10.05.1918
Efri deild: 16. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

25. mál, lokunartími sölubúða í kaupstöðum

Magnús Torfason; Þessi brtt. hv. þm. Ak. (M. K.) breytir að nokkru leyti þeirri reglu, sem fylgt er í 1. gr. laga nr. 79, 14. nóv. 1917, um það, hverjir það eru, sem ráða skuli lokunartíma sölubúða.

Í 1. gr. þeirra laga er sagt, að bæjarstjórn geri samþyktir um það, og í 3. gr. er sagt, að stjórnarráðið staðfesti þær samþyktir. Með öðrum orðum, bæjarstjórnir og stjórnarráð hafa vald til að gera það í sameiningu. En þessi brtt. fer fram á, að stjórnarráðið eitt út af fyrir sig skuli ákveða, hve mikið gjaldið skuli vera fyrir undanþáguna fyrir hvert ár í senn. Þetta atriði er því tekið undan valdi og afskiftum bæjarstjórnar. En jeg get ekki sjeð, að nein ástæða sje til þess að útiloka það, að bæjarstjórn hafi frumkvæði um það, hvað gjaldið skuli vera hátt. Og ef sama á að gilda um þetta gjald og um lögin sjálf, þá ætti það að vera ákveðið af stjórnarráðinu eftir tillögum bæjarstjórnar, svo að girt væri fyrir, að það væri ákveðið þvert ofan í vilja hennar. En þessu mætti bjarga með því að setja ákvæði um það inn í brtt.

Það er enn fremur athugavert við þetta gjaldákvæði, að eftir brtt. á þgskj. 70 er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en að stjórnarráðið ákveði gjaldið fyrir alla kaupstaði landsins, og þá jafnt fyrir alla.

Það liggur í augum uppi, að full ástæða er til að hafa gjaldið annað hjer í Reykjavík en í kaupstöðum úti um land. Enn fremur er í sjálfum lögunum ekki gert ráð fyrir öðru en að sami lokunartími verði ákveðinn fyrir allar verslanir og sami tími á öllum dögum ársins. Það er að vísu ekki útilokað, að hafa megi önnur ákvæði um það, en það er að minsta kosti mjög mikið efamál. Jeg tel því rjettast, að háttv. flutnm. brtt. á þgskj. 70 (M. K.) láti hana bíða til 3. umr., eða að málið verði sett í nefnd og þessari umræðu frestað.