23.09.1919
Sameinað þing: 2. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Magnús Torfason:

Það hefir í þessu sambandi verið minst hjer á mjög háar sektir. En jeg vil endurtaka það, sem jeg sagði áðan, að það kemur ekki þessu máli við. Slíkar sektir eru að eins fyrir fjárglæfraglæpi, en ekki fyrir að blístra á götum úti, eða gera annan smáóskunda, sem brýtur í bág við lögreglusamþyktir. Þar er að eins um lítilvægar yfirsjónir að ræða. Og sá, sem oft yrði sektaður alt að 500 kr., sem er álitleg upphæð fyrir fjölmarga, hann mundi sjálfsagt láta sjer það að kenningu verða.

Vitanlega kæmi ekki til þess, að hámarkið, 500 kr., væri notað fyr en brotin hafa verið drýgð hvað eftir annað.

En það, sem vakir fyrir okkur, er við viljum hafa hámarkið sett lægra, er það, að við viljum ekki láta þetta ganga út yfir smælingjana, að ástæðulausu. Við þekkjum það sjálfir, og vitum þess dæmi, að auðnuleysingjar verða sekir við lögin hvað eftir annað. Er þá ekki öðru til að dreifa, ef fara á með þá samkvæmt lögum, en að dæma þá í talsverð peningaútlát, ef ákvæðin verða látin óbreytt, eins og þau eru frá hv. Nd.