30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

26. mál, laun embættismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg gleymdi einu atriði í sambandi við ræðu háttv. frsm. (Þór. J.). Það er um símstöðina á Seyðisfirði. Jeg tek það ekki aftur, sem jeg sagði við 2. umr. málsins; það var samningur við hið stóra norræna, að landssjóður skyldi borga helminginn af launum stöðvarstóra. Að öðru leyti skyldi hið stóra norræna annast stöðina. En svo reyndist meira að gera á stöðinni en gert hafði verið ráð fyrir, svo að stöðvarstjórinn komst ekki yfir það, sem gera þurfti. Nú hefi jeg heyrt, að landssímastjóri hafi fengið að setja mann honum til aðstoðar. En jeg segi, að þetta hefði aldrei átt að vera. Stóra norræna átti að kosta aðstoðina. Jeg spurði landssímastjóra, hvort þetta stæði ekki eins og það hefði verið. Hann kvað það vera; þetta leiddi af samningunum. Jeg hefi ekki athugað orðalag samninganna. En jeg verð að álíta, að það hefði átt að halda Stóra norræna til að annast þessi störf. Jeg skil ekki, að við eigum að borga fulltrúa stöðvarstjórans á Seyðisfirði, þegar hann er fulltrúi Stóra norræna. Annars heyrir þetta ekki undir minn verkahring.