22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Kristinn Daníelsson:

Af því að hv. þm. Snæf. (H. St.) vitnaði til frsm. launa nefndarinnar þykir mjer rjett að standa upp og staðfesta skýrslu hans, því að hún var í alla staði rjett. Þegar launanefndin gekk að því, að aukalæknirinn á Ísafirði væri færður í fjárlögin, þá var það beint með því skilyrði, að læknirinn biði engan halla. Jeg treysti því þess vegna, að hv. deild samþykki þessa till. hv. þm. Snæf. (H. St.), enda er hún mjög hófleg, með því að að rjettu lagi átti læknirinn að fá 2500 kr. + dýrtíðaruppbót.

Úr því að jeg er staðinn upp, og með því að jeg er hlyntur brtt á þgskj. 937, kann jeg ekki við að láta flm. standa einan uppi, til þess að halda svörum fyrir henni.

Jeg skal taka það fram, að mjer finst of skamt farið í till., og hefði jeg helst kosið að fella liðinn alveg burt, því að jeg kem ekki auga á það, hver þörf sje að setja upp þessa sendiherrastöðu Jeg man það 1908, þegar átti að fá okkur til þess að samþykkja uppkastið, að þá var því haldið að okkur, að það myndi kosta svo mikið að hafa sendiherra, en þá var og sagt, að við getum hagað þessu eftir vild, og þyrftum ekki að hafa sendiherra nema eftir þörfum.

En þótt mjer þannig þyki brtt. fara of skamt, þá er jeg samt með henni, því að ef þessi maður á að koma fram sem sendiherra, þá hefi jeg enga trú á því, að fjárhæðin nægi. Manni í þessari stöðu er ekki nóg að geta dregið fram lífið; hann verður líka að geta haldið uppi sóma landsins. Jeg vil þess vegna hafa mann með einhverju óákveðnu nafni; það er nægilegt að veita honum erindisbrjef og tiltaka þar, hver störf hans sjeu. Fyrir minn skilning verð jeg að mótmæla því, að með þessu sje stigið nokkurt spor í þá átt, að vjer tökum að oss utanríkismálin; jeg veit ekki til þess, að með öðrum þjóðum sjeu utanríkismálin eða ráð þeirra í því fólgin að hafa sendiherra, heldur í því, að þjóðirnar hafa sjálfar sín utanríkismál í sínum höndum, og þegar vjer tökum þau í vorar hendur, þá er sjálfsagt, að vjer höfum sendiherra. Vjer þurfum ekki að sýnast, vjer þurfum ekki að auglýsa fullveldi okkar; það er viðurkent, hvað sem jus legationis líður eða hverju öðru jus. Dæmið um Norðmenn og deilu þeirra um jus legationis á ekki við oss; vjer höfum aldrei deilt um jus legationis við Dani; vjer höfum átt deilu við þá um fánann, og þeirri deilu er nú lokið. Hins vegar skal jeg manna síst verða til þess að mæla á móti því, að menn verði sendir hvert á land sem vera skal, þegar þörf krefur og vjer höfum fengið utanríkismálin í vorar hendur.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði að vjer værum glaðir af því, að hafa fengið hingað sendiherra frá Dönum. Það er ekki nema sjálfsagt að taka þeim manni með fullri kurteisi; en jeg veit ekki til þess, að hjer hafi verið nokkur ráðagerð um að fá þennan sendiherra, nema Dönum sýndist svo, og er það á þeirra valdi; en það getur á engan hátt skuldbundið oss til þess að sýnast á móti gera eitthvað, sem í rauninni er ekki neitt.