22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

23. mál, stofnun lífeyrissjóðs fyrir embættismenn

Kristinn Daníelsson:

Jeg á eina brtt., á þgskj. 804, sem jeg vildi leyfa mjer að fara nokkrum orðum um. Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) mintist nokkuð á þetta við fyrstu umræðu málsins, og jeg leyfi mjer að gera nokkrar aths. við ummæli hans.

Það, sem jeg fer hjer fram á er að embættismönnum verði endurgreidd öll iðgjöld saman lögð með sparisjóðsvöxtum, ef embætti þeirra er lagt niður og þeir flytjast eigi jafnframt í annað embætti. En í frv. er ákveðið, að í slíkum tilfellum skuli iðgjöldin greidd aftur vaxtalaust, en í því er bersýnilegt misrjetti að menn fái ekki sæmilega vexti af fje sínu, en ríkið hirði ágóðann af því, að það hefir skipað mönnunum að tryggja sig. En þar sem sagt hefir verið, að sjóðurinn myndi tapa á þessu, þá held jeg, að það hafi við engin rök að styðjast. Þetta mun vera svo sjaldgæft, að þess gætir ekki fyrir sjóðinn, sem sjálfsagt græðir á mörgum tryggingum, en hins vegar getur hinn líftrygða munað þetta miklu. Það virðist ekki heldur ástæða til, að þessi tryggingarsjóður sje ósanngjarnari í þessum efnum en önnur líftryggingarfjelög. Skal jeg svo ekki tefja umræðurnar með lengri ræðu, en vona, að brtt. mín verði samþykt.