15.07.1918
Neðri deild: 71. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Matthías Ólafsson:

Mjer virðist sem lengi muni mega um það deila, hvor meginreglan sje heppilegust í þessu máli, hvort heldur dýrtíðaruppbótaraðferðin, sem þingið tók fyrst upp, eða þá hin, að hækka launin til bráðabirgða, eins og fjárveitinganefnd þessarar deildar lagði til. En mjer virðist sem það hefði nú verið hið besta, að veita ekki dýrtíðaruppbót, og taka upp þá aðferð frá byrjun. Dýrtíðaruppbótaraðferðin hefir sem sje þann leiða ókost, að ilt er að reikna út upphæð þá, er uppbótin nemur. Þannig er það um þetta frv. frá Ed., að það er engin leið að vita með vissu, hve miklum útgjöldum það veldur, en þann kost hafði þó frv., sem hjeðan fór úr deildinni, að hægt var að sjá með eigin augum og fyrirfram, hver útgjöld það mundi hafa í för með sjer. Og ekki mun mega minna krefjast af þinginu, eins og sakir standa nú um fjárhag landsins og horfur allar í þeim efnum, en að það hafi þó einhvern grunn undir fótum sjer, er það kveður á um útgjöld úr landssjóðnum. En um rjettindi háttv. Ed. til þess að fella allar till. Nd. og raska öllum grundvallarreglum hennar á síðustu stundu, svo að hún neyðist til að ganga inn á annan grundvöll, skal jeg ekki dæma, en þess þykist jeg fullviss, að siðferðislegur rjettur hennar í því efni sje mjög vafasamur. En það er ekki í fyrsta skifti, sem sú háttv. deild beitir slíkri harðneskju, að jeg ekki segi gerræðisfullu ofbeldi, gagnvart þessari háttv. deild. Jeg man það t. d., þegar hún geymdi hjá sjer „faktúru“-tolls lögin, sem Nd. hafði samþykt, samþykti síðan vörutollslögin og hótaði að fella hin, svo að Nd. varð að ganga að vörutollslögunum, og hafði með þessu mörg þúsund kr. af landssjóði.

Ef háttv. Nd. vill nú beygja sig, þá gerir hún það einungis til þess, að ganga þó einhvern veginn frá málinu. Það væri nú ekki neitt um það að tala, ef þetta frv. frá háttv. Ed. væri betra. En það er að öllu leyti verra en frv. háttv. Nd.

Nd. fylgdi tveim meginreglum í frv. sínu. 1. Hve mikið fje mætti leggja í uppbæturnar og 2. að bæta upp launin einungis hjá þeim, sem verst eru settir. En það var tekið fram, að til þeirra embættismanna í landinu, sem við viðunanleg kjör ættu að búa sakir annara hlunninda, er stöðunni fylgdu, skyldi engin viðbót veitt, en nú hefir háttv. Ed. bætt upp öllum embættismönnum og þessum best settu embættismönnum líka. Það vita allir, hvaða embættismannastjett þetta er. Það er prestastjettin. Landsnytjar þær, sem þeir hafa og ódýrt jarðnæði á góðum bújörðum gerir það að verkum, að þeir standa nú í dýrtíðinni ólíkt betur að vígi en margir þeir, er hærri laun fá að krónutali. En þó hafði neðri deildarnefndin sýnt þá sanngirni, að veita eftir samráði við biskup landsins talsverða fúlgu til að skifta milli þeirra presta, er búa í kauptúnum eða hafa engar landsnytjar.

Jeg verð því að segja, að ef svo fer, að þingi verði slitið án þess, að þeir embættismenn fái nokkra launabót, er nauðsynlegast þurfa, þá er það ekki neðri deildar sök, heldur háttv. Ed. Og jeg vil segja háttv. Ed.: Geri hún það, ef hún þorir, að fella frv. Nd. um launaviðbætur, ef þetta verður felt hjer í deild. En jeg vil segja, að það væri eitthvert mesta hermdarverk, sem unnið hefir verið á Alþingi.

Annars mætti vel, þótt ekki sje góðgjarnlegt, geta sjer þess til, að þessi ruglingur væri orðinn og refarnir til þess skornir hjá háttv. Ed., að þetta mál skuli fara út um þúfur, en að hjer ráði ekki góður og einlægur vilji til þess að fara sem best með málið.