14.06.1918
Efri deild: 44. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg er alveg á sama máli og hæstv. atvinnumálaráðh., hvað snertir staflið a á þgskj. 347. Hvað síðari liðinn, staflið b, snertir, þá get jeg fyrir mitt leyti ekki annað en verið á móti honum. Frv. stjórnarinnar ætlast til þess, að sveitarstjórnirnar verði að leggja talsvert á sig til þess að fá styrk. Með brtt. þessari er viss aðgangur veittur að lánunum. Gæti þá farið svo, að þær hækkuðu ekki útgjöld sín um 10 krónur á mann, heldur færu lánaleiðina. Jeg held því, að það „kontrol“, sem liggur í því, að stjórnin veiti styrk, sje farið, ef brtt., b-liður, verður samþykt.

Aftur á móti verð jeg að segja það um brtt. á þgskj. 355, að þær eru samdar á sama grundvelli og stjórnarfrv. Þó álít jeg, að ef frv., með þeim breytingum, kæmi aftur fyrir háttv. Nd, þá yrðu þær því að falli. — 1. og 3. brtt. miða til hækkunar á styrknum. Sú hækkun mundi geta numið yfir 500 þús. krónur, ef veitt yrði að fullu. En nú er það engan veginn útilokað með stjórnarfrv., að sveitarfjelögin geti ekki veitt meiri hjálp en sem svarar 15 kr. á mann. Meiningin með þeirri upphæð er að eins sú, að tiltaka hvað þurfi minst til þess, að landssjóðsstyrkurinn fáist.

Mjer finst enn fremur 2. brtt. óþörf. Þar er talað um, að stjórnarráðið geti sett hækkun útsvara sem skilyrði fyrir hluttöku landssjóðs í útgjöldum, sem ráðstafanirnar hafi í för með sjer. En í stjórnarfrv. er gert ráð fyrir tveim leiðum til framkvæmdar lögunum, að hækka útsvör og taka lán.

Að öllu athuguðu verð jeg að leggja á móti þeim brtt., sem fram eru komnar. Landsstjórnin hefir í svo mörg horn að líta, og jeg skil ekki, að nokkur geti láð henni það, þó að hún vilji ekki láta binda landssjóði of þunga bagga.