27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2370)

104. mál, skipun læknishéraða

Magnús Pjetursson:

Jeg get ekki stilt mig um að kveðja mjer hljóðs, af því að jeg var frsm. líks máls áður, og þó sjerstaklega af hinu, að hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) veittist að læknastjettinni og formönnum hennar; en jeg tel mjer skylt að bera hönd fyrir höfuð henni.

Jeg get slept að fjölyrða um það, hvort leyfilegt sje að bera þetta frv. fram, þar sem nú er fallinn forsetaúrskurður um það atriði. En jeg skal þó taka það fram, að það er beinlínis sagt móti betri vitund, að þetta frv. hafi verið felt með 15 atkv., því að brtt., sem var samhljóða þessu frv., kom aldrei til atkvæða, heldur voru þær teknar aftur.

Svo virðist, sem hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hafi sárnað árásirnar í Læknablaðinu. Og jeg skal ekki lá honum, þó að honum svíði, og er það að maklegleikum.

Hann getur ómögulega rjettlætt afstöðu sína nje annara hv. þm., sem fóru með atkvæði sitt á sama hátt og hann, með því einu, að þeir hafi látið í ljós, að þeir á annan hátt vildu bæta kjör lækna. Ef hugur hefði þar fylgt máli, mundu þeir hafa borið fram till. þess efnis áður en þeir drápu frv. hjer um daginn. Og því fremur var ástæða til að ætla, að þeir meintu ekkert með þessu hjali sínu, þar sem margoft var á þá skorað að koma fram með tillögur, og málið hjer um daginn einmitt dregið á langinn til þess að þeim gæfist kostur á að koma fram með brtt. það var því læknum sýnilega til lítils gagns, alt þeirra málæði, því vitanlega geta þeir ekki lifað á því einu, að hátt sje galað hjer á þingi um, hve bágborin kjör þeirra sjeu.

Þá var það og annað, sem ástæða var fyrir forvígismenn lækna að taka illa upp, og það var aðferðin, sem höfð var við, er frv. var drepið. Jeg býst við, að hv. þm. muni hvaða aðferð var við höfð til þess að myrða þetta frv. það kom fram brtt. við till. nefndarinnar, og fór sú till. í þá átt, að lækka um helming „procentu“-töluna. Og því næst, áður en nokkur tími vanst til að ræða málið og till., var hún tekin þegjandi aftur, og frv. drepið umsvifalaust. Þessi lúalega og móðgandi aðferð átti mikinn þátt í því að tendra reiðina í hugum þeirra manna, er frv. báru fyrir brjósti, enda munu hv. þm., sem voru frumkvöðlar að þessu, hafa iðrast eftir fljótfærni sína, og því mun þeim hafa sviðið það, er um þá var sagt síðar. En framkoma brtt. gerði fylgismenn frv. örugga um, að engin launráð hefðu farið fram bak við tjöldin og í skúmaskotunum, til þess að ráða niðurlögum frv.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) fór hálf óvirðulegum orðum um málgagn lækna, og fæ jeg ekki sjeð á hverju hann byggir þau ummæli sín. Það er að vísu satt, að það gæti verið ámælisvert, að læknastjettin skuli ekki gefa út fræðirit um heilbrigðismál, en þess ber að gæta, að alþýða vill ekki kaupa slíkt rit. það er ekki langt síðan að þess háttar rit var gefið út að tilhlutun lækna, en það gat ekki þrifist, því enginn vildi kaupa það. Þá get jeg ekki heldur vítt blöðin, sem tóku óbeðin upp greinina úr Læknablaðinu um þetta mál, því jeg veit ekki betur en að meginþorri landsmanna, og er mjer sjerstaklega kunnugt um íbúa í þrem sýslum, hafi tekið í sama strenginn og talið hina mestu ósvinnu meðferð þingsins á frv., og tel jeg það virðingarvert af blöðunum að láta svo skýrt í ljós skoðun sína, þó með annars orðum sje.

Þá hjelt hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) því fram, að það væri rangt hermt í Læknablaðinu, að þm. vildu ekki bæta kjör lækna. Jeg hefi sýnt fram á, að þetta er algerlega rjett hermt, því að það er ekki hægt að taka mark á orðum þm. einum saman, heldur verða rökin að sýna, að hugur fylgi máli. Að síðustu, áður en jeg lýk máli mínu um frv. sálaða, þá vil jeg sjerstaklega mótmæla þeim orðum, er hv. þm. N.-p. viðhafði um forvígismenn læknastjettar þessa lands, þar sem hann kallar þá bæði „óvitra“ og „miður góðgjarna.“ þessi orð mæla sjálf á móti sjer, og það þykist jeg geta staðhæft með fullum rjetti, að enginn, hvorki utan þings nje innan, mundi verða til þess að taka undir þessi orð hv. þm. nje bera ábyrgð á jafn ósæmilegum árásum á fjarstadda menn.

Þá skal jeg fara nokkrum orðum um stefnumuninn, sem fram hefir komið í þessu máli. Jeg tók það fram, er launamál lækna kom fyrst til umr. í þesari hv. deild, og jeg segi það enn þá, að læknum megi á sama standa af hverju þeir fái uppbótina, hvort sem það nú er af föstum launum eða aukatekjum með taxtahækkun, og síst er það verra fyrir þá að fá uppbótina beina leið úr landssjóði, því það er auðsætt, að það er tryggara heldur en að fá hana frá sjúklingunum. En þó nú uppbótin hefði verið veitt með því að hækka taxtann, þá væri það samt sem áður ekki rjett, sem fjárveitinganefnd hefir verið borið á brýn, að hún gerði sjúkdóma að gjaldstofni. Það hefir sem sje komið áður fram hjer á þingi, að byggja yrði á því fyrirkomulagi, sem hingað til hefir verið látið ráða í launamálum, og sú stefna í launum læknanna er, að þeir taki launin bæði af alþýðu og úr landssjóði. Þessa stefnu hefir fjárveitinganefnd þrætt, og sje jeg því ekki, að hún sje ámælisverð fyrir það. En ef einhverjum skyldi sýnast annað, þá er það ekki nema rjett fyrir þá að koma fram með brtt., enda hefir fjárveitinganefnd lýst því yfir, að hún mundi ekki amast við því, að t. d. yrði öll uppbótin borguð úr landssjóði. Og það hefir jafnvel verið ákveðið, að ef þetta frv. yrði felt, þá mundi fjárveitinganefnd koma fram með till. í þá átt, að greiða uppbótina úr landssjóði.

Þá gat hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) þess, að það væru svo margir aðrir skattar, sem legðust á sjúklingana, heldur en þeir, sem læknar legðu. Þetta er alveg rjett hjá honum. Og jeg verð því að segja, að þessi kostnaður, sem við bættist, ef þetta frv. yrði samþ., mundi ekki gæta neins, ef tekið yrði hundraðstal af öllum kostnaðinum. Hvað mundi þess t. d. gæta, þó þeir fengju 15 aur. meira um kl.st. það er rjett hjá manni nokkrum orðheppnum, norður í Húnavatnssýslu, er hann sagði, að ef einhver þyrfti að fá sjer fylgdarmann, þá skyldi hann reyna að fá lækninn, því að þeir væru án efa langódrustu fylgdarmennirnir. (H. K.: Ætli læknarnir vildu taka þann starfa að sjer.). Jeg geri nú að vísu ekki ráð fyrir því, en það mætti láta það líta svo út, sem verið væri að sækja lækninn þangað, sem maður ætlaði. Og gæti jeg vel trúað, að hv. þm. Barð. (H. K.) mundi geta gert sjer upp einhvern kvilla, til þess að fá jafngóðan fylgdarmann og læknirinn er.

Þá mintist hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) á það, að ekki væri mikil þörf á að hækka taxtann, þar sem læknar væru ekki beinlínis skyldaðir til þess að fara eftir honum, og sagði hann enn fremur, að eftir því, sem Læknablaðið segði, mundu læknar ekki fara eftir taxtanum. Það, sem hann hafði upp eftir Læknablaðinu, er rjett, en jeg get ekki sjeð, að það komi mikið þessu máli við, þótt svo væri, að læknar hefðu eitthvað hækkað gjaldskrá sína, sumir hverjir. Annars hefi jeg ekki orðið mikið var við það, að læknar hafi alment hækkað taxtann, en hitt hefi jeg heyrt, að sumir menn hafi borgað meira heldur en þá hefir borið skylda til. En hafi nú læknar hækkað alment taxtann, þá er það ekki meðmæli með því, að löggjafarvaldið skuli ekki hækka hann, því mjer finst það miklu fremur vera ástæða til þess að taxtinn verði hækkaður, þar sem það eftir þessu er sýnt, að fólkið hefir ekkert á móti því og telur það jafnvel sjálfsagt. Annars er það augljóst, að læknar, sem lengi hafa verið í sama hjeraðinu og vanir eru að fara eftir gjaldskrá, og fólkið svo að segja þekkir það verð, sem læknirinn er vanur að taka nærri fyrir hverja bæjarleið, — er augljóst, segi jeg, að þeir læknar muni kynoka sjer við að hækka taxtann án lagaheimildar.

Áður en jeg sest niður vil jeg benda þeim mönnum, sem andvígir eru þessari stefnu, á það, að til er önnur leið í málinu heldur en að láta sjúklingana borga, og hún er sú, að veita læknum dýrtíðaruppbót af aukatekjum þeirra. Annars stendur mjer, fyrir mitt leyti, nokkurn veginn á sama um, hvor leiðin verður farin, því aðalkjarni málsins er fyrir mjer sá, að bætt verði á einhvern hátt úr kjörum lækna.