19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Eggert Pálsson):

Jeg hefi ekkert við umhyggju hæstv. fjármálaráðherra (S. E) fyrir því að fjárhagur landsins sje sem bestur að athuga. Það er að eins vegna athugasemdar hans um að fjárveitinganefnd eigi í byrjun að gera sjer ljóst, að tekjur og gjöld skuli standast á, að jeg tek til máls. Það hefði má ske verið rjettmætt að koma með slíka ósk á dögum fjárlaganefndarinnar gömlu, sem hafði bæði tekju- og gjaldabálk fjárlaganna til umsagnar Er nú er alt öðru máli að gegna. Nú eru sjerstakar nefndir um hvorn bálkinn. Fjárhagsnefnd á að sjá um tekjubálkinn og þá getur það ekki verið framar sjerstök skylda fjárveitinganefnda, að sjá fyrir tekjum upp í öll útgjöld, er þær kunna að leggja til. Það er heldur ekki ábyggilegt fyrir fjárveitinganefnd efri deildar, þó hún taki tekjuupphæð fjárlaganna eftir 3. umr. í neðri deild og miði við það tillögur sínar um útgjöld, eins og nú hefir líka sýnt sig, því fyrir skemstu hefir tekjubálkurinn verið hækkaður um rúma miljón kr., við atkvæðagreiðslu hjer í deildinni. Hið eina sem vakað getur fyrir fjárveitinganefnd, er að leggja ekki til að fje sje veitt til annars en nauðsynlegra hluta. En þá er auðvitað álitamál hvað sje nauðsynlegt og hvað ekki. En svo hefir það altaf verið og verður altaf. Það er ómögulegt að kalla fjárveitinganefnd Ed. eyðslusama í þetta sinn, því að raunverulegar hækkanir nefndarinnar nema eins og jeg hefi sýnt fram á, að eins 17 þús. króna. Aftur sá nefndin sjer ekki fært að strika út verulega útgjaldaliði í 13. gr., sem þó hefði horft til sparnaðar, og lái henni hver sem vill.