05.06.1918
Efri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg skal gera mjer far um að verða stuttorður og endurtaka sem minst af því, sem jeg hefi áður sagt, þótt sumir hafi gefið mjer ástæðu til að halda, að þörf væri á því.

Háttv. 2. þm. G. K. (K. D.) taldi ekki rjett að taka það fram í frv., að styrkur, sem væri veittur vegna dýrtíðarinnar, skuli ekki teljast sveitarstyrkur. Jeg lít svo á, að það sje einmitt aðaltilgangurinn með þessum lögum að forða mönnum frá því að komast á sveitina vegna dýrtíðar. Þetta hefir verið meginreglan í öllum dýrtíðarráðstöfunum þingsins. Svo skildi jeg t. d. atvinnuheimild þingsins í fyrra. Það væri því mjög varasamt að halda 3. brtt. nefndarinnar, því að eftir henni getur óendurgoldin dýrtíðarhjálp skoðast sveitarstyrkur eftir tiltekinn tíma. Þetta er þvert ofan í „princip“ allra okkar dýrtíðarráðstafana.

Þá kem jeg enn einu sinni að lán- og styrkveitingakjörum nefndarinnar. Fyrst eru 10 krónurnar með venjulegum lánskjörum, svo kemur lán og jafnmikil fjárhæð fylgir með gefins. Jeg verð að segja það, að kjörin mega vera örðug til þess, að það borgi sig ekki að taka slík lán. Jeg hygg, að svona boð muni að minsta kosti verða vel þegið hjer í Reykjavík. Það er sagt, að núgildandi lög freisti, en enn meir freista þessi lög til lántöku, enda munu lánbeiðnir berast úr öllum áttum. Verður þar örðugt fyrir stjórnina úr að skera, því að þekking á ástandinu í hverri sveit landsins er torsótt, og skoðanir manna misjafnar, jafnvel ura ástandið í sömu sveitinni. — Alt öðruvísi horfir við um styrkinn samkvæmt frv. stjórnarinnar. Þar verður úr færri vandkvæðum að ráða. Samkvæmt því er styrkur ekki veittur, nema sveitar- og bæjarfjelögin leggi 2 á móti 1 úr landssjóði. Þar er prófsteinninn á þörfina Sveitirnar munu hika við að leggja fram sína tvo parta, þótt einn komi í móti úr landssjóði, nema veruleg þörf sje til. Háu gjaldendurnir, sem mestu ráða, munu sjá, að það, sem sveitin leggur til — 10 kr. á nef — lendir á þeim, þegar til niðurjöfnunar kemur, og að þarflausu auka þeir naumast útsvarið sitt.

Jeg vona, að háttv. deild opni ekki um of aðganginn að landssjóði og leggi ekki of mikla ábyrgð á herðar stjórninni. Jeg fæ ekki betur sjeð en að í brtt. nefndarinnar sje öllum vanda og ábyrgð varpað yfir á stjórnina. Jeg segi þetta ekki af neinum óvilja til nefndarinnar. Til þess hefi jeg síst ástæðu, eftir því trausti, sem hún sýnir stjórninni. En stjórnin verður að segja sína skoðun eftir þeirri reynslu, sem er fengin.