06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

32. mál, fræðsla barna

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Í greinargerðinni fyrir þessu frv. er drepið á þær helstu ástæður, sem voru þess valdandi, að við komum með þetta frv., og enn fremur á það, af hvaða ástæðum við gátum ekki lagt það til, að frv. það, sem stjórnin flutti, næði fram að ganga á þessu þingi.

Í 1. gr. frv. er sýnt, hvað kaup kennara skuli hækkað, og er það yfir höfuð svo ósköp einfalt mál, að ekki er ástæða til að fjölyrða um það.

Þessi hækkun, sem hjer er gert ráð fyrir, kemur ekki niður nema á stöku stað, því að svo er fyrir þakkandi, að minsta kosti í hinum stærri kauptúnum, að laun kennara þar eru langt fyrir ofan það lágmark, sem hjer er sett, svo að þess vegna kemur þessi hækkun ekki fram þar, svo að kostnaðaraukinn verður því ekki teljandi að nokkrum mun. Bætur verða þó nokkrar hjá þeim kennurum, sem fá nú laun samkvæmt fræðslulögunum.

Frv. þetta kom frá mentamálanefnd, og mjer sýnist því, að hjer sje ekki um annað að ræða en hvort málið skuli ná fram að ganga eða ekki, og ef menn annars vilja á nokkurn hátt greiða kennurunum betra kaup en hingað til hefir verið gert, þá virðist svo, sem ekki sje unt að hækka það minna en hjer hefir verið gert.

Um þetta mál mætti í sjálfu sjer margt segja, en jeg sje ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um það, en vænti þess, að háttv. deild sýnist hjer svo hóflega farið af stað, að hún leyfi því fram að ganga.