31.05.1918
Neðri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Einar Arnórsson:

Jeg get verið stuttorður, vegna þess að aðalkjarni eða atriði fyrri ræðu minnar hafa ekki verið hrakin. Það er mest deilt hjer um orðalagið á 1. gr. frv. stjórnarinnar og hvernig beri að skilja það. Það er auðvitað ósköp þægilegt að deila um svona lítil og vandalaus atriði, en ekki tel jeg með öllu rjett að eyða tíma til slíkra hluta, og eins og hjer stendur á, þá má hæglega laga þennan orðamun, ef frv. fer til 3. umr., og orða 1. gr. betur.

Annars eru það fleiri þm. heldur en jeg, og það skýrir menn, sem skilið hafa orðalagið eins og jeg hefi skýrt það og skilið.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) kom með einkennileg rök í sambandi við þetta mál, þar sem hann vitnar til liðna tímans og þess, sem þm. hafa gert þá til þess að sanna, að þeir sjeu skyldir til þess að gera það sama nú. Hans hugsun er eitthvað á þessa leið: „Þið hafið, góðir hálsar, samþykt frv. í fyrra hjer í deildinni, sem fer í sömu átt og þetta frv., verkar aftur fyrir sig; þess vegna eigið þið að samþykkja þetta frv. nú“. Það er rjett, að í fyrra var samþykt hjer í deildinni frv., sem fór í þessa áttina, en þótt einhverjir hafi hlaupið á sig í fyrra, þá er ekki þar með sagt, að þeir eigi að gera það líka á þessu sumri. Það er lík hugsun í þessari rökfærslu eins og ef jeg segði: „Úr því að maður stal í fyrra, þá er best, að hann geri það einnig í ár“. Nei, þótt jeg hafi gert rangt einu sinni, þá er það rjett að kannast við það og ekki gripa tækifærið til þess að fremja ranglæti aftur, þótt það kunni að gefast.

Þá sagði háttv. 1. þm. Skagf. (M. G. ), að það væri ekki galli á þessu frv., þótt stórgróði fyrri ára hefði verið látinn fara hjá. Að forminu til er það ekki galli á frumv., þótt þeir sleppi undan þessum skatti, sem fyr hafa grætt, en það er óneitanlega galli, þegar litið er til gagnsins, sem af frv. getur orðið, eða með öðrum orðum tilgangs þess. Það er ekki það sama, þegar leggja á skatta á, er eiga að auka tekjur landssjóðs, hvort að eins er náð til eins eða tveggja manna, eða þá til miklu fleiri manna, eða með öðrum orðum hvort að eins er náð með skattalöggjöfinni 2 þús. eða t. d. 20 þús. Ef því skattalögin ná að eins til örfárra manna, þá getur þar af leitt, að tekjurnar af þeim verði svo litlar, að það muni engu fyrir landssjóð, en aftur á móti getur sveitarfjelögin munað mikið um þær, ef þeim yrðu þær eftir látnar.

Ef hæstv. fjármálaráðherra hefir skilið mig svo, að jeg væri að mæla menn, er getu hafa, undan því að greiða sin gjöld til almennra þjóðfjelagsþarfa, þá hefir hann misskilið mig mjög. Okkur greinir að eins á um leiðirnar. Jeg tel ekki rjett, eftir því sem atvik liggja til, að landssjóður komi á síðustu stundu og teygi klærnar í þá menn, sem eitthvað geta borgað, heldur vil jeg láta sveitarfjelögunum það eftir.

Þar sem hæstv. fjármálaráðherra var að tala um, að ekki væri rjett að seilast í vasa öreiganna, þá er það sannmæli, en spurningin er, hvort einmitt þetta frv. verði ekki orsök til þess, að seilst verði dýpra niður í vasa öreiganna, því að til þess að fá upp í þennan skatt leggja t. d. kaupmenn því meira á vöru sína.

Jeg hefi lýst því áður, að þar sem þessi aukaskattur er lagður á einstaka menn eða fjelög, þá leiði þar af, að niðurjöfnunarnefndin getur ekki bygt eins á gjaldþoli þeirra, og því ekki, ef rjettlætis er gætt, lagt á þá eins og hún mundi annars gera.

Jeg get á engan hátt tekið það til mín, sem hæstv. fjármálaráðherra bar mjer á brýn, að jeg vildi seilast ofan í vasa öreiganna. En það mætti miklu fremur segja það um tvö önnur frv. frá þessari góðhjörtuðu stjórn. Annað af þessum tveimur frv. var frv. um 100% hækkun á vörutollinum, en hitt var frv. um stimpilgjaldið, að nokkru leyti. Tollurinn eftir vörutollsfrv. kemur jafnt niður á ríkum sem fátækum og hittir af handahófi eins og vjelbyssuskothríð, og um stimpilgjaldið er svipað að segja, að svo miklu leyti sem þar er gert ráð fyrir, að tekið verði gjald af farmskírteinum, því að það hlýtur að koma niður á framleiðslu hinna smáu, engu síður en framleiðslu hinna stóru.

Jeg skal kannast við, að það er rjett hjá hæstv. fjármálaráðherra, að maður sem hefir 100 þús. kr. tekjur, er langt frá því að vera öreigi, þótt af þessum tekjum hans sjeu teknar 23 þús. En jeg vil endurtaka það, sem jeg sagði áðan, að það er ekki rjett að sjá ofsjónum yfir gróða slíkra manna, því að atvinnuvegur sumra þeirra er þannig lagaður og svo hættumikill, að þótt þeir græði eitthvað á þessu ári, þá geta þeir tapað því og beðið stórtjón á næsta ári. Okkar þjóðfjelag er nú einu sinni þannig vaxið, að jöfnuður er ekki kominn á, og hafa því einstakir menn nokkur auðæfi í höndum sjer, og það er ekki nema eðlilegt, að þessir einstöku menn velti atvinnuvegum vorum og viðskiftum. Og meðan svo er, að ríkið tekur ekki þessar atvinnugreinar, þá megum við vera þakklátir fyrir, að einstaka menn hafa framkvæmdarsemi og dugnað til þess að leggja fje sitt í áhættu og veita atvinnuvegum vorum forstöðu, og yfirleitt halda uppi búskap þjóðarinnar. Hjer í Reykjavík er það t. d. ekki lítill hluti íbúanna, sem hefir lifað á starfi þessara manna í þágu sjávarútvegarins, og sje þrengt um of að þeim, sem halda uppi atvinnuvegum þjóðarinnar, og ef harkalega er að þeim farið, þá býst jeg við, að það geti haft slæmar afleiðingar er fram í sækir.

Jeg held, að jeg hafi svo ekki meira um þetta mál að segja, og það má búast við því, að það gangi í gegnum deildina, en jeg vil enda mín orð með því, að ef frv. stjórnarinnar verður samþykt við 2. umr, þá verði það gert svo úr garði, að enginn efi geti leikið á um það, hvernig beri að skilja 1. gr. þess.