, sem landið þarf að láta vinna.

Jeg ætlaði mjer að útbúa brtt. eftir formi þessarar greinar í frv. En jeg veit ekki, hvort nú er nokkur fastur aðstoðarmaður hjá vegamálastjóranum. Hjá vitamálastjóranum er einn fastur aðstoðarmaður, og eru honum ákveðin laun í fjárlögunum, 2.500 kr. Ef ekki er neinn fastur aðstoðarmaður hjá vegamálastjóranum, þá ætlast jeg auðvitað ekki til, að hinn fái nema sinn hluta af þessari uppbót, sem brtt. nefnir.

Þá kem jeg að ræðu hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hann sagði, að jeg hefði ekki reiknað rjett út dæmi það, er jeg tók við 2. umr. þessa máls. Það er að vísu rjett, að jeg hafði reiknað ofurlítið skakt, en sá misreikningur var mínu máli í óhag, en hans máli í hag. Mig langar nú til að sýna fram á, hvernig í þessu liggur, þó það komi ekki við þessari 3. umr. málsins. Jeg skal ekki tefja tímann mjög lengi.

Jeg tók til dæmis mann, sem hefir 3.500 kr. í laun og 3 börn að framfæra. Til þess að hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) geti fylgst með, þá skal jeg sundurliða þetta dæmi nánar. (Sv. Ó.: það var ekkert minst á börnin í líkræðunni. Það var áður, sem verið var að tala um þau). Jú, það var minst á börnin einmitt í þessu sambandi. Jeg hafði ákveðinn mann fyrir augum, sem sje skrifstofustjórann á 3. skrifstofu í stjórnarráðinu. Hann hefir nú í árslaun kr. 3.500,00 í dýrtíðaruppbót af því, kr. 525,00 = kr. 4.025,00. Eftir till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), ef þær hefðu verið samþyktar, þá hefði þessi embættismaður fengið í laun kr. 4.000,00 í dýrtíðaruppbót af því, kr. 325,00 = 4.325,00. Svo er þess að gæta, að þegar dýrtíðaruppbót er reiknuð af upphæð, sem nemur 4.000 kr., þá er að eins veitt uppbótin af launaupphæðinni, en ekki neitt framfæringafje. Þessi maður, sem jeg tók til dæmis, missir því 3x70 kr., eða 210 kr. Þegar svo er reiknaður út mismunur kjaranna eftir lögum um æðstu stjórn landsins ásamt lögum um dýrtíðaruppbót embættismanna og sýslunarmanna landssjóðs, og aftur eftir frv. því, sem fyrir liggur, ef brtt. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefðu verið samþyktar, þá verður mismunurinn ekki 115 kr., eins og jeg sagði við 2. umr., heldur 90 kr. — Nú getur maður gengið lengra og hugsað sjer, að þessi embættismaður eigi 6 börn innan við 14 ára aldur. Þá hefði hann tapað 120 kr. frá því, sem hann nú hefir, ef hinar margnefndu till hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefðu verið samþyktar.

Annars er ekki ástæða til að fara lengra út í þessa sálma. Það er búið að ræða um þetta hjer í deildinni, og hv. deild hefir sýnt, að hún kunni að meta till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) að verðleikum.

Jeg sje því ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þær.

Eitt atriði í ræðu hv. þm. Barð. (H. K.) tel jeg rjett að minnast á. Það var um þingfararkaupið. Hann ljet svo um mælt, að sumir þm., tók ef til vill fram berum orðum, að það væru Reykjavíkurþingmenn, mistu einkis í af störfum sínum við þingsetu. Segjum svo, að þetta sje rjett hjá hv. þm. (H. K.). En til hvers myndi það þá leiða? Ef hans hugsanagangur væri rakinn, myndi það leiða til þess, að þeir ættu ekki að fá neitt þingfararkaup. (H. K.: Þetta er útúrsnúningur). Ef þeir fá þingfararkaupið sem kaup fyrir unnið verk, þá er ekki unt að gera upp á milli Reykjavíkurþingmanna og utanbæjarþingmanna. Menn gæti greint á um, hver hafi unnið mest verk á þinginu. En enginn mun þó vilja halda því fram, að maður geti ekki unnið sitt verk af þeirri ástæðu einni, að hann sje Reykvíkingur.

En það er alls ekki rjett, að þeir þingmenn, sem búsettir eru í Reykjavík, sleppi engu af störfum sínum fyrir þingsetuna. Mjer þætti gaman að vita, hvað hv. þm. (H. K.) veit um þetta. Hvort veit hann um það, að jeg hefði ekki getað varið tíma mínum mjer til gagns og þarfa, hefði jeg ekki verið bundinn við þingsetuna? Jeg býst við, að hv. þm. (H. K.) yrði ógreitt um svör, er hann ætti að fara að sanna, að jeg hefði ekki getað gert neitt annað fyrir utan embættisstörf mín. Og sama mætti segja um flesta aðra Reykjavíkurþingmenn. En óþarfi er að fara út í slík atriði og segja, hvað menn hefðu gert við tíma sinn, ef þetta hefði verið eða ekki verið. Það væri sama sem jeg segði um hv. þm. Barð. (H. K.), hvort hægt væri að sanna, að þessi hv. þm. (H. K.) hefði unnið að búum sínum, en ekki legið heima í leti og ómensku, hefði hann ekki setið á þingi í vor. En auðvitað geng jeg að því vísu, að bæði hann og aðrir hv. þm. hefðu unnið að búum sínum, ef þeir hefðu setið heima.