17.05.1918
Efri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

16. mál, mótak

Kristinn Daníelsson:

Jeg stend ekki upp til þess að lýsa því yfir strax, að jeg sje á móti þessu frv., en sitthvað er í því, sem mjer þykir athugavert.

Jeg skal ekki heldur eyða mörgum orðum að því, hversu langt hefir verið gengið í því að taka eignir einstakra manna eignarnámi, þegar almenningsheill hefir krafist, en hjer finst mjer það álitamál, hvort ekki sje í þessu of langt gengið, eða að hjer sje um slíka almenningsheill að ræða.

Jeg tek það fram til athugunar fyrir þá nefnd, sem væntanlega fjallar um málið, að jeg lít svo á, að svo takmarkalaust ákvæði geti ekki staðist, eins og hjer stendur í 1. gr. frv., þar sem til þess er ætlast, að hver, sem á land, sem nokkurt mótak er í, sje skyldur til þess að láta hvern og einn nota það eftir vild.

Nú stendur viða svo á, að mótak landeignarinnar mundi ekki endast jörðinni sjálfri nema nokkurra ára bil, og virðist það þá allmikil óbilgirni að leyfa að rífa móinn þar upp, ef til vill allan á einu ári.

Jeg hefi sjálfur þekt slíkar jarðir, þar sem mótakið hefir ekki enst nema um fáein ár og verið þá þrotið.

Jeg vil því leggja það til, að væntanleg nefnd taki ákvæði þetta til íhugunar og athugi, hvort hjer þurfi ekki að minsta kosti nokkur takmörk að setja.

Vil jeg svo gera það að till. minni, að frumv. verði vísað til allsherjarnefndar.