22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

127. mál, friðun fugla og eggja

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg hefi í raun og veru litlu að bæta við það, sem jeg sagði síðast um þetta mál. Jeg hefi orðið var við, að ýmsir álíta ekki þörf á að friða valinn eða að styðja að fjölgun hans. Jeg veit að valnum hefir fækkað mjög í sumum hjeruðum og er hann orðinn þar fágætur, en ef þessir menn, sem vilja láta valinn ófriðaðan, kæmu fram með brtt. í þá átt, að stytta friðunartímann, þá býst jeg við, að jeg gæti fallist á það. Jeg hefi að vísu ekki enn athugað það mál sem skyldi, en nokkur friðun er betri en engin. Það, sem fyrir mjer vakir með þessu frv., er svo víðtæk friðun, að örugt sje, að fuglar þessir, og þá einkum örninn, sjeu trygðir fyrir útrýmingu. Það þarf ekki miklu að muna úr því sem komið er um erni, sem á stórum svæðum landsins hafa ekki sjest um mörg ár. Jeg vona, að háttv. deild taki þessu litla frv. vel, með eða án þeirra brtt., sem jeg mintist á.