02.09.1918
Efri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Benedikt Sveinsson:

Það er ekki nema eðlilegt, að háttv. þingheimur vilji, að jeg tali mig sem fyrst dauðan, því að þá eiga andstæðingar mínir hægra með að gylla mál sitt á eftir.

Þeir hafa nú talað tveir, fyrri frsm. (B. J.) og annar (vara) frsm (E. A.), og staðfest skoðanir þær og fullyrðingar, er fram koma í nefndaráliti þeirra, og hafa þeir, virðist mjer, haft litlu þar við að bæta. Hefi jeg hví þegar svarað mörgu af því, sem þeir sögðu nú, en af því að svo mjög ber á milli skoðunun meiri og minni hlutans, þá verð jeg enn að gera nokkrar athuga semdir út af aumum ummælum og andmælum þessara fram. (B. J. og E. A.) gegn orðum mínum.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) hóf mál sitt á því, að það væri ljett verk að setja út á frv. Þar er jeg honum samdóma. Það er geysihægt að sýna veilur í slíkri lagasmíð, sem, þótt hún viðurkenni fullveldi landsins, felur í sjer hin skaðlegustu ákvæði um veigamestu atriði, sem þó átti að ganga tryggilega frá.

Hann (B J.) var að tala um verslun, og að allir samningar væru verslun. Það orkar nú þegar tvímælis, ef allur rjetturinn er öðrum megin. En Danir eiga hér engan rjett. Rjetturinn er allur Íslendinga megin. Vjer þurfum því engan rjett að kaupa af Dönum og erum ekki heldur að seilast eftir yfirráðum yfir þeim.

Sami háttv. þm. (B. J.) vildi gera mikla úr því, að jafnframt því að vera stórsali hefði hann og verið stórkaupmaður, og þótti honum jeg þar hafa dregið undan.

Jeg vera nú að segja, að það voru Danir, sem voru betri kaupmenn en háttv. þm. Dala (B. J.), og þeir hafa farið heim með þyngri hlut í skutnum. Því að eins og háttv. þm. Dala. (B. J.) hefir haldið fram og bestu þjóðrjettarfræðingar, svo sem Gjelsvik, Lundborg og Fr. v. Liszt, áttu Íslendingar áður fullveldið og þurftu því ekki að kaupa það. En viðurkenningu þess þurfti að fá og hana urðu Danir að láta af hendi. Og þeirra var sæmdin með og skyldan að verða við kröfum tímans. Hví var verið að kaupa af þeim dýrum dómum það, sem þeir voru skyldir að láta af hendi? (B. J.: Þeir hafa ekki viljað gera skyldu sína).

Háttv. þm. Dala. (B. J.) spurði, hví fáninn hefði ekki fengist samþyktur. Jeg skal ekki svara því, en vel getur verið, að það hafi verið einhverjum ódugnaði hæstv. forsætisráðherra að kenna, að fáninn fjekst ekki.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) vildi gera lítið úr mætti Íslendinga. En Íslendingar hafa þó, án leyfis og vitundar Dana, gert út sendimenn til Ameríku og Englands. En það geta þeir eigi hjer eftir samkvæmt samningnum, nema með samþykki hins danska yfirdrottins þeirra mála.

Háttv þm. (B. J.) segir það aðalatriðið, hvort rjett sje að semja eða ekki. Og hann leggur þann dóm á, að rjett hafi verið að semja. En jeg er þar á, gagnstæðri skoðun. Jeg tel, að eigi hafi verið rjett að semja, eins og sakir stóðu, eða hvað sem í boði var, heldur bíða átekta, þar til er viðurkenning fullra rjettinda yrði knúð fram. Alheimur viðurkennir nú rjett smáþjóðanna, og engin einasta þjóð hefir ótvíræðari rjett en Íslendingar.

Það er t. d. alt öðru máli að gegna um Czecka og Serba á Balkan, sem dreifðir eru innan um graut annara þjóða. Þar er úr vöndu að ráða og illframkvæmanlegt að gera öllum rjett.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) spurði, hvort hægra væri að vernda fossarjettindin samkvæmt samningnum nýja eða ástandinu nú. Jeg veit ekki betur en að Íslendingar hafi þegar gert ráðstafanir til að vernda fossarjettindin, þótt ef til vill sjeu glompur þar í. En jeg hygg, að fossalöggjöfin versni, er hún verður endurskoðuð með tilliti til samninganna. Annars þýðir ekki fyrir mig og hv. þm. Dala. (B. J.) að þræta um þetta. Þar verður það og gerðardómurinn, sem sker úr því, hversu víðtækt vald Íslands sje samkv. samningunum.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) hjelt, að hæstirjettur yrði kyr í Danmörku, ef greinin (12. gr.) væri feld niður. Það væri undarlegt! Hvar er þá fullveldið, ef taka þarf fram hvert atriði, er ríkinu heyrir til? Jeg er hræddur um, að það sje þá ýmislegt fleira, sem vantar í sambandslögin. Honum þótti lítið gera til, þótt æðsta dómsvald í málum vorum sæti í Danmörku til næsta þings, en þá mætti þegar flytja það heim. Gott, jeg vona, að hann verði eins skeleggur þá og hann er nú!

Háttv. þm. Dala. (B. J.) vildi ekki geru mikið úr auknum innflutningi Dana, þótt þeir sæu, að vald þeirra á Íslandi væri undir því komið, hve margir þeir væru á Íslandi. Hann miðar við liðna tímann, en gætir þess ekki, að nú er kominn nýr tími.

Þá sagði háttv. þm. Dala. (B J.), að það gæti orðið Íslendingum hætta, ef Danir lentu í ófriði. Þetta eru tómar grýlur. Nú eru aðrar stefnur ofan á í heiminum en áður. Það vita allir, að í þessum ófriði er barist fyrir sjerstakri hugsjón, hugsjón sem er Íslandi stórkostlega í hag. Íslendingum getur því aldrei stafað hætta af, þótt Danmörk lenti í ófriði. Landið lýsti sig hlutlaust samdægurs, og engin hætta, að Bretar eða Þjóðverjar færu að herja hingað. Hann (B. J.) sagði, að ef til vill yrði Danmörk komin í ófrið fyrir 1. des. í ár. Þá hjelt jeg, að það væri nú til lítils að samþykkja slík lög, því að skeð gæti, að Danir hefðu þá, annað að gera en að staðfesta þau. En á þetta lagði háttv. þm. Dala. (B. J.) þó svo mikinn þunga, að hann sagði, að líf og tilvistarrjettur þjóðarinnar gæti verið í veði. Þetta þykja mjer undarlegar skoðanir. (B. J.: Undarlegur skilningur háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.)!). Jeg hjelt, að það væri miklu fremur lífsskilyrði hinnar íslensku þjóðar að hleypa ekki fyrirstöðulaust inn í landið þegnum annars fjölmennara ríkis. Það snertir ekki síður tilvistarrjétt þjóðarinnar.

Þá þótti honum (B. J.) það undarlegt, að jeg vildi gera samning, sem fyrirbyggi rifrildi við Dani. Jeg sje ekki, hvað unnið er við rifrildi við Dani. Jeg hugði, að flestir mundu líta svo á, að til þess væri verið að semja, að setja gamlar deilur og misklíð, en ekki til að kveikja þær upp. Þess vegna vil jeg vanda til samningsins, en ekki bindast samningi með því hugarfari að rjúfa hann við fyrsta tækifæri. Íslandi gæti og ekki síður orðið hált á því en Danmörku, því að sennilega gæti komið fyrir, að Danir vildu þá líka rjúfa eitthvað í samningunum sjer í hag.

Þá þótti háttv. sama þm. (B. J.) það undarlegt, er jeg sagði, að nefndin ætti að hafa gætur á »sjermálum« Íslands. Jeg vil biðja hæstv. þm. (B. J.) að lesa sitt eigið frv., því að þar er talað um lagafrv. um »sjermál« annarshvors ríkisins. Í þessari merkingu notaði jeg orðið, og var því lítil ástæða til þess að hneykslast á orðum mínum.

Annars get jeg þakkað báðum frsm. (B. J. og E. A.) fyrir vingjarnlegar undirtektir undir brtt. mínar, því að þeir lýstu yfir því, að þeir mundu hafa verið þeim samþykkir, ef þeir hefðu mátt ráða, en þeir mættu ekki ráða. En það er undarlegt, að þegnar fullvalda ríkis skuli ekki hafa heimild til þess að semja. En þessir menn skilja það ekki enn þá, að Íslendingar eiga heimtingu á að fá rjett sinn, en Danir hafa enga heimtingu á neinum yfirráðum eða ítökum á Íslandi. Afstaðan er sú, að Íslendingar hefðu átt að hafa sjálfdæmi í þessum málum.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) veitti mjer þá sæmd að gera mig að stórkaupmanni, eða öllu heldur fyrverandi stórkaupmanni. Mjer þótti undarlegt, hversu mikla áherslu hann lagði á afstöðu mína 1909; hann viðurkendi þó sjálfur við fyrstu umræðu þessa máls, að tímarnir væru alt aðrir nú en þá og aðstaðan öll svo breytt, að nú væri hægt að gera miklu fyllri kröfur heldur en þá. Frv. 1908 var og að ýmsu leyti annað en frv. 1918. Hinu hádanski andi, sem einkennir þetta frv., t. d. sjóðsstofnunin, til eflingar samvinnu milli beggja ríkjanna, var ekki í hinu frv.; því síður var í frv. 1908 áskilið, að fylsta jafnrjetti skyldi vera milli þegna hvors ríkisins, en svo er ákveðið hjer með þeim sterkustu orðum, sem dönsk og íslensk tunga eiga til. Menn sjá, að vísu meira eða minna óljóst fram í tímann, en menn þekkja svo vel orðið orsakasambandið, að hægt er að sjá hvílíkar afleiðingarnar verða af þessu ákvæði.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) vildi gera lítið úr þeirri hættu, sem af því stafaði, að Dönum yrði veittur þessi rjettur. Sagði hann, að þeir hefðu þennan rjett nú og gætu notað hann ef þeir vildu. Á háttv. þm. (B. J.) líklega við, að þennan rjett hafi Danir fengið með stöðulögunum. En það vita allir, að Danir, eða öllu heldur allir málsmetandi menn Dana, eru horfnir frá þeirri villu, að stöðulögin gildi hjer á landi, enda hefir og Alþingi afdráttarlaust mótmælt gildi þeirra laga.

Þá streymdu ýmiskonar spámæli af vörum háttv. þm. (E. A.), og meðal annars taldi hann Dani láta menn, sem ekki myndu hafa dug í sjer til þess að flytjast út hingað. En þetta er ekki rjett, því að Danir eru viðurkendir dugnaðarmenn og framgjarnir. En skiljanlega hafa dönsku nefndarmennirnir látið það í veðri vaka, er um þetta hefir verið rætt, að Danir væru værukærir og mundu ekki sækja Ísland heim til þess að nota sjer landið. Þessi sama regla kemur fram í orðtækinu gamla: »Snælega snuggir, kváðu Finnar, áttu andra fala«.

En vera má, að þessir menn hafi haft stálhnefa í silkihanska, og að oss geti orðið að því.

Háttv. 2 þm. Árn. (E. A.) vitnaði í ritgerð prófessors Lárusar Bjarnasonar í Eimreiðinni. Jeg efast ekki um, að hann hafi rjett eftir, en úr því að hann fór að vitna í þessa bók, hefði hann líka getað fundið þar ýmislegt, er styður mitt mál engu síður en hana, en jeg játa, að það er ekki hans skylda að styðja mitt mál. Ritgerðin er að vísu hæpin meðmæli með frv., en niðurstaðan, sem prófessorinn kemst að, verður þó sú, að rjett sje að ganga að því, þó að ætla mætti eftir sumu í ritgerðinni, að hann teldi frv. óalandi.

Annars er það mjög einkennilegt, hvernig þessir háttv. þm. (B. J. og E. A.) tala um jafnrjetti þegnanna, því að þeir láta sem það sje gersamlega þýðingarlaust. Háttv. þm. Dala. (B. J.) ljet þó svo fyrst, að mikið væri látið. En nú dregur hann úr því öllu saman. Aðrar þjóðir eru þó ekki alveg á máli þessara manna um það, hvers virði jafnrjetti þegna sje, og vil jeg, máli mínu til stuðnings, leyfa mjer að vitna í ritgerð Lárusar prófessors. Hann getur sambandsríkja, svo sem Austurríkis og Ungverjalands og Noregs og Svíþjóðar, og höfðu þau hvorugt sameiginlegan þegnrjett eða jafnrjetti. Sama má og segja um Stóra-Bretland. Þar er svo ákveðið að hvert land hafi heimild til að setja lög er tryggi landið fyrir ágangi frá íbúum hinna landanna, þótt þau lúti sama konunginum og þjóðernið sje meira að segja hið sama. Er því merkilegra, að svona skuli vera ákveðið, þar sem þó er sama þjóðerni og sama mál sem ríkir í þessum löndum. En á Íslandi og í Danmörku, þar sem búa ólíkar þjóðir bæði að þjóðerni og máli, eiga þegnar hvors ríkisins um sig að vera jafnrjettháir. (E. A.: Hvaðan hefir háttv. þm. (B. Sv.) þetta?). Jeg hefi þetta úr stórblaðinu »Times« frá 2. ágúst 1918, ef mig minnir rjett. Annars þætti mjer gaman að spyrja þessa tvo málsvara frv. (B. J. og E. A.): Hvar í heiminum eiga ríkisborgarar eins ríkis jafnan rjett við ríkisborgara annars ríkis? Á þessu sjer maður, að þetta orð, fullveldi, er haft til skrauts í frv. og felur ekki það í sjer, sem það í raun og veru þýðir. En því hafa þó Íslendingar ekki ætlað sjer að berjast fyrir, tómum orðunum.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) talaði um utanríkismálin og gerði ekki mikið úr þeim agnúum, sem þar eru á. Virtist mjer hann nú gera harla lítið úr því, að Íslendingar hefðu á eigið eindæmi sent erindreka sína til annara landa og samið við þau, eða með öðrum orðum virtist mjer honum finnast fátt um þann rjett, sem Íslendingar eiga til þess að hafa sendiherra í öðrum löndum. (E. A: Það getur þetta enn þá). Ekki óskorað, því að til þess þarf eftir frv. að fá leyfi utanríkisráðherrans danska.

Þá sagði háttv. þm. (E. A.), að engu síður bæri að taka tillit til athugasemdanna við 7. gr. en við 3. gr. En sjá ekki allir, hvernig stendur á aths. við 7. gr. Sjá ekki allir, að hún er afsökun af Dana hálfu fyrir það, að þeir geti ekki veitt Íslendingum þá vernd, sem þeir taka á sig með 7. gr. Þeir segja við oss Íslendinga: »Við förum með utanríkismál ykkar þegar enginn vandi er á ferðum, en þegar vanda ber að höndum, verðið þið að eiga ykkur«. Með þessu hafa Danir í raun og veru fyrirgert rjetti sínum til þess að fara með utanríkismál Íslendinga, og eru Íslendingar menn að minni ef þeir sætta sig við, að mál þessi gangi þeim aftur úr greipum.

Þá gerði háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) lítið úr því, að nefndin margumrædda mundi verða Íslendingum til baga, og sagði hann, að þá gæti hún engu síður orðið Dönum til baga. Hann heldur því og fram, að ekki þurfi að bera undir hana annað en stjórnarfrv., en það er engu síður hægt að bera undir hana þingmannafrv., og eðlilegast að ætla, að sá sje tilgangurinn. En þarna getur orðið eitt þrætuefnið um merkingu laganna.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) fanst koma fram hjá mjer hártogun með brtt. mínum við 18. og 19. gr. En jeg sýndi fram á með skýrum rökum, að ef samningurinn ætti að falla úr gildi, þá kynnu Danir ef til vildi að vilja grípa það hálmstrá, að þá hefðu þeir óskertan þann yfirráðarjett, sem þeir þykjast hafa haft yfir landinu. En þetta hálmstrá vildi jeg taka af þeim.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) var enn að bera mjer það á brýn, að það, sem jeg talaði, væri talað í þágu Dana, en þetta er hin mesta fjarstæða, því að þó að sýnt sje fram á galla frv., þá er ekki verið að halda fram málsstað mótpartsins. Jeg geri það í þágu Íslendinga að reyna til þess að fá háttv. þm. til þess að breyta frv. til batnaðar, og hjer sannast það fornkveðna, að »ekki veldur sá, er varar«.

Aðalorsök þess, að Íslendingar feldu frv. 1908, var ákvæði þess um fiskiveiðarjettinn. En þrátt fyrir það er enginn vafi á, eins og prófessor Lárus Bjarnason tekur fram, að ef stjórnin þá hefði verið svo hyggin að flyta atkvæðagreiðslunni um frv. og drífa hana í snatri, þá hefði það flogið í gegn. Jeg er eins sannfærður um, að ef þjóðinni væri gefinn nægur tími til þess að átta sig á þessu frv., mundi hún fella það.

Jeg geri því fyrir hönd þjóðarinnar kröfu til stjórnarinnar, að hún gefi þjóðinni nægan tíma til þess að athuga málið, því að nú í heyönnum og haustönnum hefir þjóðin engan tíma til þess að hugsa málið. En til þess eru vítin að varast þau.

Sá, sem nú fer með æðstu völdin hjer á landi, var einn af frumherjunum fyrir uppkastinu 1908, og nú ætlar hann ekki að brenna sig á sama soðinu, og styðja húskarlar hans hann til þess að hrapa að þessu stórmáli.

Eitt atriði vil jeg enn minnast á. Á 1. blaðsíðu í nefndarálitinu standa þessi orð:

»Báru milligöngumennirnir íslensku sig saman um hvatvetna, bæði við þingflokka, fullveldisnefndir þingsins og stjórn«.

Þetta er ekki rjett. Eitt skjal að minsta kosti var borið fram í nefndinni áður en háttv. þm. Dala. (B. J.) bæri sig saman við flokk sinn. Var þetta einmitt eitt af örlagaþyngstu skjölunum, sem fram voru borin, og trúi jeg ekki öðru en háttv. þm. Dala. (B. J.) iðrist þess stórlega, að hann bar það ekki undir flokksmenn sína áður.

Mönnum þykir ef til vill jeg vera búinn að tala fulllengi, og þyrfti jeg þó að tala lengur, til þess að þingmenn áttuðu sig fyllilega á málinu. Og þess þykist jeg fullvísa, að ef þeir fengju 2–3 mánaða umhugsunartíma, mundi jeg vera kominn í stóran meiri hluta.

Jeg sje ekki þann mann hjer í salnum, er jeg byggist við að mundi ekki sansast á rjett mál á þeim tíma, nema þá ef vera skyldi hæstv. forsætisráðherra.