12.08.1919
Neðri deild: 31. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

113. mál, brúargerðir

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg þarf ekki að vera langorður um frv. að þessu sinni, eða að minsta kosti ekki fyr en þm. hafa gert nánari grein fyrir brtt. sínum.

Nefndin hefir engar breytingar gert við frv. frá 1. umr., að þeirri undanskildri, að 15000 kr. í 2. gr. B. eru hækkaðar upp í 20.000 kr. Þetta hefir nefndin gert eftir áliti vegamálastjóra. Við þennan lið er aftur fram komin brtt. frá hv. þm Borgf. (P. O.). á þgskj. 309, þar sem þessi fjárhæð er færð upp í 22,000 kr. Mismunur þessi skiftir ekki miklu máli, en nefndin álítur brtt. hans samt vera óþarfa.

Þá er brtt. frá hv. þm. Borgf. (P. O.), á þgskj. 309, um að 50,000 kr. í 2. gr. VII. hækki upp í 80,000 kr. Nefndin er á móti þessari breytingu. Vegamálastjóri lagði til, að til þessa liðar væru áætlaðar 40,000 kr.; en nefndin hefir hækkað hann upp í 50,000 kr. og legst eindregið á móti frekari hækkun. Þess er vert að geta til frekari skýringar, að eftir áliti vegamálastjóra er ekki hægt að byggja meira af brúm árlega en sem svarar fyrir þessari fjárhæð, og ef tillagið sparast eitt ár, er það orðið 100,000 kr. næsta ár. Samkvæmt frv. liggja nú fyrir svo margar stórar og smáar brýr að óhugsandi er, að unnið verði fyrir meira árlega en sem svarar þessari fjárhæð. Eftir greinargerðinni, sem fylgir frv., er gert ráð fyrir, að brýr á þjóðvegum verði lagðar á næstu 8–10 árum og sýsluvegum á 10–15 árum. Og þessi áætlun mun vera fullhörð, miðað við þann vinnukraft, sem vjer eigum kost á. Þess vegna er engin ástæða til að óttast, að 50,000 kr. nægi ekki.

Þá er önnur brtt., á þgskj. 308 frá 2. þm. N.-M. (Þorst. J.). Hún fer í þá átt, að hækkað sje tillag ríkissjóðs til brúa á sýsluvegum. Nefndin hefir komið sjer saman um, að tillag ríkissjóðs til sýsluvega megi nema 2/3 hlutum byggingarkostnaðar, og að ¾ hlutum, ef brúargerðin kostar yfir 40 þús. kr. Þessum hlutföllum vill 2. þm. N.-M. breyta á þá leið, að í stað 2/3 hlutum komi ¾%, og í stað ¾ komi 4/5, ef brúargerðin kostar 30–40 þús. kr. En ef hún kosti yfir 50 þús., megi ríkissjóður bera kostnaðinn að 5/6 hlutum. Þessi breyting virðist nefndinni vera óaðgengileg og leggur því á móti henni. Eins og nú er háttað, hefir tillag hins opinbera verið miðað við 2/3 hluta. Sjerstakar undantekningar má þó gera á þessu, en þær mega ekki verða aðalregla. Með brtt. þessari er horfið frá hlutföllunum og undantekningin gerð að meginreglu. En nefndin sjer enga ástæðu til þess, að hlutföllunum sje breytt.

Þá er brtt. á þgskj. 306, frá háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) og háttv. þm. Borgf. (P. O.). Hún er þess efnis, að kostnaður við endurbyggingu þeirra brúa, sem taldar eru í VI. lið, greiðist úr ríkissjóði. Nefndin hefir ákveðið, að þessi kostnaður skuli greiðast að 2/3 hlutum úr ríkissjóði, en að 1/3 hluta af viðhaldsaðiljum. Ástæðurnar fyrir þessari brtt. eru samhljóða því, sem áður hefir komið fram, í öðru máli, sem sje þær, að sýslunum sje ofvaxið að bera viðhaldskostnaðinn. Brýrnar, sem tilheyra þessum lið, eru 9 talsins. Þar af eru 2 í Mýrasýslu, 2 í Borgarfjarðarsýslu, 1 í Snæfellsnessýslu, 3 á Fagradalsbraut og 1 í Rangárvallasýslu.

Það er nú að vísu svo, að töluverðs misrjettis kennir í þessu. Sum hjeruðin hafa orðið harðara úti en önnur um fjárframlög. Því að þótt svo sje ástatt, að hagsmunir þessara hjeraða sjeu meiri, þá eru þeir fremur fólgnir í sjálfum vegunum heldur en einstökum brúm. Nefndin hefir fært þetta í tal við vegamálastjóra, og hann vill ekki leggja á móti, að svo fari um endurbyggingu þessara brúa, sem brtt. fer fram á. Nefndin lætur það laust og bundið, hvernig deildarmenn greiða atkvæði um þetta atriði. Það mundi ekki raska grundvellinum í till. nefndarinnar, þó að brtt. væri samþ.

Þá er brtt. á þgskj. 315, frá þm. S -Þ. (P. J). við 2.gr. A.I.24.1ið, um að bæta Reykjadalsá inn á eftir 24. lið. Um þessar slóðir liggur nú þjóðvegur. En þó að honum verði breytt, sem gert mun vera ráð fyrir, vill nefndin áskilja, að brúin verði gerð þar, sem hinn væntanlegi þjóðvegur verður lagður. Að öðru leyti lætur nefndin atriði þetta afskiftalaust.

Loks er brtt. frá 2. þm. S.-M. (B. St.) á þgskj. 328, sem fer í þá átt, að á eftir 2. gr. A. I., 24. lið, komi Eskifjarðará. Þessi brú mundi verða á þjóðvegi En Eskifjarðará er lítið vatnsfall og umferð mjög strjál um þessar slóðir. Vegamálastjóri telur það skifta litlu máli, hvort áin er brúuð eða ekki. En hinu ber ekki að neita, að Eskifjarðarbúum, sem flytja hey eða eitthvað yfir ána, kæmi vafalaust vel, að hún yrði brúuð. Og þess ber enn fremur að gæta, að ef þarna yrði lögð akbraut, yrði að brúa ána. Vegamálastjóri telur það lítils vert, þó að þessari brú sje slept; lætur það laust og bundið eftir vilja deildarinnar. Og nefndin lætur þetta atriði afskiftalaust.