17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Einar Arnórsson:

Því hefir verið slegið föstu, að að gefnu tilefni bæri að skilja orðin „venjuleg útgjöld“ í 1. gr. frv. þannig, að ekki væri átt við aukaútsvör eða aðrar tekjur sveitarfjelagsins, heldur sjerstaka útgjaldategund, og get jeg felt mig vel við þá skýringu, og ákvæðin í 6. gr. útiloka engan veginn þetta, en í 5. gr. er komist svo að orði, að orkað getur tvímælis, hvort rjett sje. En þó finst mjer, að þrátt fyrir ákvæði 5. gr. þurfi þessi skilningur ekki að fara í bága við þau, því að það getur staðið svo á, að í hreppnum sjeu hverfandi lítil aukaútsvör.

Jeg vil taka það fram, í sambandi við viðaukatill. háttv. samþingismanns míns (S. S.), að jeg get ekki fallist á, að skilningur háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sje rjettur. Mjer skilst fyrst og fremst, að það sje í „beinar þarfir framleiðslunnar“ að veita vatni á engjar, svo að betur spretti. Og þótt háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sje faðir till., þá álít jeg, að stjórnin sje ekki fremur bundin við hans skilning á málinu heldur en hvers annars þm.