13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Þegar jeg gat áðan um menn, sem hefðu þekkingu á skipaskrásetningarmálum hjer, láðist mjer að geta eins, sem sje þm Vestm. (K. E.). Hann hafði starf þetta með höndum í stjórnarráðinu, þegar hann var starfsmaður þar. Og hann álítur enga nauðsyn til bera að setja sjerstaka skrásetningarskrifstofu á stofn. Hann fullyrðir, að hægt sje að bæta úr annmörkunum, þó að þessi mál sjeu framvegis höfð í stjórnarráðinu. En hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) þekkir líklega sitt heimafólk, og hann virðist ekki treysta neinum sinna manna til þess að hafa yfirendurskoðun á skrásetningu á hendi. En jeg hygg, að þetta sje of mikið vantraust. Og svo er þess að gæta, að Páll Halldórsson skólastjóri er við höndina, til aðstoðar, og sennilega getur hann sjeð af einhverjum tíma til þess að sinna þessu máli, auk þeirrar aðstoðar, sem Þorkell Þorkelsson mundi geta veitt á ferðum sínum, til að kippa þessu máli í betra horf.

Það tjáir ekki að vitna í það að sjerstakar skrifstofur annist starf þetta hjá öðrum þjóðum. Hjer er alt öðru máli að gegna, þar sem skipafloti okkar er ekki nema örlítið brot móts við flota annara þjóða. Og að lokum virðist mjer, að það sitji ekki á hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) að setja ofan í við menn fyrir það, að þeir vilja spara ofurlítið, því sjálfur hefir hann, eins og kunnugt er, prjedikað sparnað hjer í deildinni.