12.06.1918
Efri deild: 42. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Eggert Pálsson:

Eins og háttv. deildarmönnum er kunnugt, er jeg illa við búinn að halda langa ræðu um þetta mál. Jeg hefi verið fjarstaddur um tíma og hefi því ekki haft tækifæri til að kynna sjer meðferð málsins hjer í deild inni. Væri mjer því ljúfast að þurfa ekki að greiða atkvæði, svo að engan þátt ætti jeg í afdrifum málsins. Jeg vil þó geta þess, að mjer virðist stjórnarfrv. aðgengilegast af öllu því rusli, sem fram hefir komið um dýrtíðarmálin. Þar eru ákveðin takmörk sett fyrir styrknum, og er það höfuðkostur. Hitt liggur í hlutarins eðli, að ef veruleg neyð — hungur — vofir yfir, muni stjórnin gera það, sem í hennar valdi stendur, til að afstýra voðanum, hvort sem nokkur lagastafur er fyrir því eða ekki. En ef engin knýjandi nauðsyn er fyrir hendi, verður að hafa takmörk fyrir dýrtíðarstyrk eða lánum.

Jeg hefi getið þessa til að gera grein fyrir atkvæði mínu, ef jeg neyðist til að greiða atkvæði. Með þetta fyrir augum mun jeg greiða atkvæði á móti brtt. nefndarinnar.