22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

68. mál, gjald af innlendri vindlagerð og tilbúningi á konfekti og brjóstsykri

Guðjón Guðlaugsson:

Brtt. er að vísu seint fram komin, en það sýnir að eins, að ekki hefir verið talað fyr en búið hefir verið að þrauthugsa. Og ekki veit jeg betur en að brtt. hafi eins mikinn rjett á sjer við 3. umr. eins og í hvern annan tíma. Tilætlunin var raunar, að brtt. kæmi við 2. umr., en þá var jeg í öðrum önnum, og þess vegna kom hún fyrst nú. En eins gild er hún fyrir það.

Enn er óleyst úr þeirri spurningu, til hvers sje verið að bera fram till. um toll á innlendri vindlagerð. Ef tilgangurinn er að afla ríkissjóði tekna, þá er frv. markleysa, því engar tekjur fær ríkissjóður af þeim iðnaði, sem ekki er til í landinu. Þá er að eins eftir hin skýringin, að hjer sje um eina bannlagaviðleitnina að ræða, hjer sje verið að setja lög, sem í reyndinni verði bannlög gegn innlendri vindlagerð.

Til slíkrar starfsemi sem þessarar þarf bæði iðnaðar- og verslunarleyfi, og verður því aldrei meira til samans en 200 kr., sem jeg áðan nefndi. Annars er okkur hv. frsm. (G. Ó.) þýðingarlítið að karpa um þetta atriði. Við erum hvorugur lögfræðingur, en gott væri, ef annarhvor lögfræðingur deildarinnar gengi hjer í milli.

Ein verksmiðja hjer í bænum hefir haft brjóstsykurtilbúning og grætt nokkuð, og borgað ekki óverulegan tekjuskatt. En engan toll hefir hún borgað enn þá. Það væri illa farið, ef sett væru lög, sem kæmu slíkum verksmiðjum til að hætta, og mistist þa bæði tollurinn og tekjuskatturinn. Hitt á að leggja stund á viðvíkjandi innlendum iðnaði, að styrkja hann í samkepninni við hinn útlenda, hvort sem um brjóstsykur- eða vindlagerð eða eitthvað annað er að ræða.