18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

113. mál, brúargerðir

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Það er rjett, að til þess er ætlast, að stjórnin annist um þessa lántöku á þann hátt, sem henni þykir hagkvæmast, hvort heldur hún telur hagkvæmt að taka lánið í einu lagi eða smátt og smátt eftir því, sem verðlagið er, þegar þar að kemur. Um aðflutt efni er vart að ræða annað en sement og járn; um timbur er ekki lengur talað í þessu sambandi. Ef sjáanlegt er, að þessar vörutegundir falli í verði, þá er stjórninni ætlað að hinkra við, og yfirleitt haga sjer sem skynsamlegast. Það er ekki meiningin, að endilega verði strax hlaupið til og tekið lán, heldur að stjórnin hafi heimildina, hvenær sem henni þykir rjett að grípa til hennar, og ráði því þá einnig, hvort lánið sje tekið í einu lagi eða smátt og smátt.