01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í C-deild Alþingistíðinda. (2360)

5. mál, laun íslenskra embættismanna

Frsm. meiri hl. (Pjetur Ottesen):

Viðvíkjandi því, sem hæstv. forsætisráðherra sagði, að það hlyti að vera sagt móti betri vitund, að ekki mætti taka út úr heildinni einstaka liði launamálsins og breyta þeim, þá verð jeg, að því er snertir meiri hl. allsherjarnefndar, að leyfa mjer að mótmæla þessu. Þeir menn, sem hjer er um að ræða, eru í hæstu launaröð allra embættismanna landsins. Þeim, sem lægra eru launaðir, væri því stór órjettur ger, ef farið væri að taka þessa menn út úr og hækka laun við þá, en láta alla aðra sitja við sömu kjör og áður. Þegar svona stendur á, eins og hjer, að miða verður launabætur manna við sannar þarfir, fjárhagsins vegna, þá er ekki hægt að sjá, að nein knýjandi nauðsyn sje til þess að fara að taka þennan eina flokk út úr heildinni. Ef slíkar undantekningar ætti að gera, þá yrði að minsta kosti að styðja þær við rjettmætar sanngirniskröfur, en ekki við ímyndaðar virðingarstöður. Jeg verð því að mótmæla þessum áburði hæstv. forsætisráðherra, sem hann hefir látið sjer sæma að bera á meiri hl. allsherjarnefndar.