18.07.1919
Efri deild: 10. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg vil benda hv. þm. Ak. (M. K.) á, að hjer er að eins um hámark sekta að ræða, en ekki hæð þeirra yfirleitt. Dómarar fara yfirleitt ekki upp í hæsta mark, nema mjög brýnar sakir sjeu fyrir hendi. Jeg skal t. d. geta þess, að í þá 15 mánuði, sem jeg hefi verið dómari hjer í Reykjavík, hefi jeg að eins einu sinni farið upp í hámark sektanna. Af þessu má marka það, að ekki er hætt við, að hæstu sekt verði oft beitt, og þá að eins þegar brotið er mjög þungt, svo að í flestum tilfellum hefir þetta ákvæði ekki mikið að segja.