31.05.1918
Neðri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) vildi halda því fram, að fjárhagsnefndin hefði verið á einu máli um það, að skilja bæri orðalag 1. gr. stjórnarfrv. eins og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir skilið það, en jeg vil leyfa mjer að leiðrjetta þetta, því að það voru að eins tveir menn í nefndinni, sem voru þeirrar skoðunar. (G. Sv.: Þetta er ekki rjett). Það er áreiðanlega rjett, því að jeg hefi nú í þessu spurt nefndarmenn um þetta, svo að þessi framsláttur hlýtur að stafa af minnisleysi hjá háttv. þm. (G. Sv.).

Þá þótti háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) það undarlegt, að jeg skyldi ganga út frá því, að þessi háttv. deild teldi það rjett nú, sem hún taldi rjett í fyrra. En mjer finst þetta einmitt eðlilegur hugsanagangur, því að hann byggist á því, að menn vilji standa við orð sín og gerðir, og hjelt jeg, að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) gæti ekki verið þetta þyrnir í augum. Og vel man jeg það, að hann sjálfur notaði sömu röksemdaleiðslu hjer í þessari deild fyrir nokkrum dögum út af öðru máli. Og til þess, að jeg viðhafi líkingu hins sama háttv. þm. (E. A.), skal jeg geta þess, að jeg get vel búist við því, að sá, sem stal í fyrra, steli einnig í ár.