23.09.1919
Sameinað þing: 2. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Einar Arnórsson:

Jeg get byrjað ræðu mína á því, sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) endaði á, þar sem hann viðhafði hótun um dráp, ef háttv. Ed. hefði ekki sitt mál fram. Mjer stendur á sama, hversu miklir vígamenn hv. efri deildar þingmenn eru; það hefir engin áhrif á mig eða mína skoðun, síst meðan það er ekki annað en hótunin ein. Svo að þeir mega vega að þessu frv. mín vegna.

Það, sem háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði um afplánun sekta í öðrum málum, þá er það rjett. En það snertir ekki þetta frv. neitt sjerstaklega. Það snertir öll refsimál, þar sem refsing er dæmd eftir öðrum lögum en almennum hegningarlögum. Háar sektir hafa víðar verið settar, en reglunum um afplánun þeirra hefir ekki verið breytt. Það þarf að breyta tilsk. 25. júní 1869. Þó ekki sjerstaklega vegna þessa frv., hvað sem hámarkið verður, heldur vegna allrar okkar nýju löggjafar. Hæstv. stjórn ætti að leggja fyrir næsta þing breytingar á tilskipuninni frá 25. júní 1869.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. (M. T.) sagði um smælingjana, þá sje jeg ekki, að það komi sjerstaklega niður á þeim að afplána þessar sektir. Jeg get ekki skilið, að það sjeu eingöngu smælingjarnir, sem brjóta lögreglusamþyktir kaupstaðanna. Reynslan sýnir, að það eru engu síður ríku mennirnir. Og þeir eru sannarlega ekki of góðir til að borga fyrir afbrot sín. Háttv. þm. (M. T. ) sagði, að 500 kr. væri mikil hækkun. En það er það ekki í rauninni. Það er mikið fremur lítil hækkun. Háttv. þm. voru sammála um það hjer í Nd. fyrir skömmu, að fimmföldun á 10 kr. hundaskatti væri mjög lík upphæð nú og 10 kr. voru fyrir 5 árum. 500 kr. væri þá líkt og 100 kr. áður, og 1000 kr. yrði þá tvöföldun. Svo að í rauninni, ef tekið er tillit til þeirrar breytingar, sem orðin er á kaupmagni peninga, þá er 1000 kr. hámark að eins tvöföld hækkun. Jeg vil því mæla með því, að frv. verði samþ. eins og það var borið fram af hæstv. stjórn og samþykt í neðri deild. Enn fremur vil jeg endurtaka það, að jeg tel æskilegt, að stjórnin endurskoði tilskipunina frá 25. júní 1869.