16.05.1918
Efri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í C-deild Alþingistíðinda. (2318)

34. mál, úthlutun kornvöru og sykurs

Fyrirspyrjandi (Halldór Steinsson):

Þó að þessi fyrirspurn hljóði um úthlutun og sölu kornvöru og sykurs, verð ieg um leið að fara nokkrum orðum um landsverslunina yfir höfuð, þar sem þessi mál eru svo náskyld hvort öðru, en jeg skal reyna að vera stuttorður, að vanda.

Síðan landið tók verslunina í sínar hendur hefir óánægjan yfir henni stöðugt farið fremur vaxandi, og það er ekkert undarlegt, þegar litið er á fyrirkomulag og rekstur verslunarinnar frá byrjun. Þegar landsverslunin tók fyrst til starfa, var engin þörf á henni; þá var það engum erfiðleikum bundið að fá vörur frá útlöndum; þá var engin vöruekla í landinu, og mjer er ekki kunnugt um, að þá hafi kaupmenn borið upp kveinstafi sína fyrir stjórninni og óskað aðstoðar hennar. Ef stjórnin þá, af „praktiskum“ ástæðum, hefði haft hugfast að birgja landið upp að ódýrum vörum, þar sem fyrirsjáanlegt var, að þær fóru hækkandi ár frá ári, þá hefði það verið vel ráðið, og þá hefði landið getað grætt svo miljónum króna skifti á einstökum vörutegundum; svo jeg nefni að eins t. d. kol, salt og steinolíu. En sennilega hefir þetta ekki vakað fyrir stjórninni, heldur hitt, að koma í veg fyrir vöruskort í landinu. En hverjar svo sem ástæður stjórnarinnar í byrjun voru fyrir versluninni, þá er það víst, að hún var í fyrstu í molum og svo smáum stíl, að hún hvorki varð til þess að birgja landið upp nje afla því tekna. Það má með öðrum orðum segja, að verslunin hafi á þeim árum verið gagnslítil og meinlítil.

Í byrjun ársins 1916 fer fyrst að verða veruleg nauðsyn fyrir stjórnina að athuga, hvar skórinn krepti að, og fara að hafa vaxandi eftirlit með vörubirgðunum í landinu. Eftir því átti hún svo að haga ráðstöfunum sínum. En það gat hún gert miklu betur og landssjóði hagkvæmar en hún gerði. Hún átti þegar frá byrjun að hafa nána samvinnu við kaupmenn og eftirlit með þeim, og taka verslun landsins í sínar hendur að eins að svo miklu leyti sem kaupmenn gátu ekki fullnægt henni. Landsstjórnin átti hægt með að hafa eftirlit með vörubirgðum í hinum ýmsu hjeruðum landsins, og gat jafnframt haft eftirlit með vöruverði kaupmanna. Hún hefði einnig til frekari tryggingar getað haft fyrirliggjandi meiri eða minni vörubirgðir, og ef ekki hefði þurft á þeim að halda, var hægur vandi að selja þær kaupmönnum, og það með ágóða fyrir landssjóð, þar sem vöruverð fór síhækkandi. Ef stjórnin hefði hagað ráðstöfunum sínum á þennan hátt, hefði hag landssjóðs verið betur borgið.

En með árinu l917 kemur þriggja ráðh. stjórn til valda, — illu heilli, — liggur mjer við að segja. Þá breytist verslunaraðferðin. Sú stjórn setur ofarlega á sitt „prógram“ að versla og aðallega að draga verslunina úr höndum kaupmanna í sínar. Verslunin, sem upphaflega var fremur lítil, er því nú orðin að því heljarbákni, að ekki þarf mikið út af að bera til þess, að hún beri landssjóðinn sjálfan ofurliði. Jeg býst við, að stjórnin muni svara því, að hjá þessu hafi ekki orðið komist; þetta hafi verið samkvæmt vilja þingsins o. s. frv. En mjer er óhætt að fullyrða, að það hefir aldrei verið tilætlun þingsins, að verslunin yrði rekin í því horfi, sem hún nú er komin í, og á síðasta þingi heyrðust allháværar óánægjuraddir yfir rekstri verslunarinnar yfir höfuð. Samvinnufjelagshugmyndin, sem stjórnin ímyndar sjer að hún styðji með þessu fyrirkomulagi, getur verið góð og gagnleg, en ef hún getur ekki þrifist öðruvísi en með undirokun frjálsra verslunarviðskifta í landinu, þá er hún óheilbrigð, og þá á hún að vera feig. Stjórnin segir: Við höfum grætt miljón krónur á landsversluninni, en jeg segi: Við höfum tapað, ekki miljón, heldur miljónum króna á þeirri verslun. Það er sannanlegt, að kaupmenn hafa grætt miklu meira á vörum sínum síðan stríðið byrjaði. Þeir hafa því, um leið og þeir hjeldu lífinu í landsversluninni, með því að fylgjast með verði hennar, — auðvitað ekki af neinni umhyggju fyrir henni, — grætt stórfje í skjóli hennar. Landsverslunin er komin inn á öfuga braut, og ef hún heldur áfram að teygja arma sína út yfir alla verslun landsins, þá er hætt við, að hún beri keim af einokuninni gömlu og verði ekki til að draga úr, heldur miklu fremur til að auka á dýrtíðina í landinu.

Það hefir verið fundið ýmislegt að hinum einstöku gerðum landsstjórnarinnar í verslunarmálum, sumt rjettilega og sumt ranglega, eins og gengur, en jeg ætla ekki, að þessu sinni, að leggja neinn dóm á það. Jeg ber gott traust til þeirra manna, sem nú stjórna versluninni, og treysti því, að þeir fái komið einhverjum umbótum á hana, ef þeir þá á annað borð fá að ráða því fyrir landsstjórninni.

Eins og þgskj. 51 ber með sjer, þá var það aðallega út af reglugerð stjórnarinnar frá 23. jan. 1918, að jeg kom fram með fyrirspurn. Mig langar sem sje til að fá skýringu á því, hvað vakað hafi fyrir stjórninni með henni. Alstaðar annarsstaðar hafa slíkar reglugerðir verið gefnar vegna vöruskorts eða útlits fyrir vöruskort, og því í sparnaðarskyni. Menn skyldu því halda, að eitthvað svipað hefði vakað fyrir stjórn þessa lands. En ef reglugerðin er nánar athuguð, með hliðsjón af ástandinu, eins og það þá var hjer á landi, þá dylst manni ekki, að þetta er harla einkennileg ráðstöfun. Þegar reglugerðin var gefin út, var engin veruleg vöruekla í landinu. Hins vegar kann að vera, þótt mjer sje ókunnugt um það, að þá hafi verið útlit fyrir aðflutningsteppu á vörum frá Ameríku, og hafi svo verið, var aldrei nema sjálfsagt af stjórninni að gera einhverjar ráðstafanir til sparnaðar. En hafi stjórnin hugsað sjer, að það væri fengið með fyrnefndri reglugerð, þá hefir henni hrapallega skjátlast.

Eftir reglugerðinni er enginn munur gerður á þurrabúðarmönnum, daglaunamönnum í kaupstöðum og kauptúnum og bændum til sveita. Vjer Íslendingar lifum ekki, frekar en aðrar þjóðir, á einu saman brauði, heldur einnig á ýmsum öðrum afurðum, er landið gefur af sjer. Stjórninni var vorkunnarlaust að vita, að bændur komast af með miklu minni kornvöru en kaupstaðarbúar. Sá munur er svo mikill, að meðalbóndi mundi, án kornvöru að mestu leyti, geta haldið í sjer lífinu og fjölskyldu sinni, þar sem þurrabúðarmaðurinn ætti mjög erfitt með það. Enda hafa margir góðir bændur sagt mjer, að þeir teldu sig fara ráðlauslega með efni sín, ef þeir eyddu öllum þeim skamti, sem þeim er heimilaður samkv. reglugerðinni. Þess vegna átti vöruúthlutunin að vera mismunandi fyrir kaupstaði, kauptún og sveitir. Það fer því fjarri, að hægt sje að sanna, að ákvæði reglugerðarinnar hafi nokkurn sparnað í för með sjer.

Er fróðlegt í þessu sambandi að gera samanburð á neyslu þessara vörutegunda hjer á landi fyrir stríðið, þegar vjer vorum sjálfráðir um matarskamt vorn, og nú. Samkvæmt reglugerðinni frá í vetur fjekk hver maður kornvöruseðil upp á 40 kg., sem gilti í 4 mánuði eða 2½ kg. á viku, en það verða 130 kg. á ári.

Árið 1910 komu á hvern mann á landinu 118 kg. af kornvöru, og árið

1911 ………. 118 kg. á mann

1912 ………. 117 kg. á mann

1913 ………. 140 kg. á mann

Matarskamturinn í vetur er því samkv. reglugerðinni meiri en öll hin árin, nema árið 1913. — Þó að stjórninni hefði verið alveg ókunnugt um, hvað nauðsynlegt er af þessum vörutegundum á mann, þá hefði hún þó ekki þurft að fara lengra en reynslan var búin að sýna að var meira en nóg.

Beri menn saman sykureyðsluna, verður niðurstaðan sú sama.

Á árunum 1880—’90 koma 8—9 kg. af sykri á hvern mann í landinu; árið

1910 ………. 23,5 kg. á mann

1911 ………. 26,0 kg. á mann

1912 ………. 25,0 kg. á mann

1913 ………. 28,9 kg. á mann

En samkv. reglugerðinni átti hver maður að fá kg. á viku, en það verða 26 kg. á ári. Það er sami skamturinn og á árunum 1911—’12, og voru þó Íslendingar þá áreiðanlega komnir framarlega í sykureyðslu.

Sykurneyslan í landinu fram að aldamótum mátti ekki vera minni en hún var, því, eins og allir vita, er sykur eitt af þeim efnum, sem líkaminn getur ekki án verið; en eftir aldamót vex sykureyðslan mjög mikið, og er orðin óþarflega há 1910; þó vex hún eftir það.

Sykurneyslan hjer á landi var orðin alt of há fyrir stríðið, og hefði verið skaðlaust að minka hana að mun. Það er því fjarri því, að með reglugerð stjórnarinnar sje um nokkum sparnað að ræða, heldur þvert á móti.

Aðrar þjóðir, sem nú berjast við dýrtíð og aðra örðugleika vegna heimsstyrjaldarinnar, skilja það fullkomlega, að til þess að spara þurfi að leggja eitthvað á sig. Hjá Norðmönnum er t. d. sykurskamturinn helmingi minni en hjer og kornvöruskamturinn helmingi minni en hjer. Ætli Norðmenn sjeu þeim mun fátækari eða neysluminni en Íslendingar. Jeg held ekki. En þeir vita, hvað þeir eru að gera.

Jeg hefi nú sýnt fram á, að ástæðurnar fyrir reglugerð stjórnarinnar hafa ekki verið mikilvægar. Það er sannanlegt, að þessi ráðstöfun var gagnslaus að því leyti, sem hún hafði engan sparnað í för með sjer. Enn fremur er sannanlegt, að hún hefir komið ranglátlega niður í hjeruðum landsins. En það má einnig sanna það, að hún hefir orðið til þess að hindra viðskifti innanlands, og draga úr innflutningum til landsins. Það er vitanlegt, að kaupmenn hafa hætt við að flytja miklar vörubirgðir inn í landið, sumpart af því, að þeir hafa ekki viljað liggja með þær langan tíma, og sumpart af því, að stjórnin hefir ráðið þeim frá því og talið, að það væri samkepni við landsverslunina. (Atvinnumálaráðh.: Sannanir!) Get komið með þær síðar, ef menn vilja.

Ef stríðið heldur áfram, má búast við því, að svo kreppi að landsmönnum, að meiri sparnaður verði nauðsynlegur en hingað til hefir átt sjer stað. En þá verður að haga seðlaúthlutuninni alt öðruvísi, og um fram alt verður stjórnin að leggja aðalkapp á það, að þær vörur, sem yfirleitt eru fáanlegar í útlöndum, flytjist til landsins, hvort heldur það er landsverslunin eða kaupmenn, sem eiga kost á þeim. Frjáls samkepni í verslunarviðskiftum verður altaf hollust, og ekki síst á þessum tímum. — Þegar svona stórkostlegar ráðstafanir eru gerðar sem þessi, sem jeg hefi nú drepið á, þá á þjóðin fullkomlega heimting á, að ekki sje rasað að þeim. Hún á heimting á, að þær sjeu að minsta kosti bygðar á heilbrigðum grundvelli, en ekkert fálm út í loftið. Og þegar ofan á alt annað bætist það, að seðlaúthlutunin hefir haft mjög mikinn rekstrarkostnað og fyrirhöfn í för með sjer, þá sjá allir, að þegar litið er á árangurinn, hefir verið ver farið en heima setið.