13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

32. mál, fræðsla barna

Bjarni Jónsson:

Jeg skal leiðrjetta þennan misskilning hæstv. forsætisráðherra og annara, sem jeg hefi reyndar ekki orðið var við hjá öðrum en honum, og ef hann hefir ekki sjálfur skilið orð mín á þessa leið, þá rak hann enginn nauður til þess að leiðrjetta misskilning, sem hvergi hafði fram komið. Jeg hefi aldrei ráðist á nokkurn mann. Og þótt jeg hafi átt óvildarmenn, þá hefi jeg aldrei ráðist á fjármuni þeirra eða embætti. Jeg læt þá um að beita þeirri aðferð, er það vilja; sjálfur hefi jeg aldrei verið neitt við hana riðinn og mun aldrei verða. Hitt sagði jeg, að það væri undarlegt, að stjórnin skyldi leita til þess manns, til þess að spyrja hann um reynslu og gagnsemi fræðslulaganna, sem sjálfur væri höfundur þeirra. Nú heyri jeg sagt, að hann hafi ekki samið þau, og jeg vissi það reyndar, að hann var ekki aðalhöfundur þeirra. En hann hefir tekið þetta afskræmi að sjer til fósturs, og jeg tel hann því ekki færan um að rannsaka það, hvort við þau megi hlíta eða ekki. Það, sem jeg vildi fá fram með tillögu minni í fyrra sumar var það, að fengist rannsókn þeirra manna, sem vit hafa á fræðslumálunum, en standa utan við fræðslulögin og eru ekki á neinn hátt við þau bundnir. Jeg vildi fá rannsókn þeirra um það, hvort grundvöllurinn undir fræðslumálum okkar Íslendinga er ekki alveg vitlaus. Jeg fyrir mitt leyti er sannfærður um það, að hann er alveg vitlaus. Jeg er alveg sannfærður um það, að fræðslumálakerfið verður til þess með afleiðingum sínum að gera þjóðina heimska og fávitra. Það er ekki skapað til þess að viðhalda og efla þann menningarþroska, sem varð forfeðrum okkar svo notadrjúgur, heldur er með því verið að veita inn yfir landið grein af útlendum sníkjumenningarstraum, sem smám saman sýgur allan íslenskan merg úr beinum þjóðarinnar. Menn eru svo tilfinnanlega farnir að gleyma allri þjóðlegri menningu og þeim grundvelli, sem hún bygðist á. Og nú ganga menn upp í þeirri villu, að hver grænjaxlinn, sem um stund hefir numið 2 stundir á dag við skóla erlendis, sem sjaldan er trygging fyrir að sje góður skóli, — menn halda, að hann sje betur fær um að leggja grundvöll undir íslenska menning heldur en forfeðurnir, sem vildu láta og ljetu heimilin fræða börn sín. Þeirra menningarsjerkenni var ekki það að láta börn ganga í skóla, gefa þeim háa vitnisburði fyrir það, sem þeir kunnu ekki og yfir höfuð að tala fá á þau kjarnalausa menningargrímu, sem þó alstaðar skín í gegnum. Áður lærðu menn að hugsa og lærðu að læra, og það gerðu menn í skjóli heimilanna. Menningin verður ekki dæmd eða metin eftir því, hve mörg kver, af þessum smásetningakverum, sem nú eru notuð við skólafræðslu bæði hjer á landi og annarsstaðar, menn komast yfir. Það er ekki það, sem hjálpar mönnunum til að lifa lífinu og gerir þá færa um að taka þeim skakkaföllum, sem nú koma, yfir þetta land og oftar geta yfir það komið.

Jeg gef nú þá skýringu, að jeg ætlaði og ætla ekki að ráðast á fræðslumálastjórann. Jeg efast ekki um, að hann ræki störf sín eftir bestu samvisku og eftir því, sem hann hefir best vit á. En jeg vil, að kennurunum sje launað eins og öðrum mönnum, og það því betur, sem starf þeirra er vandameira en flestra annara. Kenslustarfið heimtar, að maðurinn, sem að því gengur, sje glaður og óþreyttur; annars getur hann ekki verið kennari. Það þýðir ekkert að taka þreyttan og útslitinn mann og segja við hann: „Al þú upp börn vor og ger þú úr þeim starfsmenn glaða og prúða“.

Það er öllum kunnugt, að margir kennarar geta ekki klætt sig eins snyrtilega og börnin, sem þeir kenna. Þeir fá ekki lengur umlíðun hjá klæðskeranum, því að þeir fá ekki neitt fyrir vinnu sína til þess að borga gömlu reikningana með, — lífsviðurværið verður að sitja fyrir. Þetta á ekki heima um kennara til sveita, sem fá mat sinn sem einn hluta af kaupgjaldinu, en það á við um flesta kennara í kauptúnum. (H. K.: Að þeir gangi rifnir og skítugir). Ekki sagði jeg nú beinlínis það, en að þeir verða að ganga í slitnum fataræflum. Og það er ekki þeim til skammar. Það er engum skömm að því að ganga í þeim fötum, sem hann getur keypt fyrir það fje, sem honum er goldið fyrir vinnu sína. En það ættu allir þingmenn að vita og engrar skýringar við að þurfa, að það þarf ekki lítið fje til þess að geta fatað sig sæmilega.

Skólabörnin eru sum ríkari en kennarinn og geta því klætt sig betur. Annað skilyrðið til þess, að kennarinn geti verið góður, er það, að hann hafi tíma til að menta sjálfan sig. En nú er högum kennara svo háttað, að þeir hafa engan tíma til þess. Þeir verða að kenna alla daga, til þess að komast af. Jeg hefi sjálfur reynt, hvað það er mentandi að kenna 10 klukkustundir á dag og hafa þó varla ráð á að klæða sig. Lífið er annað nú, þegar jeg er orðinn það óskabarn þjóðarinnar, að hún getur talið eftir þessar 2.800 kr., sem jeg fæ nú á ári hverju fyrir kenslustörf mín.

Ef menn ætlast til, að kennararnir vinni vel, þá verður að borga þeim vel og það reglulega gert, svo að þeir geti lifað á því alt árið, sem þeir vinna fyrir við 8 eða 9 mánaða kenslustarf. Þá geta þeir hvílt sig á sumrin, og auk þess eiga þeir að hafa nægan tíma til þess að menta sjálfa sig á veturna.

Svona á að fara með kennarana. Að öðrum kosti á enga kennara að hafa, láta heimilin sjálf um að menta börn sín. Það getur verið varhugavert að halda þá leið í kauptúnum, en í sveitum á enga aðra leið að halda í fræðslumálunum.

Jeg vildi láta rannsaka fræðslumálakerfið í heild sinni af óvilhöllum mönnum, en jeg fæ ekki þessa rannsókn. Stjórnin fjekk ekki neitt fje til hennar og gat því ekki látið framkvæma hana. Jeg lít svo á, að nefnd, sem sett hefði verið til þess að rannsaka þetta, væri jafnvel þarfari og betri en síldarnefnd og verðlagsnefnd. (S. S.: Og þá fossanefnd). Já, líka betri en fossanefnd, því að jeg vil, að úr mönnum fossi eitthvað annað en eintóm vitleysa. Stjórnin á að heimta fje til þessa og fá svo til þess 2 eða 3 menn að rannsaka og finna betri og viturlegri grundvöll undir alt fræðslukerfið. Jeg hygg, að ekki ætti eða þurfi að senda neinn mann til útlanda til þess að finna þennan grundvöll. Hans er áreiðanlega að leita í fornri, þjóðlegri menningu. En ef sendur er maður til útlanda, þá ætti að fá til þess einhvern, sem einhvern tíma hefir sagt einhverjum til, en ekki einhvern alóreyndan og alókunnan kenslumálum.