11.07.1918
Neðri deild: 68. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Þórarinn Jónsson:

Jeg skal ekki fara mikið út í þetta mál. Jeg verð að leggja áherslu á það, að mál þetta er í öndverðu tekið upp sem bjargráðamál. Það er þó ekki og getur ekki verið alþjóðarbjargráðamál, þar sem á bak við stendur fjárhætta einstakra manna þjóðfjelagsins, en eigi heildarinnar. Hætta sú, sem samfara er samþykki þessa frv., er að sjálfsögðu töluverð fyrir landssjóðinn, en þar sem frv. miðar til þess, að styðja hina smærri síldarútvegsmenn í samkepninni við þá stærri og það einnig getur á annan hátt horft til bjargráða, sem jeg síðar skal sýna fram á, er jeg hlyntur anda frv. Jeg hlýt að gera ráð fyrir, að Svíar kaupi og borgi á ákveðnum tíma þá síld, sem þeir vilja fá, og að vjer þurfum eigi að sjá um flutning til þeirra, því að það gæti verið óþægilegur böggull, eins og nú er ástatt um skipakost. Jeg geng því hiklaust út frá, að háttv. stjórn sjái svo um, að Svíar borgi þá síld, sem þeir kaupa hjer, á ákveðnum degi, hvort sem hún verður til þeirra komin eða eigi, og að þeir sjái um flutningstæki.

Með þessum fyrirvara get jeg fylgt frv., með því að jeg þykist sjá, að það einnig á annan hátt geti horft til bjargráða, eins og jeg vjek áður að, sem sje á þann veg, að sá hluti síldarinnar, sem eigi fer til Svía eða Ameríkumanna, verði notaður til fóðurbætis hjer í landi. Þetta getur orðið mikilsvert vegna þess, hversu afarilla nú lítur út um grasvöxt hjer á landi, sjerstaklega þegar tekið er tillit til, að eftir því verði, sem sagt er að Svíar muni gefa, ætti að vera hægt að selja hinn hluta síldarinnar fyrir 15 kr. tunnuna, án þess að landssjóður hefði halla, og væri slíkt ódýr fóðurbætir og vel leggjandi í nokkra áhættu með þetta fyrir það, að fá svo ódýran fóðurbæti. Ef stjórnin tæki þann kost um sölu síldarinnar, sem jeg hefi bent á, gæti hjer einmitt verið um bjargráð að ræða fyrir landbúnaðinn og það verð jeg að ætlast til, að hún geri.

Það hvetur mig einnig nokkuð til að fylgja máli þessu, að hinir stærri síldveiðamenn, sem í öndverðu fluttu málið af töluverðu kappi, hafa nú snúið við blaðinu og vilja helst að málið strandi, sennilega vegna þess að þeir sjá nú, að hættan er eigi slík sem þeir hjeldu í byrjun, og bendir þetta eindregið í þá átt, að þeir hafi ætlað landssjóði áhættuna, en sjer gróðann. Og jeg verð að segja, að jeg er ekkert hrifinn af slíkum hugsunarhætti.