08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Gísli Sveinsson:

Jeg skal leyfa mjer að segja fáein orð þar eð jeg á brtt. á þgskj. 684, sem jeg ber fram ásamt tveimur öðrum hv. þm.

Eins og hv. deildarmenn muna, var það samþykt við 2. umr. að veita fje til að styrkja ferðir um Faxaflóa. og var þessi styrkur bundinn við ákveðið nafn. Annað tilboð lá fyrir hv. deild, sem hún vildi þó ekki ganga að. Þess ber þá að gæta, að í fyrsta lagi hafa komið til samgöngumálanefndar og Alþingis tvö tilboð, og ekki er loku skotið fyrir, að þau geti orðið fleiri í haust. Það sem brtt. fer fram á, er að styrkurinn verði ekki bundinn við nafn heldur velji stjórnin það tilboð, sem best er, og verði hún látin um það. Það er kunnugt, að fjelagið, sem nú hefir styrkinn, hefir miklu verri farkost heldur en Eimskipafjelag Suðurlands hefir á boðstólum. Þetta er svo víst, að það er ekki sagt til hnjóðs þessu fjelagi. Í frv. stjórnarinnar er farin sú leið, sem rjett er og heppileg, að veita styrkinn án þess að binda hann við einstaka menn, og það sjá allir, að betra er að hafa þetta svo nú, þar sem fleiri en eitt fjelag hefir boðist til að taka að sjer ferðirnar. Um leið og till. fer fram á, að þessu verði kipt í lag um leið fer hún og fram á, að upphæðin verði nokkuð önnur en frv. nú gerir ráð fyrir, eða sem sje sú, sem h. f. Eimskipafjelag Suðurlands bauðst til að takast ferðirnar á hendur fyrir. Með þessu er hámarkinu slegið föstu, en eins og gefur að skilja, er stjórninni ekki skylt að halda sjer við það, heldur taka lægri boðum, ef hentug þykja. Jeg vil nú vænta þess, að þótt hv. deildarmenn hafi við 2. umr. viljað binda styrkinn við nafn, þá leyfi þeir að veita þennan styrk nú og láti stjórnina um að velja tilboðin.

Aðra brtt. á jeg, á þgskj. 638, og fer hún fram á að hækka styrkinn til hr. Páls Þorkelssonar Það voru færð rök fyrir því við 2. umr. að 400 kr. væri svo lítið, að ekki gæti komið til mála, að það væri styrkur fyrir vinnu. Hitt getur verið rjett, að ef þessi styrkur er veittur sem eftirlaun þá gæti þetta náð nokkurri átt. 400 kr. nú eru ekki meira en rúmar 100 kr. fyrir stríð og enginn gat unnið mikið fyrir þá upphæð á þeim tímum. Styrkurinn nú mætti því ekki vera minni en sem samsvaraði 200 kr. fyrir stríð, og vænti jeg, að þm. sjái sanngirnina í þessu og ljái þessari till. atkvæði sitt.