15.06.1918
Efri deild: 45. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Sigurjón Friðjónsson:

Vegna þess, að mál þetta var til athugunar hjá nefnd, sem jeg á sæti í, þá vildi jeg gera stutta athugasemd við ummæli háttv. þm. Snæf. (H. St.) um, að altaf sje verið að herða ákvæðin. Þetta er ekki rjett, því að í frv., er það kom fyrst fram, var beinlínis bannað að flytja ónauðsynjavöru til landsins öðruvísi en með sjerstöku leyfi. Á þetta vildi nefndin ekki fallast, en vildi breyta því á þá leið, að stjórnin gæti bannað innflutning á þeirri vöru, sem hún teldi ónauðsynlega; en nefndin tók siðar þá till. aftur og fjelst á till. háttv. þm. Ísaf. og flm. frv. (M. T.) um að heimila stjórninni að banna innflutning á vörum til landsins, eftir því sem henni kynni að þykja nauðsynlegt.

Nú er í raun og veru búið að leggja bann á alla aðflutninga til landsins, nema eftir leyfi nefndar, er stjórnin hefir skipað. Þetta er gert með reglugerð, sem birt hefir verið í Lögbirtingablaðinu. Jeg veit ekki, eftir hverju stjórnin hefir farið, er hún gaf út þessa reglugerð; jeg verð að telja það hæpið, að hægt sje að finna nokkra stoð fyrir því í núgildandi lögum, en því lít jeg svo á, sem nauðsyn beri til, að lög sem frv. þetta verði afgreidd hjer á þinginu. En jeg skal játa það, að hjer er nokkuð langt farið, og jeg greiði hikandi atkv. með frv.