05.06.1918
Efri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Magnús Torfason:

Háttv. þm. Ak. (M. K.) kvað þetta mál vera rætt, til hlítar. Jeg er á gagnstæðri skoðun. Í tilefni af brtt. vil jeg geta þess, að jeg fæ ekki betur sjeð en að heitið „dýrtíðarhjálp“ hljóti að útiloka, að hægt sje að skoða þennan styrk sem sveitarstyrk. Svo hefir og verið um dýrtíðarhjálp í öllum öðrum löndum, og jeg get ekki sjeð, að ástæða sje til að haga þessu öðruvísi hjer. Lán eins og þau, sem háttv. nefnd hugsar sjer, get jeg ekki kallað „dýrtíðarhjálp“, því að það er við búið, að þau svifti menn mannrjettindum. Það bætir lítið um, þótt frestur sje veittur á greiðslu lánsins gegn 6% rentu. Ef lánið er ekki greitt á vissum tíma, á það að skoðast sveitarstyrkur. Jeg er hissa á, að svona till. skuli geta komið fram hjer í þessu landi, sem er hreint alþýðuland, hjer, þar sem almennur kosningarrjettur var svo viðstöðulaust í lög leiddur, og þar með mannhelgi viðurkend í ystu æsar. Og svo á nú að gera út af við mannhelgina með þessum lögum. Svona löguð lán verða blóðpeningar fyrir þá, sem þiggja. Lögin verða blettur á þinginu, ef þau ná fram að ganga þannig löguð.

Jeg gerði áðan fyrirspurn til háttv. fjármálaráðherra um atvinnubæturnar, en hefi ekkert svar fengið. Því verð jeg að álíta, að ákvæði 6. gr. sjeu að eins fyrir Reykjavík, en fyrir önnur bæjar- og sveitarfjelög landsins sjeu að eins þessar 5 kr. á móti 10, sem sveitarfjelagið leggur fram.

Nú skulum við lita á, hve mikið það gæti orðið, sem veita má eftir frv. stjórnarinnar og háttv. bjargráðanefnd er að telja eftir. Í mesta lagi gæti það orðið 5 kr. X 90.000 = 450 þús. kr. Þessi fjárhæð er hugsanleg, en fyrirsjáanlegt er, að styrkurinn mun ekki nema nærri svo miklu. Ekki er annað sjáanlegt en að nú verði góðæri fyrir landbúnaðinn. Það er ekki stjórninni að þakka, heldur gjafaranum allra góðra hluta. (M. K.: Stjórninni og þinginu að nokkru leyti). Því fer fjarri. Það má búast við góðæri, þrátt fyrir sumar ráðstafanir stjórnarinnar. Stjórnin neitaði okkur Ísfirðingum um fóðurbæti handa fjenaðinum í harðindunum að áliðnum síðasta vetri. En hvað sem um það er, lítur ekki út fyrir, að landbúnaðurinn geti kornist á vonarvöl á næsta ári. Það gæti ekki orðið, nema bændur settu að eins á guð og gaddinn, en engin hey. Þessi „verulega neyð“, sem talað er um í frv., getur því tæpast orðið nema í sjávarsveitunum, og þó ekki nema í sumum þeirra. Í Vestmannaeyjum hefir t. d. verið góðæri. Hjer við Faxaflóann líka. En þótt við tökum allar sjávarsveitirnar, verða styrk þegar ekki fleiri en 30 þúsund. Dýrtíðarhjálpin á næsta ári getur því aldrei farið fram úr 150 þús. kr., þ. e. a. s. sá hluti, sem landssjóður leggur til. Þetta er nú alt og sumt, sem bjargráðanefndin er að telja eftir.

Á Ísafirði fór það svo, að við þurftum 27.000 kr. til fátækramála síðastliðið ár. En eftir brtt. nefndarinnar ættum við þar að auki að leggja fram 20.000 kr. áður en hjálpin kemur; því hvaða hjálp er það, þótt fá megi lán með 6% vöxtum? Það má heita gys og gabb við sveitar- og bæjarfjelög að tala um slíkt sem hjálp.

Á Ísafirði var hart á og full neyð í fyrra, og jeg vildi, að hamingjan gæfi, að ekki kæmi sú neyð þar, að verja yrði 20.000 kr. fram yfir það, sem þá var, til fátækrahjálpar.

En þá fyrst er von á hjálpinni. Jeg lít því svo á, sem þetta sjeu hrein pappírslög, enda veit jeg ekki, nema leikurinn sje til þess gerður.

Eins og jeg tók fram við 1. umr., þurfti Ísafjörður ekki að sjá um nema sína eigin framfæringa. En jeg skil þessi lög svo, að eftir þeim eigi styrkur sá, sem veittur er bæjar- og sveitarfjelögum, að ná jafnt til allra.

Hagurinn yrði því lítill. Ef við notuðum 57.000 kr., þá mundi styrkurinn verða 10.000 kr. En eftir því, sem við þurftum í fyrra til utansveitarfólks, þá mundu fara 8.000 kr. til þess. Af styrknum fær þá hjeraðið sjálft einar 2.000 kr. En þegar varið er 67.000 kr. til fátækrahjálpar í hjeraði, sem í eru 2.000 manns, þá er veruleg neyð fyrir hendi, og það ætti öllum að vera ljóst, hvílíkir smámunir 2.000 kr. styrkur er, þegar svo er ástatt.

Jeg verð því að segja það, að ef þessar brtt. verða samþ , þá verð jeg blátt áfram að greiða atkv. á móti frv.

En það er eins og gengur, að sjaldan er ein báran stök. Svo er ekki heldur hjer, því að jafnhliða þessum merkilegu dýrtíðarlögum eru hjer þrenn skattalög á ferðinni.

Er þar til ætiast, að lagðir verði á landsmenn skattar, sem nema fullri 1/2 miljón króna. Af þeim má gera ráð fyrir, að bæjarfjelögin öll verða að greiða 80%.

Það verða þá 400.000 kr., sem leggjast á bæina, en samkvæmt dýrtíðarfrv. stjórnarinnar eru það 150.000 kr., sem veita má þeim til hjálpar úr landssjóði. Með öðrum orðum, bæirnir eru plokkaðir um 250.000 kr.

En jeg get lýst yfir því, að ef svo á til að ganga með hjálpsemina, þá verð jeg að setja mig á móti slíkum aðferðum. Jeg hafði einmitt búist við, að skatta þessa ætti að nota til hjálpar þar, sem þörfin krefur.

Eitt var það, sem mjög var talið eftir í fyrra. Það voru dýrtíðarkolin. Þau komu næsta misjafnt niður. Eins og kunnugt er, var farið eftir skýrslum, sem safnað var utan af landi. En þær skýrslur voru mjög misjafnar og úthlutun kolanna því misjöfn. T. d. fengu Austfirðingar miklu meira en Ísfirðingar, tiltölulega. Þetta var nú samt góðra gjalda vert, hefði fjeð verið tekið af landsfje yfirleitt. En svo var ekki nema að litlu leyti, því að almennu kolin voru seld svo dýrt, að þar vanst upp talsverður hluti af verðlækkuninni á dýrtíðarkolunum. Og hverjir guldu? Bæirnir og engir aðrir, svo að alls og alls var sú hjálp æði lítil.

Eitt er enn, sem jeg vil biðja menn að athuga, þegar talað er um dýrtíðarhjálp. Það, sem gerir fólki erfiðast fyrir, eru eldiviðarvandræðin. En þau koma næstum eingöngu niður á sjávarmönnum, því að frá ómunatíð hafa sveitamenn að mestu aflað sjer síns eldiviðar sjálfir.

En menn, sem eru á sjó öllum stundum, eru algerlega útilokaðir frá því að afla sjer eldsneytis sjálfir. Þeir verða því að kaupa það dýrum dómum.

Það liggur því augum uppi, að ekki hefði átt að fella þann lið úr frv. frá í fyrra, en þó er það gert hjer.

Þá vil jeg með fám orðum svara hv. þm. Ak. (M. K ). Hann sagði, að sveitirnar yrðu að leggja 100 kr. út, með framfæringum annara hreppa. Það er alveg rjett, að þær verða að leggja 100 kr. út, en þær eiga rjett til endurgreiðslu á 2/3 hlutum þess fjár. Tapið verður því að eins 33 kr. Og því er það, að þegar utansveitarframfæringar eiga eftir frv. þessu að fá jafnt og innansveitarmenn, þá hlýtur það að auka kostnað sveitanna.

Eftir lögum þessum má að vísu lána þetta, en fyrir fátæk sveitarfjelög, sem eiga í vök að verjast, er það lítil hjálp að burðast með dýr lán í mörg ár.

Samkvæmt brtt. eiga lán þessi að endurborgast á 5 árum, og ræður landsstjórnin, hvenær fyrsta afborgun fer fram. Jeg skil þetta ákvæði svo, að það sje til þess sett, að afborgun þurfi ekki að byrja fyr en eftir .stríðið, og munu neyðarhjeruðin þá eiga að borga rentur af lánunum þangað til.

Háttv. framsm. (S. F.) sagði, að mín skoðun á máli þessu færi mjög í aðra átt en skoðun hæstv. fjármálaráðherra, en jeg vil taka það fram aftur, að mín skoðun er eingöngu bygð á reynslu þeirri, sem jeg hefi frá Ísafirði. En mjer er ómögulegt að leiða neinar getur að því, hvernig þessi lög myndu verka hjer í Reykjavík, enda eru fjárráðstafanir allar hjer svo skrítnar, að illfært er að elta alla þá króka.

Yfirleitt verð jeg að segja um frv, eins og það kom frá Nd., að jeg tel tvísýnt, að það verði til hjálpar sveitarfjelögunum, komi veruleg neyð. En ef brtt. nefndarinnar hjer verður samþykt, þá er enginn vafi á því, að að minsta kosti Ísafjörður mun aldrei nota hjálp þessa.

Að síðustu vil jeg geta þess, að eitt ákvæði í 3. brtt. nefndarinnar, um sveitarstyrkinn, hlýtur að takmarka rjett framfærsluhrepps til að taka til sín ómaga sína. Jeg er ekki að segja, að þetta sje galli á frv., því að mjer hefir altaf frá því fyrsta orðið ver og ver við sveitarflutninga. En jeg vildi að eins benda á þetta, í sambandi við frv. eitt, sem nú er komið til háttv. Nd., þar sem stjórninni er svo að segja sigað til nokkurskonar allsherjarþurfamannaflutninga.

Það virðist koma heldur illa heim við þetta ákvæði.