06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

32. mál, fræðsla barna

Forsætisráðherra (J. M.):

Eftir ummælum mínum um þetta mál, þegar það var hjer fyrst til umræðu, þá get jeg ekki beint mælt í móti niðurstöðu háttv. nefndar.

Það er og nokkurs vert að gera til bráðabirgða bætur á launum kennaranna, þótt það geti ekki orðið nema að nokkru leyti; er það augljóst, að þessar umbætur, sem háttv. nefnd gerir, eru alls ekki til frambúðar.

Aðalatriðið er, að minni skoðun, að kennarastöðurnar sjeu gerðar þannig úr garði, að hæfir menn geri kensluna að lífsstarfi sínu, en þetta er skilyrði fyrir því, að trygt sje, að menn hafi ekki kensluna á hlaupum.

Reyndar hefi jeg ekki í frv. haft fyrir augum verulega þá menn, sem kenna um stuttan tíma, heldur hina, sem hafa kensluna að aðalstarfi.

Frv. háttv. nefndar tryggir nokkuð hinn síðarnefnda flokk, og þótt þetta frv. sje í rauninni allra mesta kák, þá býst jeg þó við, að við það verði nú að sitja.