13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

14. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Frsm. (Einar Arnórsson):

Brtt. á þgskj. 89 eru flestar þess eðlis, að ekki þarf að ræða um þær vegna þess, að þær hafa í sjer fólgnar nauðsynlegar leiðrjettingar á orðum frv. Það eru að eins tvær af brtt., sem dálítil ástæða er til að minnast á. Önnur er sú, að 2. gr. skuli falla burt, en þar stendur, að landssjóður skuli greiða kostnað þann, er stofnun hins nýja lögsagnarumdæmis hafi í för með sjer. Það getur vel verið, að þessi brtt. þyrfti ekki að vera, því að skiftingin verður nú að eins skifting á sýslufjelaginu, og virðist ekki þurfa að segja það í frv., að sá kostnaður skuli falla á landssjóð, ef hann kynni að verða nokkur. Þar á að vísu að vera lögreglustjóri, en eftir venjunni á hann að afla sjer bóka og ritfanga þeirra, er til stöðunnar heyra.

Þá er hin brtt., við 5. og 7. gr.

Nefndin kom sjer saman um að leggja til, að landssjóður skyldi borga 1.500 kr. af þessum auknu útgjöldum, er bæjarsjóður Siglufjarðar ætti að borga; með því móti má segja sem svo, að það skifti hvorki til nje frá fyrir landssjóð, þó að þessi skifting komist á. Hreppstjóralaunin þar munu sjálfsagt ekki vera svo mikil, sem hæstv. forsætisráðherra gerði ráð fyrir við 2. umr. þessa máls, en sem sagt held jeg ekki, að það atriði hafi nokkra verulega þýðingu.

Hinar brtt. eru, eins og áður er sagt, að eins nauðsynlegar orðabreytingar, eins og t. d. brtt. við 5. gr. Þar stendur, að lögreglustjóri skuli skipaður af landsstjórninni, en oss þótti rjettara, að í frv. stæði dómsmálaráðherra.