26.08.1919
Neðri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

26. mál, laun embættismanna

Sigurður Stefánsson:

Jeg skal ekki tefja með langri ræðu. Jeg vildi sjerstaklega segja nokkur orð um dýrtíðaruppbót prestanna. Um hana hafa nú komið fram þrjár till. Fyrst er till. hæstv. stjórnar, þá till. háttv. nefndar og í 3. lagi till. háttv. þm. Stranda. (M. P.).

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hefir nú viðurkent það, að sú dýrtíðaruppbót, sem þeim er ætluð í stjórnarfrv., sje alt of lítil, og tjáir hann sig fylgjandi hækkun á henni, og er það vel farið, því að einar 500 kr. er svo lítið, að ótrúlegt má heita, að slíkt skyldi vera sett í frv., þegar miðað er við uppbót annara embættismanna.

Jeg fyrir mitt leyti mun verða fylgjandi till. háttv. nefndar í þessu atriði. Mjer er sem sje ekki ljóst, á hverju menn byggja þann mikla mun, sem þeir vilja gera á sveitaprestum og öðrum embættismönnum landsins. Það hefir lengi verið klifað á þeim hlunnindum, sem þeir hefðu af sveitabúskapnum.

En þau hlunnindi fara nú síminkandi, og ekki að eins það, að svo sje heldur eru bújarðir prestanna, sem hingað til hafa verið mestu hlunnindi þeirra, nú orðnar hreinasti byrðarauki mörgum þeirra.

Dæmin um það eru deginum ljósari, og gæti jeg tilfært dæmi um það, að prestar eru nú farnir að ganga frá bújörðum, sökum þess, að þeim, sökum verkafólksskorts og verkakauphækkunar, er ómögulegt að notfæra sjer jarðirnar.

Þetta sýnir, að þessi búskaparhlunnindi prestanna eru meiri í orði en á borði.

Það eru að vísu til prestar, sem gætu lifað með þessa uppbót, og þeir gætu alveg eins lifað með enga.

En það eru að eins fáir, sem búið hafa í mörg ár og verið orðnir efnaðir fyrir ófriðinn. En þeim fer óðum fækkandi.

Það nær því engri átt að minka uppbótina til allra fyrir þessa fáu menn. Þannig horfir þessu nú við, og jeg vil segja, að enginn þurfi fremur við dýrtíðaruppbótarinnar en einmitt prestastjettin. Þarf ekki annað en líta til þeirra, sem nú vígjast til prests ár frá ári og verða að taka að sjer stórjarðir um leið og þeir setjast í embættin. Það má svo heita, að þeim sje með öllu ókleift að reisa bú á jörðum þessum, eins og nú lætur í ári.

Byrjunarlaun þeirra hrökkva tæplega til að gjalda einum duglegum vinnumanni, auk heldur að þeir hafi nokkurn eyri til að setja saman bú með.

En þegar nú svo er um flesta unga presta, þá liggur í augum uppi órjettur sá, sem þeim er ger með helmingi minni dýrtíðaruppbót en aðrir embættismenn.

Bújarðirnar, sem hingað til hafa haldið lífinu í prestunum, eru orðnar þeim byrðarauki; svo hafa tímarnir breyst.

En þó að til sjeu gamlir og grónir gróðamenn í þessari stöðu — jeg skammast mín ekki fyrir að viðhafa þau orð um stjettarbræður mína — þá get jeg ekki sjeð, að löggjafarvaldið þurfi að setja þessa ófrávíkjanlegu reglu og miða hana að eins við þá fáu menn.

Annars lít jeg svo á alt þetta mál, að jeg tel þess fulla nauðsyn að bæta úr skák. Og jeg hefi sagt það fyr og segi það enn, að jeg áfelli ekki stjórnina fyrir það, að flytja þetta mál á þingi nú.

Jeg þykist viss um það, að þeir fáu þm., sem ofbýður sú fjárfúlga, sem til starfsmanna landsins fer eftir frv. þessu, þeir gleymi að líta á nema aðra hlið málsins.

Þeir gleyma verðfallinu, að krónan er ekki meira virði nú en 25–30 aurar áður.

En þessi ástæða er svo knýjandi, að fyr hefði átt að bæta úr. Það er í alla staði óviðkunnanlegt, að ríkið sje versti vinnuveitandinn í landinu. En nú hefir kaup verkafólks jafnvel sexfaldast. Það verður því alls ekki sagt, að launin sjeu ákveðin of há í stjórnarfrv., heldur miklu fremur alt of lág, þegar miðað er við aðra kauphækkun.

Embættismennirnir verða jafnvel eftir sem áður ver úti en óbrotnir verkamenn.

Jeg lái þeim það að vísu ekki, sem vex í augum sú upphæð, sem eftir þessu frv. gengur til að launa starfsmönnum ríkisins, en hitt lái jeg þeim, að þeir í röksemdum sínum taka ekki fram nema aðra hlið málsins, þótt það kunni að láta vel í eyrum óþroskaðra kjósenda.

Það var alveg rjett tekið fram hjá síðasta ræðumanni (Þorst. J.), að það eru fleiri embættismenn en prestarnir, sem stunda sveitabúskap. Það eru sjálfsagt einir 9 eða 10 læknar. Það væri því ástæða til að athuga, hvort ekki mætti draga af þeim dýrtíðaruppbót.

Auk þess hafa sýslumennirnir í Árnessýslu og Rangárvallasýslu búið hingað til stórbúi. Að vísu mun núverandi sýslumaður Árnesinga eiga hvergi heima, en hugsast getur, að hann verði þar stórbóndi með tímanum, eins og sá heiðursmaður, sem þar ljet síðast af embætti.

Til þessa mætti líka taka tillit af þeim, sem hafa vilja þennan mismun á embættismönnum.

Skal jeg svo ekki þreyta menn á lengra máli, en vil að eins geta þess að síðustu, að brtt. háttv. nefndar líka mjer flestar vel, en brtt. annara háttv. þm. margra mun jeg verða mótfallinn.