24.04.1918
Neðri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

17. mál, útibú á Siglufirði

Atvinnnmálaráðherra (S. J.):

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) tók af mjer ómakið með sumt af því, sem jeg vildi sagt hafa um þingsályktunartill. þá, sem hjer er fram komin. Nú stendur svo á, að einmitt í dag er til umr. þingsályktunartill. í Ed., um að setja á stofn útibú frá Landsbankanum í Vestmannaeyjum. Má ganga að því vísu, að allgóð rök verði færð fyrir nauðsyn slíkrar stofnunar þar. Vitaskuld er í lögum

Landsbankans gert ráð fyrir því, að bankinn komi á fót útibúum, jafnvel á sem flestum stöðum, þar sem brýn þörf er til, og eftir því sem ástæður hans leyfa, enda geri jeg ráð fyrir, að bankastjórnin sje fús til þess, eftir því sem hún best getur; en nú hefir á þessu ári verið stofnuð útibú á Eskifirði, og í Árnessýslu kemst útibú væntanlega á stofn einnig á þessu ári.

Ef lengra skal fara í þessu efni þegar í stað, vil jeg taka undir með síðasta ræðumanni (P. J ), að þingið íhugi nákvæmlega, hvort þörfin sje mjög brýn fyrir fleiri útibú nú þegar. Sjálfsagt má benda á fleiri staði en þá áðurnefndu, þar sem útibús þyrfti með; vil jeg þá sjerstaklega nefna hjeruðin, sem liggja að Breiðafirði og Húnaflóa, sem eru fjölbygð og eiga vafalaust mikla framtíð fyrir höndum, og á báðum þessum stöðum eiga 3 sýslufjelög hlut að máli.

Það er ekki svo að skilja, að jeg vilji mæla á móti því, að Siglufjörður og Vestmannaeyjar fái útibú, en jeg veit, að peningar Landsbankans eru talsvert bundnir við lán vegna dýrtíðarinnar, og vil leggja áherslu á, að öll varfærni sje viðhöfð í þessu máli, eins og nú standa sakir. Vil jeg leggja til, að málinu sje vísað til fjárhagsnefndar, en ekki allsherjarnefndar; tel það heppilegra.