30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

26. mál, laun embættismanna

Pjetur Ottesen:

Umræðurnar eru þegar orðnar æðilangar, en það er mín afsökun, að þetta er í fyrsta sinni, að jeg tek til máls við umr. þessa máls.

Það var aðallega eitt atriði, sem jeg vildi minnast á: samanburðurinn á kaupgjaldi verkamanna og launum embættismanna, eins og þau eru áætluð í frv. Það hafa þegar margir háttv. þm. gert þennan samanburð, og þótt hlutskifti embættismanna miður gott og að launahækkun þeirra sje ekki nærri eins mikil og kaupgjaldshækkun verkamanna. Menn hafa minst á kaup togaraháseta, daglaunamanna í kaupstöðum, og það hefir jafnvel verið sagt, að kaup vinnumanna í sveitum sje orðið hærra en byrjunarlaun presta. Jeg ætla, að það væri háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), sem sagði það. Sem vænta mátti, rann honum blóðið til skyldunnar, þeim góða manni.

Jeg ætla nú að reyna að sýna fram á, að þessi samanburður er ekki alls kostar rjettur. Eftir því, sem jeg hefi komist næst, hefir kaupgjald verkamanna rúmlega þrefaldast frá því, sem það var fyrir stríðið. Þetta mun láta nærri. Sje jeg t. d., að á áætluninni til vega- og brúargerða munar því, sem kaupgjaldið væri þrefaldað. Til samanburðar vil jeg benda á 1. lið 12. gr. launafrv., um laun læknanna. Þessi grein hefir tekið miklum breytingum frá því, sem stjórnin ætlaðist til. Meining stjórnarinnar var að aukatekjurnar væru mjög verulegur þáttur í launum lækna, og miðaði hún föstu launin við það, að læknataxtinn yrði hækkaður allmikið. Um þessa stefnu var mikið deilt á aukaþinginu í fyrra, og varð niðurstaðan sú, að föstu launin voru hækkuð nokkuð, en taxtarnir voru látnir halda sjer, og auk þess var ákveðin dýrtíðaruppbót af aukatekjunum, sem aldrei skyldi verið hafa, því sú ráðstöfun var fáránlega vitlaus og var mest vatn á myllu einstakra manna.

Jeg játa það, að jeg er yfirleitt samþykkur þeirri stefnu, að hækka föstu launin, en láta taxtana halda sjer.

Læknishjeruðunum er skift í 3 flokka, þannig, að í fólksflestu hjeruðunum eru föstu launin ákveðin lægst, en hæst í þeim fólksfæstu. Er þessi regla í sjálfu sjer alveg rjett. Hámark launanna er ákveðið svo: í lægsta flokki 3500 kr., í miðflokki 4000 kr. og í hæsta flokki 4500 kr. Með dýrtíðaruppbótinni, sem mun láta nærri að vera nú 90% á alla launahæðina, verða þau þá: í lægsta flokki 6650 kr., í miðflokki 7600 kr. og í hæsta flokki 8500 kr. Hækkunin á þessum lið, launum lækna, hefir því að meðaltali nærri fimmfaldast frá því, sem var fyrir stríðið. En eins og jeg hefi tekið fram, hafa laun óbreyttra verkamanna lítið meira en þrefaldast. En svo bætast við aukatekjur læknanna, og eru þær eigi taldar með hjer í þessum samanburði, heldur alveg slept í báðum tilfellunum. Það nær því engum sanni, er menn halda því fram, að hjer sje eigi um tiltölulega meiri hækkun að ræða en þá hækkun, sem orðið hefir á kaupgjaldi verkamanna. Hækkun á launum embættismanna í þessu frv. skarar þar langt fram úr. Að vísu mun hækkunin í þessum lið vera mest tiltölulega, en það munar þó minstu og á flestum hinum liðunum, þótt nokkuð mismunandi sje.

Jeg skal ekki spá neinu um það, hvaða ráð gefast til þess að sjá fjárhag landsins borgið, ef svo stórt stökk er tekið nú í launahækkuninni, en jeg get gefið hjer nokkrar tölur til skýringar.

Föstu launin eru áætluð 1.145.000 kr. á ári, dýrtíðaruppbótin af þeim 1.068.000 kr., eða öll launin samtals 2.213.000 kr. Tekjuáætlun næsta fjárhagstímabils er áætluð sem næst 7.803.600 kr., eða á ári 3.901.800 kr., og reikni maður tekjuaukann, sem áætlaður er af tekjuaukafrv., sem samþykt hafa verið á þessu þingi, 1.300.000 á fjárhagstímabilinu, því á ári 650.000 kr., verða allar tekjurnar til samans 4.551.800 kr. á ári. Þegar laun embættismanna eru dregin frá, verðá eftir af tekjunum til allra annara útgjalda 2.338.800 kr. En hjer eru ekki öll kurl komin til grafar. Laun annara starfsmanna landsins en þeirra, sem standa í stjórnarfrv., sem eru margir, nema hjer um bil 175.000 kr., og þótt ekki sje nú gert ráð fyrir því, að þessir menn fái hærri dýrtíðaruppbót en eftir dýrtíðaruppbótarlögunum frá 1917. þá nemur dýrtíðaruppbótin 105.000 kr., og verður það samtals 280.000 kr. Eftir verður þá af tekjum landssjóðs 2.058.800 kr. Annars vildi jeg beina þeirri spurningu til hæstv. stjórnar — þar er að vísu enginn við fremur en vant er, — hvað hún ætli sjer með þá menn, sem ekki standa í þessu launafrv., hvort þeir eiga að halda dýrtíðaruppbót eftir dýrtíðaruppbótarlögunum, eða hvað. Meðal þeirra er t. d. allir eftirlaunaskarinn, póst- og símamenn utan Reykjavíkur og margir fleiri. Jeg spyr að þessu af því, að ekkert hefir verið á þessa menn minst og ekkert heldur heyrst um það, hvort nema eigi úr gildi dýrtíðaruppbótarlögin eða ekki. Líklega er þó ekki meiningin, að þeir, sem teknir hafa verið upp í stjórnarfrv., eigi líka að hafa dýrtíðaruppbót eftir þessum lögum í ofanálag á alt hitt. Yfirleitt virðist mjer gengið furðulangt í frv., og þykist jeg hafa sýnt fram á, svo að eigi verði á móti mælt, að kauphækkun verkamanna kemst ekki í nokkurn samjöfnuð við þessa launahækkun.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að Sláturfjelag Suðurlands hefði hækkað laun starfsmanna sinna um 100% (E. A.: Já, 6000 kr., um 100%). Það eru víst ekki margir á þeim launum en jeg vil spyrja hv. þm. (E. A.), hvort hann þekki nokkra stofnun sem borgi starfsmönnum sínum meira en helminginn af öllum tekjum sínum.

Jeg vil taka undir með því, sem háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði, að sjálfsagt væri að embættismennirnir yrðu á sinn hátt eigi ver úti en aðrir íbúar landsins, en þeir yrðu líka að bera byrðarnar að sínum hluta. En eftir þessu frv. verða þeir hafðir í einskonar hærra veldi.

Það blæs ekki byrlega fyrir þeim, sem vilja draga úr launaviðbótinni eða hamla á móti þeirri frekju, liggur mjer við að segja, sem mál þetta er sótt með. Stjórnarfrv. hefir nú verið hækkað um 200 þús. kr., og er helst útlit fyrir, að allar miðlungstilraunir verði strádrepnar.

Jeg man, að við aðra umr. kallaði háttv. þm. Stranda. (M. P.) brtt. við 33. gr., um að draga úr dýrtíðaruppbótinni. sprengidufl, og ljet í ljós, að óvarlegt væri að samþykkja hana, og að embættismenn mundu kann ske grípa til örþrifaráða, ef kröfur þeirra yrðu ekki uppfyltar út í ystu æsar. Kalla jeg það örþrifaúrræði, ef þeir ætluðu að leggja niður embætti sín, eða fara af landi burt. Jeg geri nú annars ráð fyrir því, að embættismenn yfirleitt sjeu þjóðræknari menn en svo, að þeir sætti sig ekki við sanngjarnar launabætur, og að þær sjeu það má með fylsta rjetti segja, þó eigi sje jafnlangt gengið, sem hjer er lagt til. Jeg held því, að hv. þm. Stranda. (M. P.) geri embættismönnum rangt til með því að vera að flíka þessu hjer, sem auðvitað á að vera nokkurskonar hótun.

Því hefir verið haldið fram að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hafi sagt, að þetta launahækkunarfrv. mundi valda útflutningi úr landinu. Jeg hefi aldrei heyrt hann halda því fram, en aftur á móti hefi jeg heyrt háttv. þm. Stranda. (M. P.) segja, að það væri lítil eftirsjón í þeim mönnum, sem flyttu burt úr landinu undan þeim álögum, sem af slíku frv. sem þessu leiddi. Jeg vil nú snúa þeirri setningu við og segja, að þeir embættismenn, sem ekki vilja sætta sig við sanngjörn laun, og hafa í hótunum með að flytja af landi burt, ef ekki verði sagt já og amen við fylstu kröfum þeirra, að það sje þá engin eftirsjón í þeim, og að þeir ættu að fá „reisupassa“ hve nær sem er. (E. A.: Það yrðu sennilega ekki þeir óhæfustu, sem færu).

Þó tillaga sú, sem við háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. O.) flytjum ásamt fleirum, verði samþykt, eru launakjörin svo rífleg og sómasamleg, að allir sanngjarnir menn munu vel við una.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Mál þetta er orðið þrautrætt. Jeg geri sem sagt ráð fyrir, eftir því sem fram hefir komið í umræðunum, að brtt. okkar fái daufar undirtektir. En jeg er svo óánægður með frv. eins og það er, að jeg greiði óhikað atkvæði á móti því, ef allar brtt. verða feldar. Kýs jeg þá heldur, að lappað verði upp á dýrtíðaruppbótarlögin gömlu.