05.06.1918
Efri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Guðmundur Ólafsson:

Jeg skal ekki vera fjölorður, enda orðnar langar umr. Að eins ætla jeg að minnast á örfá atriði viðvíkjandi því, sem hæstv. fjármálaráðh. og háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sögðu.

Það er ekki hægt fyrir hæstv. fjármálaráðh. að halda því fram í alvöru, að landssjóður þurfi að sjálfsögðu að borga miklu meira fje til dýrtíðarhjálpar eftir till. nefndarinnar, því að fyrstu 10 kr. á mann, er sveitar- og bæjarfjelög veita, verður að líkum ekki leitað til landssjóðs með, nema þá að litlu leyti, og undarlegt er að gera ráð fyrir, að öll sveitarfjelög biðji um lán, og halda því jafnframt fram, að þeim, sem lakast verða stödd, muni nægja þessi hjálp. Samkvæmt stjórnarfrv. má verja 15 krónum á mann til dýrtíðarhjálpar; það verða ca. 1.350.000 krónur í alt. Þar af á svo landssjóður að gefa þriðjunginn, eða ca. 450.000 krónur, í stað þess, sem nefndin ætlast til, að hann láni fje með sanngjörnum vöxtum. Lánaþörfin má verða alveg ótrúlega mikil, ef leið sú, sem nefndin vill fara, verður ekki kostnaðarminni fyrir landssjóðinn, auk þess, sem hún er margfalt notadrýgri fyrir þá, sem hjálparinnar eiga að njóta.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) talaði mikið um, að brtt. væru ófærar, en honum þótti frv. ekki heldur gott. — Þá talaði hann (M. T.) um þann stríðsgróða, sem gerði mönnum fært að leggja mikið á sig, en á síðasta þingi mátti hann ekki heyra stríðsgróða nefnan, er frumv. um tekjuskatt var til umræðu. Annars kom það fram í ræðu hans, að hann taldi lán ekki hjálp, og þótti ekkert gott, nema það, sem ekki þarf að borga aftur, þ. e. styrkur. En hvers vegna tók þá Ísafjörður 100 þús. kr. lán síðastliðinn vetur?

Þá var honum illa við kolaúthlutunina. Vildi hann láta haga henni öðruvísi en áður og taldi sjálfsagt, að sjómenn fengju kolin með betri kjörum en aðrir, því að þeir gætu ekki aflað sjer þeirra þegar þeir væru á sjónum. En það er nú svo með alla, að þeir geta ekki tekið upp mó, eða aflað sjer annars eldsneytis, þegar þeir eru við aðra atvinnu, en hún getur þó gert þá færa um að kaupa það. Annars var öll hans ræða miðuð við Ísafjörð og ástandið eins og það er þar í hans augum, en fullljóst var háttv. þm. (M. T.), að Ísafjörður þyrfti á miklum styrk að halda, og að ekki gæti komið til mála, að Vestmannaeyingar þyrftu hans með.