01.09.1919
Efri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

140. mál, landhelgisvörn

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg get byrjað með því að þakka hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) ræðu hans í þessu máli, og er jeg sammála honum um það, að best verði að hafa alt sem fullkomnast.

Það var rjett, sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) mintist á, að ekki stendur í frv., að stjórnin skuli leigja skip, heldur kaupa eða láta byggja, og var það aðalhugsun nefndarinnar. Hins vegar býst jeg við sbr. og skilning meðnefndarmanna minna að stjórninni myndi ekki óheimilt að leigja skip, meðan verið væri að kaupa eða láta smíða það skip, er nota ætti til frambúðar. Hefi jeg ekkert á móti, að 1. gr. frv. verði breytt svo til 2. umr., að þetta komi enn skýrar fram.

Viðvíkjandi aths. þeirri, er hæstv. forsætisráðherra kom með um það, að kaup það, er nefndin hafði áætlað, myndi alt of lágt, saman borið við kaup togaraskipstjóra, er því til að svara, að nefndinni hefir aldrei komið til hugar að bera kaup skipstjóra strandvarnarskipsins saman við hið gífurlega kaup togaraskipstjóra. Nefndin setti þessar tölur í greinargerðina með tilliti til þess, hvernig skipstjórar á samskonar skipum eru launaðir með erlendum þjóðum.

Jeg get verið sammála hæstv. forsætisráðherra (J. M.) um það, að útbúnaðurinn á væntanlegu strandvarnarskipi verður að vera góður. Nefndin hefir ekki treyst sjer til að gera áætlun um, hversu mikið slíkt skip muni kosta, en jeg býst við, að verðið verði 5–600 þús. kr. Og þó verðið kunni að verða 700 þús. kr., skiftir það ekki svo miklu máli, þar sem sú upphæð er greidd svo að segja í eitt skifti fyrir öll.

En hæstv. forsætisráðherra (J. M ) var að tala um, að ekki mætti hrapa að málinu. Það er ekki vilji nefndarinnar, að hrapað sje að því. En jeg tel það ekki að hrapa að málinu, þó farið sje nú að undirbúa það, þar sem mál þetta hefir verið athugað bæði í ræðu og riti ár eftir ár, og jeg leyfi mjer að mótmæla því, að ekki verði byrjað að byggja skipið fyr en að sumri. Útlendingar geta verið búnir að gereyðileggja fiskimiðin fyrir þann tíma, og eftir framferði þeirra að dæma þennan stutta tíma síðan friður var saminn, tel jeg líklegt, að svo verði.

Jeg tel það gersamlega óforsvaranlegt, ef þingið gerir ekki eitthvað til að hrinda þessu máli sem fljótast í viðunandi horf.