06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

32. mál, fræðsla barna

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla ekki að mæla nema örfá orð að þessu sinni, svo að hæstv. forsætisráðherra getur vel hlýtt á það, sem jeg vildi sagt hafa.

Þetta frv. sýnist eiga að ganga fram eins og það liggur fyrir, og virðist svo, sem allir eigi að fylgja því, hvort sem þeir nú eru á mínu máli eða ekki.

Ekki sje jeg ofsjónum yfir því, þótt nefndin hafi hækkað laun allra þeirra, er við kenslu fást og nefndir eru í fræðslulögunum, svo að hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) hefði getað sparað sjer að úthella visku sinni hvað það áhrærir.

Ekki get jeg heldur gert mikið veður út af, að skilja beri þá menn úr, sem hafa kenslu að aukastarfi, eins og þeir gerðu hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) og hæstv. forsætisráðh., því að sparnaður af slíku yrði aldrei svo að nokkru næmi.

En annað er það, sem jeg vildi minnast á, úr því að aðrir hafa minst á það á undan mjer. Það var undirstaðan undir þessu máli, eða hvað gert hafi verið í því að athuga fræðslulagakerfið í heild sinni.

Jeg býst við, að mentamálanefndin, þótt jeg sje ekki í henni, (H. K.: Var í henni). Þótt jeg sje ekki í henni, sagði jeg. Annars vil jeg biðja háttv. þm. (H. K) að taka eftir tíðunum. En svo að jeg snúi mjer aftur að málinu, þá býst jeg ekki við, að hún nje stjórnin hafi rannsakað það mál, því að þau skrif, sem fylgja stjórnarfrv. frá höfundi fræðslulaganna, er lítið að marka, því að maðurinn er ekki hlutlaus dómari í því máli. Það er eins og maður, sem grunaður er um einhverja sök, sje látinn sjálfur rannsaka mál sitt. Það er því langt frá, að nokkuð hafi verið gert af stjórninni til þess að rannsaka, hvort innleidd skuli verða skólaskylda fyrir unglinga eða ekki.

Annars er jeg samþykkur hæstv. forsætisráðh. og kenslumálaráðh. um það, að stjórninni hljóti að vera heimilt að leggja eitthvert fje til rannsóknar málinu, þó að hún setji það ekki í milliþinganefnd. Henni hlýtur að vera heimilt að fá einhvern vitran mann til þess að athuga þetta mál og koma með till. um það, en þetta hefir ekki verið gert.

Það hefir aftur á móti þótt heimilt að verja miklu fje til þess að gefa út bók með eintómri vitfirringu um nöfn manna, og álít jeg því, að síst sje heimildarskortur, að því fje, sem lagt væri í það að gefa út bók um fræðslu barna.

Ekki get jeg heldur sjeð, að þjóðin muni hafa nokkuð á móti slíkri útgáfu, þar sem hún hefir krafist, að gefin væru út óskemtileg brjef, sem farið hafa milli tveggja manna, sem ekki eru langt hjeðan. (S. St.: Hefir þjóðin krafist þess ?). Jeg veit ekki, hvort háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir krafist þess, en hitt þykist jeg fara nærri um, að hann hafi eitthvað viljað vita um þetta lóðasölumál, engu síður en aðrir.

Að rannsóknin sje nauðsynleg efast jeg ekki um. En hún er það ekki af því, að Íslendingar sjeu öðruvísi en aðrar þjóðir eða ólíkir þeim að gáfnafari, en það er dálítið lengra á milli bæja hjer á Íslandi heldur en milli húsa í þorpum erlendis. (S. St.: Þetta eru skrítnar upplýsingar). Má vel vera, að háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) finnist svo, en það litur þó svo út hjer á Alþingi á stundum, að fræða þurfi um það, sem annars liggur í augum uppi.

Hins vegar hefi jeg ekki komist að fastri niðurstöðu um það, hvort færa skuli skólaskyldualdurinn til 16—20 eða 14—20 ára, og leggja þá niður skólaskyldu á barnsaldri, eða þá að hafa hana eftir sem áður og bæta skólaskyldu unglinga við.