29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er afarlítið, sem jeg þarf að segja frekar um þetta mál. Öll hin langa ræða háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði ekkert fram yfir það, sem stóð í nefndarálitinu frá hv. meiri hluta, og það, sem hv. frsm. meiri hluta (B. Sv.) bætti við það. Jeg ætla því ekki að svara neinu í ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.), öðru en því, að hann sagði, að jeg hefði lofað því á þinginu í fyrra að láta alstaðar setja búsetuskilyrði inn í þau lög, sem það á við. Þetta er mjer óhætt að fullyrða að háttv. þm. (B. J.) getur ekki staðið við, og jeg hefði gaman af, að hann tilfærði þau orð, sem hann byggir þetta á.

Hv. þm. Dala. (B. J.) talaði um, að það stappaði nærri að vera ofurkapp, sem hv. minni hluti legði á þetta atriði, en ef það er borið fram af ofurkappi af minni hlutanum, hvaða orð ætti þá að hafa um aðgang háttv. þm. Dala (B. J.)?

Þá skal jeg lauslega minnast á það, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, og þá sjerstaklega það, sem hann sagði um fjárlögin, að þau ætti aldrei að þurfa að leggja fyrir konung. Hvers vegna þessa gerðist ekki þörf, þykist jeg sjá af brtt. háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og fleiri háttv. þm., um að færa til þingtímann. Mjer þótti ekki ástæða til að koma með brtt. við stjórnarskrána þessu viðvíkjandi, af því að þessu má altaf breyta með einföldum lögum. En þó nú þingið kæmi saman í febrúar þá ætti að vera hægt að hafa lokið við fjárlögin svo snemma, að hægt vari að bera þau undir konung. Fjárlagaárið gæti þá heldur ekki byrjað 1. janúar, heldur yrði það að byrja t. d. 1. júlí. Mjer þótti vænt um það, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði um afl atkvæða, því jeg er honum algerlega samdóma um það, og hefi ekki getað sannfærst af skýrslu háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.). Það, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði um þetta mál, að ef ráðherrarnir væru tveir, þá gæti afl atkvæða ekki ráðið ef þeir væru ósammála, er að vísu alveg satt, en þetta ætti alveg eins að geta komið fyrir þó þeir væru fjórir.

Þá talaði háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) um 15. gr. í stjórnarskránni og þótti einkennilegt orðalagið: „Hver ráðherra, sem undirritar, ber ábyrgð á ákvæðinu.“ Þetta ákvæði er svo orðað í stjórnarskrám margra ríkja, og svo að við tökum það, sem okkur er næst, þá er það svona orðað t. d. í hinum nýju grundvallarlögum Dana. Ástæðan er sú, að ef fleiri en einn ráðherra undirrita eitthvað með konungi, þá skuli þeir allir og hver um sig hafa sömu ábyrgð og sá ráðherrann, sem málið heyrir undir. Okkar stjórnarskrá er mjög sniðin eftir grundvallarlögum Dana, og hefir verið það frá fyrstu. Þetta ákvæði hjer er sniðið eftir samskonar ákvæði þar.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) og hv. þm V.- Sk. (G. Sv.) hafa báðir tekið fram það, sem jeg sagði í fyrstu, að það væri að eins meiningarmunur á hv. meiri og minni hluta. Og jeg býst ekki við, að hægt verði að gera þennan meiningarmun svo mikinn, að hv. meiri hl. takist að gera mikinn hvell út af honum.

Jeg man ekki, hvað háttv. frsm. minni hl. (P. J.) sagði um búsetuskilyrðið, en jeg þykist vita, að hann hafi aldrei haldið því fram, að það væri lögleysa að setja fimm ára búsetuskilyrðið inn í stjórnarskrána, en ekki tveggja ára. Og jeg byggi þessa skoðun mína aðallega á því, að það kemur fram í nefndaráliti hv. minni hluta, að það sje fullkomlega lagalega rjett að setja slík ákvæði sem þessi inn í stjórnarskrána. Þess vegna er engin ástæða fyrir hv. 2. þm. Árn. (E. A.) að taka dæmið um stuldinn á tveimur eða fimm sauðum. (E. A.: Ræða hv. frsm. minni hl. (P. J.) gaf fullkomið tilefni til þessa dæmis. (P. J.: Þetta er helber misskilningur hjá háttv. 2. þm. Árn.).

Hv. frsm. meiri hluta (B. Sv.) las upp ummæli mín frá því í fyrra um starf ráðgjafarnefndarinnar. Jeg get fullkomlega staðið við þau ummæli, enda hefi jeg á engan hátt breytt skoðun á starfi nefndarinnar frá því í fyrra.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talaði nokkuð um hlutfallskosningarnar. Þessi brtt. nefndarinnar við stjórnarskrána kemur af því, að hún hefir búist við, að fjölgað yrði þingmönnum hjer í Reykjavík. En það má vel segja, að það sje ekki ástæða til að hafa hlutfallskosningar fremur hjer heldur en annarsstaðar á landinu. Jeg sje ekki ástæðu til þessa út af fyrir sig, þótt fjölmennið sje meira hjer heldur en annarsstaðar. Það mætti skifta bænum í hverfi. Það er gert alstaðar annarsstaðar, og það í miklu fjölmennari bæjum heldur en Reykjavík. Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) var að tala um, að fimm ára búsetan væri nýmæli. Þetta ákvæði er áður komið inn í lög vor, og jeg man ekki til, að það væri sett þar af neinni hræðslu við innflutning Dana eða annara þjóða. Jeg sje heldur enga hættu nú, og er minni hlutinn hræddari við slíka hættu heldur en nokkurn tíma jeg. Það, sem bæði háttv. frsm. meiri hluta (B. Sv.) og háttv. þm. Dala (B. J.) hafa gert lítið úr, er, að langt búsetuskilyrði kemur töluvert hart niður á sumum Íslendingum. Þetta játaði háttv. frsm meiri hlutans (B. Sv.) samt hreinskilningslega. en háttv. þm. Dala. (B. J.) gat ekki viðurkent, að þetta gæti á nokkurn hátt snert t. d. Vestur-Íslendinga óþægilega. Það getur verið að sem stendur snerti það þá ekki, en ef Íslendingar, sem fullvalda ríki, færu að semja við aðra þjóð, t. d. Kanada, um, hversu skjótt þeir Íslendingar skyldu fá ríkisborgararjett hjer á landi, sem væru orðnir ríkisborgarar í Kanada, þá þætti mjer undarlegt, ef þetta ákvæði yrði ekki þröskuldur á veginum og stæði fyrir því, að þeir gætu fengið nokkra ívilnun.

Hvað snertir ummæli mín um búsetuna, þá hefði háttv. frsm. meiri hlutans (B. Sv.) átt að geta fundið fullskýr ummæli mín frá þinginu í fyrra um, að jeg teldi fullkomna heimild til að setja búsetuskilyrði fyrir atvinnurekstri hjer á landi. Danir hafa sett búsetuskilyrði fyrir atvinnurekstri, og við höfum alveg sama rjett til þess. Hitt er annað mál, hvort rjett er að setja slík skilyrði um alla skapaða hluti, þó að full heimild sje til að setja þau fyrir eignarrjetti einstaklinga hjer á landi. Hitt er annað mál, hvort það var rjett að setja skilyrðin eins og þau voru sett í lagafrv. því, sem afgreitt var hjeðan úr deildinni fyrir nokkru. Það hefði verið eðlilegra, að þau lög hefðu fylgt lögum um búsetuskilyrði fyrir atvinnu. Því það tel jeg fyrst og fremst sjálfsagt, að setja þetta skilyrði fyrir sumum atvinnurekstri.

Annars er það þýðingarlaust að vera að fjölyrða mikið um þetta mál, og að endingu vil jeg strika undir það, sem bæði háttv. 2. þm. Árn. (E. Á.) og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hafa sagt, að munurinn á meiri og minni hluta er ekkert ýkjamikill.