22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

26. mál, laun embættismanna

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg vil að eins skýra frá því, að nefndinni þótti ekki ráðlegt að koma með neinar brtt. við frv. úr þessu, og leggur nefndin til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Nd.

Nd. hefir ekki gert margar eða miklar breytingar á frv. 7. gr. var feld burtu, enda var hún orðin óþörf, þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum samsteypuembættum í lögunum. — Þá hefir verið bætt inn í frv. grein, sem nú er 9. gr., um skrifstofustjóra Alþingis. Nefndin er sömu skoðunar um þetta embætti og hún áður var, en telur það hins vegar ekki þess vert, að gera frekari ágreining um þetta efni. — Sú breyting hefir verið gerð á launum lækna, að Hornafjarðarlæknirinn hefir verið fluttur upp í hæsta launaflokk, og nýjum lækni bætt við handa Bolvíkingum. — Á 33. gr. hafa verið gerðar smávægilegar breytingar. Ákvæðið um að lög þessi skuli fyrst um sinn gilda til 1925 hefir verið sett inn aftur. Nefndin telur í sjálfu sjer litlu máli skifta, hvort þetta ákvæði stendur í lögunum eða ekki. Það var fyrir orð sambandsstjórnar embættismannafjelaganna, að nefndin mælti með því fyrir nokkru, að ákvæði þetta væri tekið út úr lögunum, en nú lætur hún það kyrt liggja. — Hámarkslaun hæstarjettardómara hafa verið færð upp í 10500 kr. Nefndinni hefir komið saman um að láta við svo búið standa, þó hún telji ekki rjettlátt að taka þá eina út úr. Það munu vera að eins um 20 menn, sem 9500 kr. takmarkið nær til, svo engin frágangssök hefði verið að hækka þá alla, fyrst einn flokkur var hækkaður. — En út af þessum breytingum hefir hvorki nefndin nje einstakir þingmenn komið með neina brtt., og eru það því tilmæli mín, fyrir hönd nefndarinnar, að frv. verði samþ. óbreytt.