25.08.1919
Neðri deild: 44. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

134. mál, húsaskattur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta litla frv. gengur út á það, að tvöfalda húsaskattinn. Jeg vona, að það þyki ekki ósanngjarnt, þegar litið er til breytingar þeirrar á verðgildi peninga, sem orðið hefir á síðari árum, og eins hins, hvað hús hafa hækkað í verði. Það er vert að athuga, að sú hækkun á verði húsa kemur lítið til greina við þessa skattálagningu, nema þá á þeim húsum, sem hafa verið virt upp að nýju. Þetta nýja mat á fasteignum, sem er á döfinni, átti að vera komið til framkvæmda 1920. En nú er sjeð fram á, að svo verður ekki. Það þótti því rjettmætt að hækka þennan skatt lítið eitt, sem á að gilda á meðan. Jeg vildi jafnvel þrefalda hann frá því sem var, en þetta varð nú úr samt sem áður. Tekjuaukinn er ekki mikill. Jeg gæti trúað, að það nálgaðist 25 þús. kr. á ári.