28.06.1918
Efri deild: 53. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

41. mál, skemmtanaskattur

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg hefi ekki enn fengið neinar upplýsingar um það út úr umræðunum, hvers vegna hv. deild vill sjálf ákveða, hvernig skattinum eigi að verja. Ef þessi skattur á að teljast sektir eða eitthvað slíkt, þá er eðlilegast að verja honum til líknarstarfsemi. En nú er ólíklegt, að menn telji skattinn sektarfje.

Þá kemur hin spurningin til greina, hvort hjer sje verið að útvega tekjur, og það hefir altaf vakað fyrir mjer, að svo væri, en þá finst mjer líka einkennilegt að binda þennan tekjuskatt að eins við eina notkun, og af því að brtt. gengur í þá átt að láta hlutaðeigandi sveitar- og bæjarsjóði sjálfráða um það, hvernig skattinum skuli varið, þá er jeg með henni.