02.09.1918
Efri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg tel þess eigi þörf að fara að deila við hv. og það liggur fyrir, því að jeg tel bæði nefndarálitið, ræður háttv. framsögumanna og hæstv. fjármálaráðherra nægilegt svar gegn andmælum háttv. þm. (B. Sv.).

Jeg ætla að eins að fara fáum orðum um eitt atriði, sem hæstv. fjármálaráðherra hefir þegar minst á.

Háttv. þm. (B. Sv.) heldur því fram, að það sje óhæfilegt að hraða svo meðferð, meðferð máls þessa hjer í þinginu, að veita þurfi afbrigði frá þingsköpum til að ljúka við það. Jeg fæ eigi skilið, hví háttv. þm. (B. Sv.) lítur þannig á málið. Það er vafalaust enginn efi hjá, nokkrum þm., öðrum en háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og háttv. þm. Ísaf. (M. T.), um það að samþykkja frv. þetta. Og ekki verður því borið við, að málið sje óathugað.

Háttv. þm. athuguðu frv., eins og það liggur nú fyrir, allrækilega á síðasta þingi, og þá lýstu þeir yfir því samróma, að undanteknum þessum 2 háttv. þm. (B. Sv. og M. T.), að þeir fjellust á frv., og síðan hafa þeir haft 6 vikna tíma til að skoða það og íhuga enn betur, og þess hefir ekki orðið vart, að neinn þeirra hafi breytt skoðun sinni á því á þessum tíma. Það getur því varla komið til mála, að það geti haft nokkra þýðingu, hvort málið er nú rætt nokkrum dögum lengur eða skemur, því að það var svo vel undirbúið og hlýtur að hafa verið svo gerhugsað af þingmönnum, er þeir komu á þing, að það getur varla haft nokkra þýðingu, hvort lengur eða skemur er setið yfir því nú. Mjer finst það vera sæmileg meðferð á málinu, að veittur sje til meðferðar pess nægilegur tími til að ganga vel frá nefndaraliti, og að það sje óþarft, sem þar er fram yfir, og að allar frekari umræður um málið en orðnar eru sjeu frekara fyrir áheyrendur og þingtíðindi en málinu til skýringar, enda að miklu leyti endurtekningar.

Háttv. þingmaður (B. Sv.) beindi nokkrum orðum til mín persónulega. Hann talaði um, að jeg mundi ekki allur þar, sem jeg væri sjeður. Því miður er þetta oflof um mig, því að last skoða jeg það ekki.

Háttv. þm. (B. Sv.) sagði eitthvað á þá leið, að ef sjer veittist nægur tími, myndi hann geta talað þingmenn svo sundur og saman, að þeir fjellu allir frá frv., allir nema jeg. Það tel jeg ekki heldur last, þótt háttv. þm. (B. Sv.) treysti mjer til að standa við skoðun mína öllum öðrum fremur; hitt er, að þar kennir aftur fremur oflofs.

Mjer skildist háttv. þm. (B. Sv.) finna mjer það helst til foráttu, að jeg hefði ekki fylgt fánamálinu eins fast fram og jeg hefði átt og getað, og að jeg hefði ekki verið nógu ægilegur í augum Dana til að hræða þá til að veita oss siglingafánann. Mjer datt það aldrei í hug, að jeg mundi vera maður til að skjóta Dönum skelk í bringu. Hitt var leitt, að háttv. þm. (B. Sv.) varð eigi fyrir því að flytja fánamálið, því að hver má vita, nema Danir hefðu heykst fyrir hans mikilúðuga svip og sterka róm.

Annars er það nátturlega ilt, að jeg er ekki svo gerður, en þau ámæli hv. þm. (B. Sv.) verð jeg að þola.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) var eitthvað að tala um, hvar nefna ætti Ísland í titli konungs, og hjelt hann því fram, að jeg myndi telja það fyrirkomulagsatriði. Það hefir mjer aldrei dottið í hug, og ef hann hefði kynt sjer það mál, myndi hann vita, að slíkt gengur eftir föstum reglum.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara frekar út í málið og tel ekki, að það vinni neitt við lengri ræður.