08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Stefán Stefánsson:

Það var alllangt liðið á þetta þing, þegar mjer barst brjef frá símstöðvarstjóranum á Siglufirði, þar sem hann kvartar yfir því, hve hart hann hafi orðið úti með launakjör sín sem símstöðvarstjóri nú í þessari dýrtíð. Og mælist hann til þess við mig í brjefi sínu, að jeg gangist fyrir því, að hlutur hans verði rjettur nú á þessu þingi. Fyrir því er þessi brtt. á þgskj. 720 komin fram.

Jeg hefi leitt þetta í tal við landssímastjórann, Forberg, og tók hann því góðfúslega og fjelst á að sanngjarnt væri, að þessi símstjóri fengi einhverja uppbót, og kvaðst skyldi mæla með því við fjárveitinganefnd. Skrifaði jeg því nefndinni skömmu síðar og fór fram á, að hann fengi 1500 kr. uppbót alls. eða sem svarar 300 kr. árlega síðastliðin 5 ár. Gaf jeg það í skyn um leið, að landssímastjóri mundi þessari till. meðmæltur. Frsm. nefndarinnar hefir síðan snúið sjer til landssímastjóra. og fer þá svo, að hann treystist ekki að mæla með nema 240 kr. á ári, sem verður samtals 1200 kr., og það er vissulega sú allra lægsta upphæð sem hægt er að fara fram á. — Þó að mjer kæmi á óvart þessar undirtektir landssímastjóra eftir umtali okkar, þótti mjer þó hyggilegra að lækka till. mína niður í 1200 kr., eins og landssímastjóra þóknaðist að binda meðmæli sín við. Jeg vænti þess því fastlega að ekki einungis frsm., heldur líka nefndin öll eða að minsta kosti meiri hluti hennar verði með þessari fjárveitingu. Annars verð jeg að benda á eitt atriði, sem mjer fanst sjerstaklega undarlegt í þessu máli. Það er álit fjárveitinganefndar á síðasta ári. Í nál. farast henni þannig orð:

,,Án þess að nefndin vilji segja neitt alment álit sitt um tillögur landssímastjóra um úthlutun á launaviðbótum, þá verður nefndin að líta svo á, að engin sanngirni sje í því að stöðvarnar í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum og Siglufirði sæti þeim kjörum sem þar er stungið upp á, og væntir þess, að stjórnin sjái um, að símafólkið á þessum stöðum sæti líkum launabótum og annarsstaðar að tiltölu eins og það væri beint í þjónustu landssímans“.

Nú atvikaðist það svo líklega fyrir einhverja vangá, að þessi símastöðvarstjóri hefir enga uppbót fengið fyrir síðastl. ár, sem þó er skýrt tekið fram í áliti nefndarinnar síðastliðið sumar. — Þessi maður hefir verið símastöðvarstjóri öll þau ár, sem sími hefir verið á Siglufirði, fyrir sáralítil laun. T. d. hafði hann núna dýrtíðarárin 1916 1200 kr., 1917 1200 kr. + 779 kr. dýrtíðaruppbót, 1918 1335 kr. Auk þessa er eitthvað lítið fyrir boðsendingar, sem hann verður sennilega að svara frá sjer að miklu leyti til sendisveina. Þegar þessa er gætt, finst mjer það hljóta að vera full sanngirni, að kröfum þessa manns sje vel tekið. Þetta er þar að auki bláfátækur maður með 8 skylduómaga. Þó hefir hann lyft því Grettistaki að reisa stórt steinhús sem bæði er símastöð og pósthús bæjarins. Með því hefir hann, næstum fjelaus fjölskyldumaður, leyst þann vanda, að báðar þessar stofnanir þyrftu að basla við algerlega ónógt og ósæmilegt húspláss.

Jeg skal, svo ekki fjölyrða meira um þetta. Að eins vænti jeg þess, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja jafnsanngjarna og sjálfsagða uppbótarkröfu og hjer um ræðir. Það var ekki með fúsum vilja að jeg lækkaði þessa upphæð, jafnhófleg og hún var. En sem sagt sá jeg mjer þann kostinn vænstan af því að jeg þóttist með því fá fulla tryggingu fyrir því, að till. næði fram að ganga.