02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (2368)

107. mál, verðlagsnefndir

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg finn, fyrir hönd bjargráðanefndar, ekki ástæðu til að blanda mjer inn í þær miklu deilur, er risið hafa milli hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og hv. þm. Borgf. (P. O.). Hygg jeg, að málið hafi ekkert grætt á þeim. Jeg mun því að eins drepa á athugasemdir þær, sem gerðar hafa verið við frv.

Hv. þm. Barð. (H. K.) þótti vanta í frv. heimild til stjórnarinnar til þess að veita sveitarfjelögum sama rjett sem kaupstöðum til þess að skipa hjá sjer verðlagsnefndir. Nefndin hafði þetta atriði til athugunar, og voru sumir nefndarmenn þessu fylgjandi í fyrstu. En við nánari íhugun komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að þetta myndi ekki tiltækilegt. Ef þörf væri á því að skipa verðlagsnefndir víðar en í kaupstöðum, sem ekki er við að búast, yrði verðlagið ef til vill svo sundurlaust og margvíslegt, að komið gæti upp ágreiningur milli þessara nefnda, og yrði þá jafnvel nauðsynlegt að setja yfirverðlagsnefnd. Nefndin áleit þetta svo vandamikið, að það myndi ekki koma að gagni. Hún mun þó samt taka þetta atriði til rækilegrar íhugunar til 3. umr. Jeg get bent á eitt dæmi þess, hvernig farið getur, verði verðlagsnefndir settar í sveitum. Menn þyrftu ef til vill ekki að fara lengra en austur fyrir fjall, til þess að finna annað hámarksverð á ýmsum vörum, t. d. smjöri, heldur en hjer í Reykjavík. Báðar verðlagsnefndirnar gætu haft nokkuð til síns máls, og þyrfti því yfirverðlagsnefnd að skera úr málinu.

Verðlag á útlendum vörum er nú úr sögunni. Verð á útlendum vörum er mjög breytilegt, og því erfitt fyrir verðlagsnefnd að ákveða hámarksverð á þeim. það gæti orðið of hátt aðra vikuna og of lágt hina, enda hefir stjórnin og landsverslunin tekið að sjer alt eftirlit á þessum vörum.

Menn verða að gæta þess, að frv. fer einungis fram á heimild fyrir stjórnina til þess að setja verðlagsnefndir eftir tillögum bæjarstjórna. Menn verða að bera það traust til bæjarstjórnanna, að þær misbeiti ekki þessum tillögurjetti og noti hann ekki nema nauður reki til. Til þess er ætlast, að verksvið þessara nefnda sje að eins í bæjunum, en að ákveða verðlag í sveitum yrði ofurefli hverrar nefndar. Þar ræður framboð og eftirspurn verði, og myndu menn því á allan hátt fara í kring um hámarksverðið. En þó að nefndin sæi þessi tormerki á að skipa verðlagsnefndir víðs vegar um landið, þótti henni ekki rjett að svifta kaupstaðina — og þá helst Reykjavík — öllum möguleikum til þess að koma slíkri nefnd á fót hjá sjer.

Það er kunnugt, að kaupmenn í Reykjavík hafa keypt smjör af fram leiðendum fyrir það verð, sem þeim samdi um. En svo hafa þeir leyft sjer að hækka verðið allmikið. Einmitt svona verslunaraðferð ætti verðlagsnefnd að geta komið í veg fyrir. Hún gæti ákveðið verð á innlendum vörum, er kaupmenn kaupa og leggja óhæfilega mikið á. Þetta hefir verðlagsnefnd þegar gert í mörgum tilfellum. Svo er t. d. um fiskverðið, sem getið hefir verið um í hv. deild. Jeg hygg, að verðlagsnefnd hafi unnið þar þarft verk. Bæjarstjórn hefði ef til vill getað framkvæmt hið sama, en ekki hefði það verið umsvifalaust fyrir hana að gera það, sem verðlagsnefnd framkvæmdi með einum úrskurði. Það er kunnugt, hvernig kartöflur voru seldar hjer í hænum í fyrrahaust. Framleiðendur, sem aðallega munu hafa verið Akurnesingar, seldu þær verði, sem menn verða að álíta sanngjarnt, en kaupmenn keyptu þær af þeim og ætluðu sjer óhæfilegan gróða. (M. Ó.: Hvað kallar hv. þm. (S. St.) sanngjarnt verð?) Jeg hygg, að þessar kartöflur hafi verið seldar á 25 kr. tunnan, en kaupmenn vildu selja hana aftur á 35—40 kr. og jafnvel meira. Hvort sem verðlagsnefnd tekur í taumana eða ekki, er svona framfærsla úr hófi. Þetta gæti verðlagsnefnd komið í veg fyrir, og gæti hún því komið að gagni, þó að verksvið hennar sje ekki víðtækara en hjer er farið fram á.

Jeg hefi heyrt hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og hv. þm. Borgf. (P. O.) deila um brauðgerðarhúsin, og skal jeg engan dóm leggja á það, hvor þar hafi á rjettara að standa. En komið gæti það fyrir, að þau legðu ofmikið á vöru sína, og væri þá nauðsyn á verðlagsnefnd, til þess að grípa í taumana.

Þegar bjargráðanefnd leit á alt þetta, þótti henni viðurhlutamikið að afnema alveg verðlagsnefndirnar, þó að hún yrði á hinn bóginn að taka undir með hv. þm. Borgf. (P. O.), að verk verðlagsnefndar hingað til hafi verið tiltölulega lítið og þýðingarlaust fyrir landið í heild sinni.

Þetta frv. fer að eins fram á heimild fyrir stjórnina, og jeg verð að játa það, að svo langt gæti ósanngirni stjettarbræðra minna, bændanna, gengið, að nauðsynlegt sje að gripa í taumana. Jeg fæ ekki sjeð, að þetta fyrirkomulag sje neinn slagbrandur yfir höfði framleiðenda. Það er eðlilegt, að hver skari eld að sinni köku, en þá er nauðsynlegt, að gætt sje sanngirni, eins og nú stendur á. Það er farið að bóla á ágengni í þessum efnum hjer, sem annarsstaðar. Slíkar nefndir hafa verið skipaðar í öðrum löndum, og ætla jeg löggjafarvaldi þeirra þjóða ekki þá vanhyggju, að þær sjeu settar að þarflausu, nje heldur að svo ólíkt hagi til hjá okkur, að þeirra sje síður þörf hjer.

Hv. deild ræður hvað hún gerir við frv. Vilji nefndin ekki sinna því, mun jeg halda mjer við það frv., er jeg var upphaflega meðflutningsm. að. Nefndinni er frv. ekkert kappsmál, en hún áleit þetta sanngjarna miðlunarleið í þessu máli.