25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg skal geta þess, að stjórnin gerði ráð fyrir, að tekjurnar væru áætlaðar mjög varlega. Jeg gerði ráð fyrir ½ milj. kr. tekjuafgangi, og komst þar að líkri niðurstöðu og hv. frsm. fjárhagsnefndar (M. G.), sem áætlar hann 439 þús. Í launabætur fara 2 miljónir, og verður þá 1 miljón kr. halli. Og þar við bætist 1 miljón kr., sem má gera ráð fyrir að fari í óviss útgjöld. Það er satt, að 1 miljón kr. er afborgun, en samt vil jeg vekja athygli manna á 4. lið 5. gr. sem fjallar um tekjur af skipum. Þessar tekjur eru áætlaðar 700 þús. kr., en þar er ekki gert ráð fyrir rýrnun. En í afborgun eru ætluð 400 þús. Aftur má búast við, að rýrnunin muni nema meiri upphæð en þetta, en það, sem rýrnunin nemur meiru, kemur til frádráttar tekjunum.

Þetta vildi jeg að eins benda á.