04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

134. mál, húsaskattur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Fjárhagsnefnd neðri deildar flytur þetta frv. Þó fram hefði komið frv. um verðhækkunarskatt á húsum, þá hefði mjer hreint ekki þótt frágangssök að forsvara það. Margir hafa grætt stórfje á að selja og leigja hús, og þeir, sem búa í sínum eigin húsum, standa margfalt betur að vígi en þeir, sem orðið hafa að kaupa eða leigja hús nú í dýrtíðinni. Húsaskatturinn myndi koma verst niður á þeim, sem bygt hafa ný hús, eða ætla að byggja. Um það kemur öllum saman, að rjett er að hækka skattinn á gömlum húsum. En eins og hv. þm. Ísaf. (M. T.) hefir haldið fram, þá er varla ekkert bygt nú á tímum, svo að þessir, sem skatturinn yrði tilfinnanlegastur fyrir, verða nauðafáir. En þó nú töluvert verði bygt í framtíðinni, þá verða nýju húsin leigð svo dýrt, að það verður stór hagur að húseignum, þrátt fyrir þessa litlu hækkun á húsaskatti.

Jeg hefi verið dálítið hissa á því hvað hv. þm. Ísaf. (M. T.) hefir verið samkvæmur sjálfum sjer í því að berjast á móti tekjuaukafrumvörpum. Eftir hinum glæsilegu fjárhagshorfum landsins, sem hann hefir lýst, gæti þetta verið skiljanlegt. En jeg vildi bara biðja hann um að fara heim og læra betur. Það er margbúið að sýna, að horfurnar eru ekki sjerlega glæsilegar.

Ef fjárlögin verða send frá þinginu eins og hv. fjárveitinganefnd neðri deildar hefir afgreitt þau, — en til þess eru mestar líkur —, þá verður 2 miljóna kr. tekjuhalli á næsta fjárhagstímabili. Við þær skuldir, sem landið þegar hefir hleypt sjer í, bætast 2 miljónir króna. Annars skal jeg skýra nánar frá fjárhagnum þegar fjárlögin koma hingað frá hv. neðri deild. Jeg vildi í þetta sinni að eins benda á, að ekki er byggjandi á hinum glæsilegu hugmyndum, sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) virðist gera sjer um fjárhag ríkisins. Hjer er að vísu ekki um mikla fjárhæð að ræða, á að giska um 30 þús. kr., en það munar strax.

Jeg mun ekki taka oftar til máls við þessa umræðu; jeg þarf að vera viðstaddur fjárlagaumræðurnar í Nd., en jeg vona, að hv. deild samþykki frv. eins og það nú liggur fyrir.