13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (7)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Framsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Eins og brtt. mínar og nál. bera með sjer, gat jeg ekki átt samleið með háttv. meiri hluta bjargráðanefndar, þar sem okkur greindi á um atriði, sem að mínu áliti varða miklu, um það, hvort og hve mikið liðsinni landssjóður á að veita þeim sveitar- og bæjarfjelögum, sem ekki eru einfær um það að bera þunga dýrtíðarinnar.

Jeg ætla nú að fara nokkrum orðum um brtt. þær, sem jeg hefi borið fram. Stjórnarfrv. er svo úr garði gert, að varla var unt að fara skemra í dýrtíðarráðstöfunum, eins og nú stendur, eða ef enn meir sverfur að. Mörg ákvæði í því eru ekki einhlít, til þess að lögin vinni það, sem þeim er ætlað að vinna. Það hlýtur að vera tilgangurinn með allri dýrtíðarhjálp, að ekki njóti hennar aðrir en þeir, sem ómögulega geta komist af án hennar. En ákvæðin um það, að hjálpin lendi ekki hjá öðrum, eru bæði óljós og ófullnægjandi í frv. stjórnarinnar. Jeg held, að ekki geti komið til mála að styrkja aðra en þá, sem nauðsynlega þurfa þess með. Eins og ástæðurnar eru, er ekki annað hægt, þótt æskilegt hefði verið að draga eitthvað úr sjálfri dýrtíðinni, svo að kaupgjald þyrfti ekki að vera svo afskaplega hátt, að framleiðslan skerðist um of. Brtt. mínar á þgskj. 89 lúta aðallega að því að tryggja það, að dýrtíðarhjálp verði ekki veitt öðrum en þeim, sem nauðsynlega þurfa.

Skal jeg þá minnast á 2. brtt. við 3. gr. Hún fer fram á það, að inn í frv. sje bætt nýrri gr., sem ákveður það, að áður en greitt er fjárframlag úr landssjóði, sje það öldungis víst, að fjeð sje ekki að óþörfu veitt. Jeg tel það fulltrygt að ganga þannig frá lánskjörunum, að sveitar- og bæjafjelögin reyni að bjarga sjer með sínu eigin lánstrausti, meðan það hrekkur, en leiti þá fyrst til landssjóðs, er það bregst. Til þess að ekki sje nein veila í þessu, þá vil jeg, að stjórnarráðið leiti álits bjargráðanefndar hjeraðsins eða kauptúnsins um það, hvort um þörf hafi verið að ræða. Bjargráðanefndirnar hljóta að þekkja best hagi manna og vita hvers við þarf. Jeg tek því betur gilda umsögn þeirra um þessi efni en aðkomumanna, sem ekki geta verið eða orðið eins kunnugir. Hjer sýnist vera fulltryggilega um hnútana búið, og að ekki sje unt eða rjett að ganga lengra.

Þriðja brtt. mín lýtur að því að nema í burt orðið „einkum“ í síðari málsgrein 4. gr. stjórnarfrv., þar sem svo er að orði komist, að nauðsynjavörum skuli „einkum“ úthluta til þeirra, sem við erfiðustu kjör eiga að búa. Þetta orð er óþarft; jeg býst ekki við, að vörurnar geti eða megi með nokkru móti lenda til annara. Síðar í málsgr. er gert ráð fyrir, að hinir allra efnaminstu geti fengið vörur, „jafnvel fyrir alls ekki neitt“. Þetta orð „jafnvel“ þarf ekki að standa þarna. Það eins og dregur úr því, sem þó frv. virðist ætlast til. Að öðru leyti er brtt. mín við 4. gr. stjórnarfrv. að mestu leyti samhljóða því, en sökum orðlagsins á tilögum mínum varð jeg að breyta greininni. Þegar svo er komið, að sveitar- eða bæjarfjelag þarf að leggja á sig þungar byrðar til þess að hjálpa fátækum mönnum til að standast dýrtíðina, án þess að sú hjálp teljist sveitarstyrkur, þá er óviðkunnanlegt að undanskilja þá menn, sem þegar þiggja af sveit. Jeg vil því nema það í burt, svo að jafnt þeir sem aðrir fái sína dýrtíðarhjálp, laust við allan sveitarstyrk. Það er lítið rjettlæti í því, að sumum sje bjargað frá sveit, en að aðrir, sem voru svo ólánssamir að vera komnir á sveitina áður en dýrtíðin byrjaði, safni á sig stórum sveitarskuldum af hennar völdum, sem þeir geta svo ef til vill aldrei losað sig úr. Jeg hafði hugsað mjer að láta þetta ná lengra, að láta það ná til sjerhvers styrks eða stuðnings, hvort sem er eftir þessum lögum eða ekki. Í því efni heyri jeg, að jeg hefi orðið samhljóða háttv. meiri hluta, eftir því sem háttv. framsm. (P. J.) fórust orð. Í fyrstu hikaði jeg við að bera þetta fram, en nú hefi jeg komið með það í viðaukatill. á þgskj. 107.

Mjer fanst hljóðið í ýmsum þingmönnum vera á þá leið, að þetta mundi fá fram að ganga. Enda virðist lítil sanngirni í því, að sumum sje varnað frá að komast á sveit, en ekkert hirt um, þó að aðrir missi mannrjettindi sín af völdum dýrtíðarinnar. Í því virðist líka vera misrjetti, að í efnaminni sveitum, sem verða að grípa til þessa laga, komast fáir, eða ef til vill engir, á sveit, en í þeim efnaðri hjeruðum, sem geta sjeð fyrir sjer sjálf, án aðstoðar þessara laga, þar sem að eins má ske fáir menn þurfa á stuðningi að halda, þá missi þeir mannrjettindi sín og þar með áhrif á almenn mál, hjeraðinu og landinu í heild sinni ef til vill til mikils tjóns.

B-liður þessarar brtt. er varatillaga um það að nema í burt orðin „einkum“ og „jafnvel“, ef brtt. sjálf yrði ekki samþykt.

4. brtt. á þgskj. 89 lýtur að því, sem er samhljóða tillögu háttv. meiri hl., að ef sveitar- eða bæjarfjelag getur ekki bjargað sjer sjálft, þá heimilast landsstjórninni að veita því dýrtíðarlán. Jeg hefi sett lánsskilyrðin 5% vexti til eins árs. Að mínu áliti er nauðsynlegt að hafa lánskjörin svo þröng, að ekki sje gripið til þeirra nema í ítrustu nauðsyn. Það eru einmitt góðu lánskjörin, sem sett voru í dýrtíðarlögin, sem urðu þess valdandi, að mörg sveitarfjelög hafa sótt um lán, beinlínis til að græða á þeim. Þau hafa freistað margra sveitarstjórna til þess að hirða ekki um anda laganna eða tilgang. Með þessu er girt fyrir það, að nokkurt sveitarfjelag eða bæjarfjelag sæki um lán af nokkurri annari ástæðu en þeirri, til þess að afstýra neyð. Með svona þröngum lánskjörum hlytu þessi lán ávalt í öðru skyni að verða til tjóns og yrðu því ekki tekin til annara en að bjarga mönnum frá hungursneyð. Þegar svona er um hnútana búið, er ekki vert að ganga lengra.

Þá er brtt. mín að heimila landsstjórninni að veita bráðabirgðarlán til stuðnings sjávarútvegi. Þetta verð jeg að álíta bráðnauðsynlegt. Þar, sem sjávarútvegur er mikill í þorpum eða kauptúnum, þar er fólkinu mikil hætta búin ef hann legst niður, og líklegt, að þá lendi á landssjóði að veita þar stuðning. Jeg veit um mörg sjávarþorp, að þeim hefði komið það einkarvel að fá salt og olíu með bærilegum kjörum. Og jeg verð að líta svo á, að þessi lán mundu einmitt verða til þess að draga úr öðrum lánum til hjálpar ósjálfbjarga fólki. Það eru án efa hyggilegustu lánin, sem veitt eru til þess að auka atvinnu og framleiðslu. Þó ætlast jeg ekki til, að farið sje gálauslega með þessa heimild, eða að ekki sje gætt hófs með lánveitingar eða sjeð um, að lánin sjeu nægilega trygð.

Jeg ætla svo ekki að segja meira um brtt. mínar. Jeg álít áhættulaust að samþykkja þær allar saman. Þó að hagur landsins sje ískyggilegur og háttv. þingmenn beri hann mjög fyrir brjósti, þá verð jeg að álíta, að tillögur háttv. meiri hluta tryggi hann ekki eða bæti úr á nokkurn hátt.

Eitt atriði er eftir að minnast á, sem meiri hl. vill nema í burt, en jeg læt standa; það er tillagan um atvinnubæturnar. Jeg skoða það sem öldungis nauðsynlegt.

Jeg get ekki lokið máli mínu án þess að víkja nokkrum orðum að till. meiri hl., til þess að það komi í ljós, hvað það er, sem á milli ber. Háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) sagði, að ekki bæri sjérlega mikið á milli. Jeg hefi vikið nokkuð að því í nál. Eitt af því, sem á milli ber, er áferðin á tillögunum. Jeg kann illa við þennan sultarstimpil á tillögum meiri hl.

Í 2. brtt. háttv. meiri hl. er minst á það, að landsstjórninni veitist heimild til að veita dýrtíðarlán, en að eins til að forða frá yfirvofandi hungri og harðrjetti. Við þetta er ekkert að athuga. Jeg er, eftir atvikum, alveg á sama máli um það, að sveitar- og bæjarstjórnir eigi að nota sitt eigið lánstraust til þess ítrasta. En svo bætir háttv. meiri hl. við, að þegar þetta er búið, þegar full vissa og full sönnun er fengin fyrir því, að sveitarfjelagið eða bæjarfjelagið getur ekki bjargast af eigin ramleik, þá á að fá utanhjeraðsmenn til rannsókna um það, hvort yfirlýsing hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarstjórnar sje rjett. Nú sagði háttv. framsm. (P. J.), að ekki væri meining meiri hl, að þessir rannsóknarmenn færu inn á hvert heimili til að rannsaka, hvernig ástatt væri. Og í þessu sambandi mintist hann á Reykjavík. Mjer er nú nokkurn veginn ljóst, hvernig sú rannsókn mundi fara fram hjer, og þá eiginlega, hvers virði hún mundi vera.

Svo mikil áhersla er þó lögð á rannsókn þessa hjá háttv. meiri hluta, að skýrsla eftirlitsmannanna á að vera undir eiðstilboð. Auðvitað geta þeir gefið skýrslu sína undir eiðstilboðsverði utanhjeraðsmenn á kostnað þess sveitar- eða bæjarfjelags, sem er að fram komið og getur ekki bjargast frá hungri, til þess að rannsaka, hvort svo er. Þeir eiga að fá 7 kr. á dag í dagpeninga og ferðakostnað að auki úr sjóði þessa að fram komna sveitarfjelags, og býst jeg við, að rannsókn þessi hljóti oft að taka alllangan tíma. Það er þessi stimpill á tillögum meiri hlutans, sem jeg get ekki ljeð fylgi. Mjer finst meiðandi fyrir mig að ljá honum nafn mitt.

Jeg vjek að því áðan, að háttv. meiri hluti vill nema burt heimild fyrir landsstjórnina til að veita atvinnu, en aftur flytur hann till. um að heimila landsstjórninni að kaupa afurðir af dýrtíðarvinnu. Skal jeg ekki segja, hvort þetta er í framkvæmdinni mikið annað en atvinnubætur, ef landsstjórnin í mörgum tilfellum hlypi til og keypti. En mjer kemur þetta svo fyrir sjónir, að það muni oft og tíðum lítt framkvæmanlegt, og víst er það afarerfitt fyrir landsstjórnina eða þá, sem hún fær til að meta slíkar vinnuframkvæmdir, að sjá hag landssjóðs borgið. Það er svo fjarri því, að hagur landssjóðs sje trygður með þessu, að það gæti oft orðið honum skaði. Og þess er jeg fullviss, að ef einhversstaðar verður veruleg neyð, er miklu örðugra fyrir landssjóð að bjarga en ef stjórnin gæti ráðið því, hvar og hvernig dýrtíðarvinna sem þessi yrði framkvæmd.

Háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) vjek að því í ræðu sinni, að það mundi orka mjög tvímælis, hvort kolastyrkurinn hefði komið að nokkrum verulegum notum. (P. J.: Það sagði jeg alls ekki). Ekki heyrðist mjer betur. (P. J : Jeg sagði, að það orkaði tvímælis, að hve miklum notum hann hefði komið). Gott og vel. Það er nokkuð sama. Jeg skal ekki bera um, hvort svo er í ýmsum hjeruðum út um land. En jeg get fullyrt, að hann hefir orðið til mikillar hjálpar hjer í Reykjavík í vetur. Og ef vel hefði verið á haldið með afsláttinn, hefði það mjög víða getað hjálpað til muna. Jeg ímynda mjer, að það hefði orðið kalt hjá mörgum fátæklingnum í vetur, að minsta kosti hjer í Reykjavík, ef þingið hefði ekki tekið þetta ráð í fyrra, að gefa afslátt á kolum. Í sambandi við það mintist háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) á, að slík hjálp sæi ekki langt, ef um verulega þörf væri að ræða. Það er auðvitað alveg rjett, og í sambandi við það skal jeg geta þess, að þær 75 þús. kr., sem falla myndu í Reykjavíkur hlut af því fje, sem stjórnin gerði ráð fyrir að væri óafturkræfur styrkur, myndu hrökkva skamt, ef um verulegt atvinnuleysi væri að ræða. En ef þess er stranglega gætt, að engir aðrir njóti góðs af þessu en þeir, sem þess hafa verulega þörf, þá myndu þessar 75 þús. kr. geta hjálpað mjög mikið, er þar við bættust tvennar 75 þús. kr. annarsstaðar frá (150 þús kr.).

Þá greinir oss mjög á um það, hvernig nota beri gjaldþol þeirra einstaklinga, er sveitarbyrðina bera.

Mjer finst langhyggilegast að hjálpa einstaklingunum til að halda gjaldþoli sinu sem lengst, í stað þess að byrja að hjálpa þeim þegar gjaldþolið er farið. Það skal sannast, að fje það, sem veitt er til stuðnings efnalitlu fólki, verður minna, ef tekið er að veita það fljótt, en ef fyrst er byrjað á því þegar gjaldþol manna er að þrotum komið, sakir óvenjulegrar neyðar. Menn vita, hve misjafnt er aðstöðu þar sem efni eru fyrir höndum og þar sem efnin eru að þrotum komin. Vegna þess, hve margir í þessari háttv. deild eru kunnugir landbúnaði, þá vil jeg biðja þá að athuga, hvort þeim lítist ekki vænlegar á að styðja bónda til að halda t. d. 50 ám, sem hann á, heldur en að lofa honum að eyða þeim fyrst og verða þá að byrja að hjálpa honum, er hann hefir fargað bústofni sínum. Allir vita, að afurðir fjenaðar eru meira virði en rentur af peningaláni, sem til þess þarf að halda eigninni við.

Jeg get ekki verið að dylja það, að jeg er mjög kvíðandi fyrir horfunum í sjávarplássum landsins. Horfurnar eru svo vafasamar, að ómögulegt er að segja, hvernig ganga muni með sjávarútveginn. Sýnist mjer því, sem nauðsyn beri til þess að gera dýrtíðarráðstafanir í tíma, engu síður en í fyrra, þeim atvinnuvegi til styrktar og stuðnings, því að frá sjávarútveginum hjer hefir landssjóður notið sinna aðaltekna. Þetta minnir mig á þau orð í nál. háttv. meiri hluta, að landssjóður hafi ekki hlotið tekjur af stríðsgróða. Þetta er þó ekki fyllilega rjett. Árið 1916 bar landssjóður úr býtum liðuga hálfa milj. kr. í verðhækkunartolli, og þar af var tollur af sjávarafurðum ca. 490 þús. kr., eða 94% af öllum verðhækkunarskattinum.

Þótt nú sje svo ástatt, að þessi hjeruð landsins, sjávarhjeruðin, þurfi fremur liðs en sveitarfjelögin, vænti jeg, að háttv. þm. sjeu svo sanngjarnir og framsýnir að líta á nauðsyn þessara varúðarráðstafana. Hjer er ekki verið að tala um að ausa út fje, heldur að heimila það til varúðarráðstafana, ef menn geta ekki bjargast öðruvísi.

Jeg þykist nú vita, að Reykjavík sje að þessu leyti verst stödd af öllum hjeruðum landsins. En þá vil jeg biðja háttv. þm. að minnast þess, hvílíka fórn Reykjavík varð að færa á síðastliðnu sumri, þar sem helmingurinn af fiskiflota hennar var seldur til þess að bjarga öllu landinu, að því leyti, að það gæti fengið kol og salt eftir þörfum. Um leið og það var gert, fekk landið þessar vörur og þar af 10 þúsund smálestir með niðursetti verði. Jeg hefi athugað, hvað landið hefir grætt á þessari ráðstöfun; í lægra vöruverði mun það nema ca. 1 miljón króna. Svo miklu ódýrar fengust þessar vörur fyrir skipasöluna. Nú getur hver sagt sjálfum sjer, hvort slík blóðtaka, sem þessi skipasala er, er ekki tilfinnanleg og muni ekki hafa haft áhrif á atvinnu manna í bænum. (P. Þ.: Naut alt landið af þessu?) Já, alt landið, sveitamenn líka. Jeg vænti þess, að hv. þm. Mýra. (P. Þ.) þurfi að haustinu bæði salt og olíu. Nú var hætt við því síðastliðið sumar, að skortur yrði á þessu, en með þessum samningum voru vandræðin leyst. Þetta úrræði bjargaði, og hafa sveitirnar haft þess engu minni not, að því leyti, sem þær þurfa á salti og olíu að halda. Landssjóður hefir beint grætt þar um 860 þúsund krónur, sem hann þurfti ekki að svara út fyrir þessar vörur, af því að sala þessi fór fram. Jeg skal ekki tala mikið meira um kolaafsláttinn, en til þess að svara því, sem gefið er í skyn í nál. meiri hl., að Reykjavík hafi af honum áskotnast álitleg fúlga, þá má bæði telja það, sem jeg hefi áður sagt, og enn fremur má bæta því við, að bæjarbúar hafa greitt þann mismun, og líklega meira, aftur í hækkuðu verði á frönskum kolum (smálestin seld á 300 krónur). Á þetta má líta sem annað í sambandi við þetta mál.

Nú hefði jeg vænst þess af hv. meiri hl. bjargráðanefndar, og vænti þess nú af meiri hl. hv. deildar, þótt ekki blási byrlega og fáir sjeu aðstandendur till. minna, að á þessar ástæður kaupstaðabúa, og þá líka Reykjavíkurbúa, verði litið.

Satt að segja held jeg, að hv. meiri hl. geri of lítið úr því, ef kaupstaðir og kauptún komast í fjárhagslegt öngþveiti, og of mikið úr því, hvað það rýri landssjóðinn að afstýra slíku. Ef gjaldþol kauptúna og kaupstaða er með öllu eyðilagt, hlýtur það að hefta alla framför og framsókn í landinu. Er þá betra að gera varúðarráðstafanir til þess að afstýra þessu en að gera síðar ráðstafanir til þess að lappa upp á það, þegar komið er í óefni, og víst er, að það yrði ekki ódýrara landinu en ef það hlypi strax undir baggann. Loks vil jeg segja, að ef hv. meiri hl. þessarar deildar fæst ekki til þess að veita fjárhagslegan stuðning, þótt hann gengi ef til vill meir til sjávarþorpanna, þá man hann það illa, hver færir landssjóði mest í búið, man illa kaldar og siggharðar hendur sjómannsins, sem leggur á sig erfiði og lífshættu við að ausa fje upp úr „gullkistu“ landsins.

Annars virðist mjer, sem af till. hv. meiri hl. hefði ekki þurft að koma fram einn einasti stafur, því að sveitarstjórnarlögin heimila allar þær ráðstafanir, er þeir gera ráð fyrir. Sveitarstjórnir eru blátt áfram skyldugar til þess að hjálpa á þennan hátt, og þær sveitarstjórnir, sem eru illa staddar, geta snúið sjer til landsstjórnarinnar, og hefir hún þá ekki að eins lagalega, heldur og siðferðislega, skyldu til þess að hjálpa. Og hví þá að vera að semja lög um slíkt?

Jeg hygg nú, að till. mínar sjeu svo hóflegar, að allir þeir, sem með fullri sanngirni líta á þetta mál, geti fallist á þær í einu og öllu. Jeg gæti fremur búist við ákúrum fyrir það, hve langt jeg hefi gengið í till. mínum, til þess að sjá um, að enginn moli hrykki til fátækra af borði landssjóðs, nema þeir sjeu að fram komnir af sulti. Við þessu gæti jeg frekar búist en hinu, að af till. mínum gæti stafað hætta á misbrúkun landssjóðsfjár, ef þær vœru samþyktar. En jeg hefi mjer það til málsbóta, að mjer þótti svo óvænlega horfa, að verulega frjálslyndar og sanngjarnar till. gætu naumast vænst sigurs. Fyrir því rifaði jeg seglin; þorði ekki annað en að fara meðalveginn.